þriðjudagur, ágúst 13, 2019

Gámaþjónusta Norðurlands tekur þátt í ofbeldinu

Eins og allir lesendur vita er forkastanleg staða uppi á Hálsi. Meðeigendur mannsins míns neita samstarfi, sáttum, kaupum og eða sölu. Það eina sem upp á er boðið er að fjölskyldan flytji úr af heimili sínu, húsinu sem við byggðum, fyrir rétt tæpum 10 árum síðan.
Yngri bróðirinn er móðgaður vegna smámuna og honum hefur tekist að sannfæra hinn um guð má vita hvað. Hinn vinnur alla vega stöðugt gegn eigin hagsmunum og leyfir Lilla að blóðmjólka búið.

Ég veit ekki til þess að við höfum gert Hinum eitthvað, nema hvað hann varð gróflega móðgaður þegar við sögðumst vilja borga Lilla meira fyrir hans hlut þar sem hann hefur lagt meira af mörkum til búsins. Það vita það allir að það er rétt. Hinn hefur alla tíð verið mjög iðinn við að koma sér undan verkum.

Í apríl byrjaði Hinn að vinna hjá Gámaþjónustu Norðurlands. Áður höfðu báðir mennirnir á bílnum alltaf komið út og sinnt verkunum en núna kom bara annar út, Hinn sat inni í bílnum. Íronískt í ljósi okkar reynslu en greinilegt að fyrst samstarfsaðilinn leyfði honum að komast upp með þetta þá hefur eitthvað verið sagt. Eitthvað rangt af því eins og sagði áður, við höfum ekkert gert þessum manni annað en að bjóða honum verulegar upphæðir í hlutinn hans. Meira en Lilla bara svo það sé á hreinu.

Í vor var bílnum bakkað mjög hratt og nálægt húsinu okkar svo mér varð ekki um sel en ákvað að skrifa það á mistök.

Fyrir ca. þremur vikum kem ég heim rétt eftir að bíllinn hafði verið hér. Eldri drengurinn var úti að viðra hundinn og hann sá þegar aðeins annar maðurinn kom út (Hinn sat undir stýri). Þegar tunnan var að tæmast þá kom vindhviða og eitthvað af draslinu fauk í burtu. Starfsmaðurinn skildi það bara eftir og það var keyrt í burtu. 
Við drengurinn tíndum draslið upp þegar ég kom heim og þá var það auðvitað fokið lengra og víðar. Ég hafði samband við Gámaþjónustu Norðurlands í gegnum síðuna þeirra, lýsti því sem gerðist og sagðist ekki alveg sátt við svona vinnubrögð. Engin svör bárust. 

Eftir tvö ár af ofbeldi og viðbjóði þá er maðurinn minn orðinn langþreyttur. Hann hringdi í Gámaþjónustu Norðurlands og var ekki sáttur við þetta. Þá sagði hann líka að hann kærði sig ekki um þennan mann hjá heimilinu sínu. Viðmælandi spurði hvort hann væri að fara fram á að hann ræki hann en maðurinn minn neitaði því, hann vildi hann bara ekki hjá heimilinu sínu. Heimilinu sem þessi maður er að reyna að flæma okkur í burtu af.

Í dag kom gámabíllinn.
Það var keyrt fram hjá húsinu okkar.

Við borgum fyrir sorpþjónustu. Þingeyjarsveit er með samning við Gámaþjónustu Norðurlands. 

Ég hringdi í Neytendasamtökin. Við eigum rétt á þessari þjónustu. Við eigum rétt á því að henni sé sinnt án ógnandi tilburða og án þess að drasli sé dreift í kringum okkur.

Ég fer hér með fram á að Gámaþjónustan sinni þeim samningum sem hún hefur gert við Þingeyjarsveit.

