laugardagur, júní 21, 2014

Hamingjusama húsmóðirinÞað er ekki hægt að segja með góðu móti að frúin á Hálsi hafi gaman að heimilisverkunum. Nei, þau
eru með því allra leiðinlegasta sem ég veit. Ég veit ekki vel af hverju það stafar. Kannski vegna þess að þegar ég var krakki þá neyddi móðir mín mig til að þurrka af og ryksuga í stofunni á reglulegum basis. (Uppeldi til ábyrgðar eða eitthvað svoleiðis.) Hún hafði líka gaman að smáum skrautmunum sem hún hlóð alls staðar. Alls staðar. Í allar gluggakistur, á allar hillur, á öll borð.... Það er ekkert mál að þurrka af einni gluggakistu en þegar það þarf fyrst að tína alla skrautmunina úr henni og raða þeim svo til baka... Ekki alveg jafn einfalt. Sem krakki og táningur þá bara þoldi ég þetta ekki. Þoldi. Það. Ekki. Þá hefur mér dottið í hug, af minni alkunnu hógværð, að ég sé bara ekki vinnukona. Ég er drottning. (Og voru nú sopnar hveljur ;) )
Þannig að ég játa það að ég hef ekki ofreynt mig á húsverkunum í gegnum tíðina. Þjáðst óskaplega? Já. Ofreynt mig? Nei. 

 En svo flutti ég í sveitina, varð eiginkona og móðir og með í pakkanum fylgdi húsmóðurstimpillinn. Það er svo merkilegt en hér í sveitinni eru miklu meiri allt-í-toppstandi kröfur en í borginni. Ég veit ekki hverju það sætir en þannig er það.
Fyrir u.þ.b. þremur árum, þegar ég sat heima í atvinnuleysi, ákvað ég að verða Hin Fullkomna Húsmóðir. Engar málamiðlanir. Húsið skyldi alltaf vera í toppstandi. Toppstandi.
Á þessum tímapunkti var húsið nýtt og lóðin ófrágengin. Möl og sandur sópuðust inn. Litli skæruliðinn var líka duglegur að koma með sand inn fyrir mömmu sína. Og frúin byrjaði að þrífa. Og þreif og þreif og þreif... Eftir ákveðinn tíma komst ég að eftirfarandi niðurstöðu: Ef ég ætlaði að halda húsinu í toppstandi alltaf þá yrði ég að skúra gólfið tvisvar á dag. Mig setti hljóða.
Eftir þessa uppgötvun sá ég þrjá kosti í stöðunni:

1)      Hafa húsið ekki í toppstandi alltaf og sætta mig við hneykslunarfullt augnaráð tilfallandi gesta.
2)      Einhenda mér í þrifin og eyða lífinu í að skúra húsið.
Mér var einu sinni sagt frá konu sem dó. Gerist á bestu bæjum. Nema hvað að þegar kom að því að minnast konunnar þá virtist enginn muna eftir neinu nema súkkulaðikökunni hennar. Sögukonu var ekki skemmt.
Ég sá minningargreinina fyrir mér: Ásta hélt manni sínum alltaf snyrtilegt heimili. Er öllum minnisstætt hvernig hægt var að spegla sig í tandurhreinu gólfinu á Hálsi. Við munum seint fá skilið af hverju hún tók þá ákvörðun að drekkja sér í skúringarvatninu langt fyrir aldur fram...


3)      Kaupa skúringarróbót.

