laugardagur, september 06, 2008

Stóra reykingamálið

Þeir sem hafa fylgst með þessu bloggi í einhver ár hafa væntanlega tekið eftir því að ég hef átt í ástar-haturs sambandi við sígarettur. Undanfarinn rúman áratug hef ég nú samt reykt minna heldur en meira og undanfarin ár bara félagslega. Eftir að við Braveheart rugluðum saman reytum fyrir rúmum tveimur árum þá hef ég ekki tekið einn einasta smók. Hann reykir ekki og þetta hefur bara þróast svona. Ég áskil mér samt fullan rétt til að falla á mínu reykbindindi hvenær sem er.

Eftir síðustu áramót er ég að kenna á meðferðarheimilinu og þá segir einn strákurinn við mig:
,,Stelpan spurði mig um daginn hvort mig langaði í sígó og ég sagði auðvitað já. Þá sagði hún að ég ætti bara að fara í töskuna þína því þú værir alltaf með sígarettupakka í töskunni."
Ég segi stráknum að ég sé hætt að reykja og hafi þar fyrir utan aldrei geymt tóbak í töskunni minni. Í framhaldi af því verður okkur að samkomulagi að hann megi reykja, beint fyrir framan mig í stofunni, allar þær sígarettur sem hann finni í töskunni minni. Hann verði náttúrulega að finna þær, hann megi ekki planta þeim.
Ég segi forstöðukonunni frá þessu þar sem mér finnist ekki gott að stelpan sé að hvetja strákinn til að gramsa í töskunni minni, mér dettur helst í hug að hún sé að reyna að koma honum í eitthvert klandur. Forstöðukonan segir mér þá að stelpan hafi verið að tala um það að ég kveikti mér alltaf í sígarettu beint fyrir utan húsið og reykti að bílnum og í bílnum á leiðinni í skólann. Þetta fannst henni dálítið skrítið þar sem hún vissi ekki til að ég reykti en auðvitað væri mér það fullkomlega frjálst að reykja þarna úti á hlaði.
Í matnum erum við strákurinn að fíflast með hvað það verði nú gott að fá sér sígó eftir matinn og stelpan spyr hvað við séum að meina. Svo ég segi henni að ég sé búin að vera reyklaus í tvö ár. Hún snýr sér að mér, setur upp þvílíkan svip og segir með mjög ákveðnum tón: ,,Ég sá þig!"

Ég hef upplifað ýmislegt í kennslu. Oft hafa krakkar misskilið eitthvað sem hefur verið sagt eða rangtúlkað það en mjög sjaldan hafa þeir beinlínis logið. Svo ég segi við stelpuna að hún hafi kannski séð móðu koma frá munninum á mér í kulda og ég hafi haldið á bíllyklinum en nei. Hún algjörlega upp á stóð að hún hefði séð mig reykja. Og ekki nóg með það heldur var annar strákur sem hefði séð það líka en hann var útskrifaður á þessum tíma.

Þessi umræða vatt upp á sig og varð leiðinleg. Hinir krakkarnir á meðferðarheimilinu fóru að fíflast með þetta en þó á þann hátt að þeim var fullkomlega ljóst að ég reykti ekki. Það fannst auðvitað aldrei nein reykingalykt af mér og aldrei sá neinn pakkann né hafði nokkurn tíma séð sem alltaf átti að vera í töskunni minni. En stelpan var algjörlega föst í þessu og fullyrti að það væri ég sem lygi. Það endaði með því að ég hringdi í hitt ,,vitnið" og spurði hann að þessu og hann sagði að þetta væri tóm vitleysa. Þá var hann bara að ljúga líka. Eftir langa mæðu fékkst hún til þess að viðurkenna að kannski hefði henni missést en þá vorum við báðar orðnar leiðar á umræðunni og vildum stoppa hana.

Í rauninni skiptir þetta auðvitað engu máli. Mér er fullkomlega að frjálst að reykja ef mér sýnist svo og hennar ofskynjanir valda mér ekki lungnakrabba.
En hvað ef þetta væri eitthvað sem skipti máli...

þriðjudagur, september 02, 2008

Getum við gleymt honum núna?

Ég átti skemmtilegt samtal við litlu systur mína um daginn. Mér fannst aðsóknarkennd fyrrverandi borgarstjóra þvílík að hann hlyti að vera eitthvað bilaður. Litla systir svaraði að bragði: ,,Hann er ekkert geðveikur þessi maður. Hann er bara heimskur."

Núna þegar hann er ekki borgarstjóri lengur þá væri voða gott að fá smá pásu. Mér þætti alla vega ósköp huggulegt að þurfa ekki að horfa á hann í blöðum eða sjá hann og heyra í sjónvarpi. Ég er búin að fá yfir mig nóg af þessum vitleysisvaðli.