Update.
Við höfðum samband við sveitarstjóra Þingeyjarsveitar og bíllinn kom aftur og tunnurnar voru tæmdar. Takk Dagbjört 😀

Sumir sátu auðvitað sem fastast og þorðu ekki að sýna á sér andlitið 😡


mánudagur, ágúst 05, 2019

föstudagur, ágúst 02, 2019

Að flæma fjölskyldu af heimili sínu

Ég er búin að margsegja þetta en samt virðast ekki allir skilja hvað er í gangi hérna á Hálsi. Svo ég ætla að segja það einu sinni enn í von um að það skiljist:

Fyrir 10 árum síðan byggðum við hjónin hús fyrir okkur og fjölskylduna okkar. Það kostar alveg jafnmikið að byggja hús úti í sveit eins og annars staðar. Það hins vegar selst ekki á sama verði. Við byggðum húsið samt því við ætluðum að búa hér út ævina. Við ætluðum aldrei að selja þetta hús.

Fyrir tveimur árum móðgaðist maður vegna smámuna.Hann er svo móðgaður að hann er búinn að búa til risastóran hnút og taka hinn meðeigandann með sér inn í delluna.

Við erum margbúin að bjóða sættir. Marteinn er margbúinn að gera tilboð í allt. Við erum margbúin að reyna að leysa þetta en allt kemur fyrir ekki.

Það eina sem mótaðilarnir bjóða upp á er að allt verði selt þ.m.t. húsið okkar. Ef við samþykkjum það ekki þá verður okkur haldið í þessu helvíti, í andlegri, veraldlegri og fjárhagslegri gíslingu.

Einhverra hluta vegna virðist fólk ekki skilja það að ef húsið okkar er selt þá eigum við það ekki lengur. Sem þýðir að við verðum að flytja úr því. Við hjónin með drengina okkar tvo. Fjölskyldan.

Þannig að það er beinlínis verið að reyna að flæma tvo drengi af heimilinu sínu. Annar flutti hingað eins og hálfs árs og hinn er fæddur hér. Þetta er eina heimilið sem þeir þekkja.

Takk fyrir að taka þátt í aðförinni.


föstudagur, júlí 19, 2019

Gullskikinn


Við hjónin höfum ítrekað beðið um að fá stærri lóð utan um húsið okkar. Því hefur alltaf verið neitað á þeirri forsendu að þessi skiki sé algjörlega bráðnauðsynlegur rekstri búsins.

Nú í sumar bregður hins vegar þannig við að bændurnir á Kvíabóli hafa verið að hirða slægjuna af túnunum hér á Hálsi. (Að þeir hafi geð í sér að taka þátt í þessu rugli öllu er þyngra en tárum taki.) Einum eiganda og stjórnarformanni fyrirtækisins er ekki sagt hvernig þeim samningi er háttað né undir hann borinn. Framkvæmdastjóranum þóknast auðvitað ekki heldur að svara fyrirspurnum þar um þótt honum beri að gera það skv. lögum og samþykktum fyrirtækisins. Enda alveg ljóst að maðurinn á tvöföldu laununum vegna "tvöföldu vinnunnar" er ekki að sinna þessari meintu tvöföldu vinnu.
En hvað um það.
Það er alla vega alveg ljóst að þessi neitun snýst um eitthvað annað en nauðsyn enda er gullskikinn ekki einu sinni sleginn.
Bróðir þeirra, bróðursynir og helv.. kerlingin skulu ekki njóta góðs af neinu. Og þeir ætla sér alls ekki, undir neinum kringumstæðum, að leysa þetta. Það eru þeir sem halda hér öllu í heljargreipum.
Vona að ykkur líði vel í sálinni.

sunnudagur, júní 16, 2019

Tvennt

1. Það getur hver sem er skráð sig til heimilis hvar sem er. Það þýðir ekki að viðkomandi sé þar með skráður í sambúð. En ef svo er þá til hamingju með að vera komin í hóp heiðarlegra skattgreiðenda.