Í vor lét ég það svo loksins eftir mér að kaupa skúringarróbót. Hefði mátt halda að drottningin gæti nú sinnt mikilvægum málum eins og að bjarga heiminum eða semja einhver stórbrotin bókmenntaverk. Ekki aldeilis.
Ég er svo yfir mig ánægð með skúringarróbótinn minn að ég er gjörsamlega á útopnu. Núna er ég upptekin við að hafa gólfin alltaf auð og hvæsi á skæruliðana þegar þeir setja eitthvað á gólfið. Hvessi augun á ullarsokka eiginmannsins og leita að grasstrái í leynum. Svo horfi ég heilluð á litla róbótinn minn renna yfir gólfið og gera allt hreint. Ég er hamingjusamasta húsmóðir í heimi þessa dagana. Aðrir heimilismenn eru hálfhræddir. En húsið er hreint!


föstudagur, júní 20, 2014

Kona reynir að minnka sig

Ég hef, nánast alla tíð, verið í megrun. Ég get með nokkru sanni sagt að mestallan tímann hafi ég verið að hlaupa á eftir samfélagsduttlungum. Það var ekki gaman að vera táningsstúlka og hlusta á lög eins og Feitar konur eða Of feit fyrir mig glymja sí og æ í útvarpinu. En... Þetta er hætt að snúast um samfélagsduttlunga. Núna er eitthvað annað í gangi. Eitthvað undarlegt.
Við skulum hafa eitt á hreinu. Hugmyndin sem ég hef um sjálfa mig er 18 ára rokkari. Mjög einfalt.
Móðir náttúra kemur sjálfsblekkingunni hér til hjálpar því eftir því sem gráu hárunum og hrukkunum fjölgar versnar sjónin. Þá er spegillinn á baðinu staðsettur undir ljósi svo undirhakan fellur í skugga. Ég veit líka hvar spegillinn er og hvenær hann nálgast og er búin að soga inn kinnarnar og magann og skjóta fram brjóstunum um það leyti sem ég er fyrir framan hann. Alltaf há, grönn og ljóshærð í speglinum mínum. Sama máli gegnir um meðvitaðar myndatökur.
Óvæntar myndatökur eru öllu verri. Og það versta af öllu: Gluggar! Finnið upp speglunarlausa glugga núna! Ég er í bænum í mesta sakleysi og rek augun í miðaldra konu. „Rosalega er þessi búttuð“ hugsa ég kvikindislega. „Og lík mér...  Ætli við séum skyldar?“ Svo: „NEEEIIIII!!!!!“ 

Eftir nokkrar svona uppákomur komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti sennilega að halda eitthvað í við mig. Nú þarf ég nauðsynlega að koma því á framfæri að þótt mér finnist gott að borða og summa lastanna sé alltaf sú sama og ég bæði hætt að reykja og drekka þá borða ég ekki eins og svín. Í alvöru, ég geri það ekki. Mér finnst svo sem skiljanlegt að ég grennist ekki en mér er fyrirmunað að skilja að ég fitni stanslaust. Ég er helst á því að ég hljóti að vera með biluð efnaskipti. Þá er líka agnar, obbopínu, ponsu, smá, afar fjarlægur möguleiki að eitthvað hafi hægst á þeim vegna aldurs en persónulega tel ég það afar ólíklegt. Afar. Þetta er bara hreint og klárt mannréttindabrot.

Þannig að frúin fór í aðhald. Og ekkert gerðist. Mannréttindabrot, ég er að segja ykkur það.
Ókey, ég þarf aðstoð hugsaði ég og hafði samband við Herbalife-díler. Keypti sjeika og pillur og Herbalife-nammi. Fullt af því. Borðaði pillurnar með matnum mínum og ekkert gerðist. Ég á víst að borða minna og hreyfa mig líka. Til hvers er ég að kaupa Herbalife til að borða minna og hreyfa mig meira? Ég get gert það ókeypis. Hún sagði líka að ég ætti að hætta að nota mjólk í kaffið af því ég fengi svo stóran rass af því! Hingað og ekki lengra! Hér dreg ég mörkin! Ég hætti ekki að nota mjólk í kaffið! Fat bottom girls make the rockin‘ world go round og ég er 18 ára rokkari inn við beinið. Já, ég veit, ég veit...

