Nýverið var viðtal í síforsetaframbjóðandann Ástþór Magnússon í útvarpsþættinum Harmageddon.Viðtalinu var nokkuð dreift á samfélagsmiðlum og ég skrollaði alltaf fram hjá því enda orðin nokkuð langþreytt á Ástþóri sannast sagna. Það var ekki fyrr en fésbókarvinur mælti sérstaklega með því að ég lagði á mig að hlusta á viðtalið.
Ástþór er gífuryrtur, því verður ekki
neitað. Í stuttri endursögn segir Ástþór að Shlomo Moussaieff,
tengdafaðir forsetans, hafi verið hálfgerður glæpamaður
sem hafi auðgast á vafasaman hátt, m.a. með smygli á demöntum yfir
landamæri. Þá sé fjölskyldufyrirtækið ekki búið að vera í "marga
ættliði" í
fjölskyldunni heldur hafi Shlomo stofnað það upp úr 1960.
Dorrit sjálf sé heldur sérstök og nefnir hann að hún hafi fengið á sig nálgunarbann í London og svo telur hann að hún og fjölskyldufyrirtækið hafi sérstaka hagsmuni af því að hún hafi diplómapassa frá Íslandi. Nefnir hann uppákomu við landamæraeftirlit í Ísrael.
Ókey, ég er ekki aðdáandi forsetahjónanna. Það að ég sé ekki hrifin af manninum á auðvitað ekki að bitna á konunni en satt best að segja finnst mér framkoma hennar á stundum jaðra við kjánaskap sem er hreint ekkert krúttlegur.
Þrátt fyrir þetta hugsaði ég með mér "nei, andskotinn, Ástþór." En hann sagðist hafa fundið þetta allt á netinu svo það ætti að vera hægur vandi að staðfesta eða hnekkja frásögnina. Sjálf fann ég strax í fréttum að nágranni Dorritar í London hafi fengið á hana nálgunarbann ( kjánahrollur, úff) að til "öskurkeppni" hafi komið á milli hennar og landamæravarðar.
Vera Illugadóttir tók fyrir ásakanirnar á hendur Shlomo og gerir það faglega.
Fyrir utan hversu hjákátlegt margt af þessu er þá er ákveðið skemmtanagildi fólgið í þessu og ég er ekki að ætlast til að fjölmiðlar velti upp mörgum steinum í leitinni að sannleikanum. Hins vegar er eitt sem mig langar virkilega til að vita og óska eftir upplýsingum um og það er þetta:
Hvaða starfsheiti hefur Dorrit Moussaieff hjá skartgripasölunni Moussaieff Jewellers sem er svo ábyrgðarfullt og mikilvægt að hún þurfti að flytja lögheimilið sitt frá Íslandi til að geta sinnt því?