Tryggingastofnun kallaði eftir skattaskýrslum mörg ár aftur í tímann fyrir 14 árum siðan.


þriðjudagur, júní 04, 2019

Einbýlishús til sölu UPPFÆRT

Húsið okkar á Hálsi er til sölu fyrir rétt verð. 

Húsið er 4-5 herbergja. Tvær forstofur, þvottahús í annarri og lítið baðherbergi. 3 svefnherbergi og stórt baðherbergi. Stór stofa og aukastofa með rennihurðum sem hægt er að breyta í gestaherbergi.

Húsinu fylgir lítil gistieining. (Sjá hér.)
Undanfarið ár hafa tvö herbergi í húsinu einnig verið leigð út. Nokkuð góðar tekjur fylgja þessari útleigu og er fyrirtæki með öllum leyfum utan um reksturinn. Það getur fylgt með í kaupum.

Lítil lóð er í kringum húsið.

Við erum til í alls konar skipti og skoðum allt. Helst á Húsavík eða á Stór Reykjavíkursvæðinu.

Hafið samband við Karl Gunnarsson hjá Lundi í síma 898-2102 vegna hússins.

Einnig er möguleiki að kaupa hlut í búrekstri.
Hafið samband við Kristínu Edwald hjá LEX í síma 590-2600 vegna búsins.
Nánar auglýst síðar.

laugardagur, maí 11, 2019

Klikkaðar konur

"Hún er nú bara klikkuð!" 
Við höfum öll heyrt af klikkuðum konum. Við sem erum konur höfum verið "klikkaðar" á einhverjum timapunkti. Það sem er hins vegar merkilegt er að þessi meinta "klikkun" er aldrei skilgreind neitt frekar.
Þannig að næst þegar einhver talar um "klikkaða" konu við þig spurðu þá hvernig þessi klikkun lýsir sér.As Matthew Zawadzki, PhD, (a professor at UC Merced who studies perceptions of one’s own and other’s emotions) explains, “‘Emotional’ is a term used to label women whom you don’t want to have a voice in a situation. When a couple is having an argument, even if a woman has a well-thought-out reason for being upset, a guy might say, ‘You’re just being emotional.’ It’s a way to discredit her instead of having to listen; the words ‘you’re acting crazy’ really mean ‘I don’t have to pay attention to you.’” (Feitletrun mín.)  https://www.refinery29.com/en-us/2014/09/75146/stop-women-crazy-emotions-gender

miðvikudagur, maí 01, 2019

Vörður á lífsleiðinni


Ég er komin á þann stað i lífi mínu að ég get ekki lesið nokkurn skapaðan hlut án gleraugna. Nýverið var ég að vinna í tölvunni og þurfti þá gleraugu. Við hjónin kaupum gleraugu nánast í tugatali, frúin hefur þann ávana að leggja þau frá sér hér og hvar. Aðallega hvar.
Hófst því leit að gleraugum. Leitin tók svolítinn tíma en hafðist að lokum. Hins vegar kom ég gleraugunum ekki upp á nefið á mér því þar var fyrirstaða, nefnilega gleraugu. „Jæja,“ hugsaði ég, „er ég nú komin þangað.“


Lífsleiðin er nefnilega mörkuð vörðum. Sumar eru stórar: byrja í skóla, fermast, útskrifast, gifta sig, eignast börn.. Allir þessir stóru pólar. En svo eru það litlu vörðurnar.

Sækja um kreditkort, fara til útlanda, vinna í fyrsta skipti. Missa vinnu í fyrsta skipti, brjóta bein. Engir stórir hlutir en samt hlutir sem hafa áhrif.