Þannig að ég reimaði á mig hlaupgönguskóna og arkaði galvösk, galvösk alveg, niður að Skjálfanda nokkra daga í röð. Þá fékk ég verki í sitthvora næststærstu tærnar. Þjáningar, ofan á allt annað. Hélt samt áfram að ganga af því að ég er hörkutól. Jebb, ég er nagli. Ekki alveg jafn mikið hörkutól þegar tærnar urðu bláar. Svo duttu táneglurnar af. Í alvöru. Einhvers staðar hljóta að vera takmörk. Þetta er svo hryllilega ólekkert. Ég get ekki verið í opnum skóm. Ég á þá ekki en það er aukaatriði í málinu. Aðalatriðið er að ég á alveg ógeðslega bágt. Kúlulaga OG tánaglalaus. Þá er betra að vera bara kúlulaga. Svo ég hætti að ganga.
Herbalife-dílerinn hringdi í gær. Samtalið var mikið til svona:


mánudagur, júní 16, 2014

London - París - Raufarhöfn

Fyrir 22 árum þegar ég var 22 ára, nei, ég skil ekki þetta með tímann, þá ákváðum við Gummi æskuvinur minn að fara til Raufarhafnar í sumarvinnu. Mamma hans og stjúpi voru að taka við Hótel Norðurljósum og hann ætlaði að hjálpa þeim með það. Ég fékk vinnu í Fiskiðjunni, enda algjörlega heilaþvegin af Bubba Morthens þessi árin.
Gummi átti gamlan, svartan Citroen sem var með bilaðan bakkgír. Á honum fórum við enda stóð ekki til að bakka út úr ævintýrinu. Eins fyndið og okkur fannst þetta þá fylgdu því ákveðin vandkvæði að vera á bakkgírslausum bíl en á áfangastað komumst við. 

raufarhofn.net
Fyrst í stað gistum við hjá Skafta bónda, frænda Gumma, á Ásmundarstöðum. Gummi var búinn að segja mér að Skafti væri ekki mikil pjattrófa og sturtuaðstaðan væri bara steypan. Hins vegar setti hann „drottningarmottuna“ á gólfið þegar systir hans, amma Gumma, kæmi á sumrin. Skafta þótti nú ekki mikið til svona Reykjavíkurliðs koma svo þótt við fengjum að liggja inni þá máttum við baða okkur á steininum. Tveimur dögum seinna ca. spyr ég hann hvort ég geti fengið far með honum í Fiskiðjuna því ég átti að byrja að vinna daginn eftir en hann var stálari í Fiskiðjunni. Jú, ég mátti það svo sem. Og viti menn, um kvöldið var drottningarmottan komin í sturtuna.
Stuttu seinna fluttum við á hótelið enda það tekið til starfa.

Stolið frá Sóleyju Sturludóttur.
Ég þjáðist af óskaplegri bónusfötlun í fisksnyrtingunum svo ég fékk aukavinnu við að spúla eftir vinnu. Bætti það aðeins úr skák. Svo vann ég á barnum á hótelinu og var næturvörður. Þess á milli var djammað og djúsað við undirspil Uriah Heep. Ég vann eins og hestur, drakk eins og svín og reykti eins og strompur. Góðir tímar. Ég held ég hafi klárað bróðurpartinn af kvótanum þetta sumarið. Mitt uppáhaldseitur var Beefeater gin í Fanta lemon. Þegar ég vann á spítalanum var oft notað spritt með sítrónuilmi. Eitt sinn gekk ég inn á nýsprittað og sópaðist beina leið til Raufarhafnar. Var nánast óvinnufær í nokkrar mínútur.

raufarhofn.net
Það voru nokkrir góðir karakterar á Rieben. Ég man eftir hörkukerlum sem höfðu unnið í fiski alla sína tíð. Ein drakk viskí og reykti camel filterslausan. Djöfull var hún töff. Lottóvinningshafinn sem týndi framtönnunum. Og svo auðvitað Einar Íslendingur, blessuð sé minning hans.
Fyrir nokkrum árum tók ég rútuna til Akureyrar og með í för var mjúkur Raufsari sem sagði „félagi“. Ósköp fannst mér það huggulegt.

Já, það var gaman að skrattast á Rieben. Ég fann meira að segja fyrstu ástina mína. En það er önnur saga.