Hár marka nokkrar vörður, fyrst hár á réttum stöðum og svo röngum. Liturinn á hárinu er ein varðan. Fyrsta hvíta hárið var þvílíkt áfall að ég lagðist í rúmið.
Fyrsta skiptið sem ég þurfti að velta mér fram úr rúminu út af bakverk.
Þegar ég haltra um af því að hnéið læsist.
Öll litlu börnin sem eru komin í ábyrgðastöður í samfélaginu.
Þegar ég gleymi gleraugunum og þarf að biðja afgreiðslufólkið í búðinni að lesa dagsetningarnar á vörunni. Nýverið þurfti ég að biðja starfsmann um að finna vöruna, ég var búin að leita í hálftíma. Sá. Ekkert.
Fer inn í næsta herbergi og man ekkert af hverju.
Systir mín, örfáum árum eldri, fór í bingó um daginn. Bingó. Mér fannst það rosalega fyndið þegar ég sá það á facebook. Ég öfundaði hana líka pínulítið af orkunni að geta verið úti á lífinu fram undir miðnætti á sunnudegi.
Nú væri auðvelt að leggjast í barlóm yfir þessum heldur harkalega ágangi áranna. En þetta er allt í lagi. Þetta eru bara vörður á lífsleiðinni. Þær brjóta upp ferðalagið og gera það skemmtilegra .þriðjudagur, apríl 30, 2019

Klausturfólk hefur unnið

Við þekkjum öll söguna, við vitum öll hvað gerðist. Klausturfólkið heldur samt linnulaust áfram ofsóknum sínum gagnvart fátækri og heilsulítilli konu.
Við getum hneykslast og fárast yfir því eins og við viljum. Þetta er líka viðbjóðsleg framkoma og við vitum það flest öll. En við vitum líka annað:

Ef við göngum inn á bar þar sem ríkt áhrifafólk situr að sumbli og drullar yfir nafngreindar konur og minnihlutahópa þá tökum við ekki upp símann og ýtum á upptöku. Við göngum út og látumst ekki heyra. Annars bíður mulningsvélin.

Til þess er leikurinn gerður. Þöggun í boði auðvalds. Klausturfólk hefur unnið. 

miðvikudagur, mars 27, 2019

Höggva þeir er hlífa skyldu

Ættlausir og útskúfaðir.

Föðurbræðurnir róa að því öllum árum að flæma fjölskylduna af heimilinu sínu.


mánudagur, mars 18, 2019

Sorg

Fyrir níu árum síðan setti ég aleigu mína í óseljanlegt hús hér á Hálsi. Ég vissi það fullvel að hér bjó fjölskylda Marteins og að ég gengi hér inn í aðra fjölskyldu. Hér var hans arfleifð, hans líf.
Í sjö ár var H. heimagangur á heimili mínu, sat við matarborðið okkar, borðaði matinn okkar, lék við drengina okkar. Í sjö ár hélt ég að H væri vinur minn. Já, ég hélt það virkilega og mér þótti vænt um hann sem frænda barnanna minna.
Þegar okkar lendir svo saman út af smotterí, eins og iðulega gerist í samskiptum fólks, þá er eins og stungið hafi verið á kýli. Heiftin og hatrið sem vellur frá manninum er ótrúlegt. Ég veit ekki hvaðan á mig stendur veðrið. Það er augljóst að þetta hefur grasserað í lengri tíma. Allt í einu stend ég frammi fyrir þeirri staðreynd að maðurinn sem ég hélt að væri vinur minn, maðurinn sem hefur hampað og hossað börnunum mínum og hefur deilt hér með okkur gleði og sorgum, fyrirlítur mig. Hversu lengi hefur þetta varað? Hversu lengi hefur hann verið heimagangur hjá okkur með hatrið kraumandi?
Ég er núna fyrst að átta mig á hversu mikið áfall þetta var mér. Og í rauninni höfum við verið að ganga í gegnum sorgarferli. Einn úr fjölskyldunni er horfinn. Marteinn syrgir bróður sinn. Við vitum ekki hvaða maður þetta er sem er hér út um allt og allt um kring en þetta er ekki bróðir Marteins, frændi drengjanna og svo sannarlega ekki vinur minn. Við söknum þess manns. Við syrgjum hann.


Viðbrögð vinafólks hans og ættmenna þeirra beggja var mér líka áfall. Það er ekkert launungarmál úr því sem komið er að mér leiddust þessar langdvalir. Þetta er ekkert vont fólk og mér líkaði ekki illa við þau en mér fannst þau vera hér lengi og já, ég upplifði ákveðna tilætlunarsemi. En ég ákvað að það væri í lagi, Marteins vegna. Þetta eru jú ættingjar hans líka.
Þegar "deilan" hófst þá fannst mér fyrst eins og þau vildu að aðilar sættust. En viðbrögðin við sáttamiðlaranum voru slík að mér hefði ekki brugðið meira að fá kalda tusku í andlitið. Við vorum að "þvinga hann til sátta." Það var tekin afgerandi afstaða með honum og við vorum greinilega vonda fólkið í þessu. Ég átta mig á því núna að auðvitað er þetta hrein og klár hagsmunagæsla. Ef þau lenda upp á kant við H. þá missa þau ókeypis sumardvalarstað, hvort sem það er hér eða á R. En við skulum átta okkur á að ég skrifaði greinargerðina eftir þessi viðbrögð og afgerandi afstöðu. Mér getur nefnilega líka sárnað.
Og mér finnst þetta sárt. Mér finnst sárt að sumu fólki finnist virkilega að Marteinn eigi það ekki skilið að vera bóndi á Hálsi. Marteinn hefur verið hér alla tíð og staðið sína plikt. Hann hefur verið hér og haldið hlutunum gangandi á meðan hinir bræðurnir hafa verið að lifa og leika sér út og suður.
Mér finnst líka sárt að þessu sama fólki finnist synir Marteins ekki eiga tilkall til arfleifðar sinnar og reyna að hrifsa hana frá þeim. Þykist í öðru orðinu vilja þeim allt hið besta en reyna í hinu að flæma þá í burtu.
Auðvitað er þetta bæði sárt og vont. En núna vitum við hvar við stöndum. Við vitum hverjir eru vinir okkar. Það er alltaf gott að vita það.


Farðu og finndu hamingjuna.
Þín hamingja býr ekki hér.

sunnudagur, mars 10, 2019

Sáttamiðlarinn

Við höfum samband við sáttamiðlara. Hann talar alla vega tvisvar við Þann-sem-ekki-má-nefna sem samþykkir við sáttamiðlarann að mæta á sáttafund með okkur Marteini 20. ágúst 2017.
Sáttamiðlarinn vill að við sendum honum líka skilaboð um fundinn og hann á að svara okkur. Sá-sem-ekki-má-nefna svarar engu. Bregð ég þá á það ráð að setja sérsniðna færslu á facebook, eitthvað á þá leið hvort líklegt sé að maður sem virði mann ekki viðlits sé að fara að sættast.


Enginn sér þetta nema bróðir hans og frændfólkið sem er hjá honum í von um að þau ýti á hann að svara. Viðbrögðin sem ég fékk við því voru talsvert önnur en ég hafði vonast eftir.
Ekki mikið verið að ýta undir sættir.Ég sendi sáttamiðlaranum bréf um það:Sáttamiðlarinn las þetta fullkomlega rétt.

Ekkert svar berst. Hann ætlar ekki að sættast heldur halda þessum leiðindum áfram.
Ég þarf að mæta í vinnu á Húsavík 17. ágúst svo við snúum aftur 16. ágúst. Við erum hunsuð fyrir utan SMS sem Marteini berst. Það snýst aðallega um að skíta mig út en engu svarað um fundarboðið.

Næst: Meint uppsögn.

sunnudagur, mars 03, 2019

Ef ég væri ákvæðaskáld

Sunnlenskur bóndi sækir á bæ.
Siðferðiskennd á pari' við hræ.
Meðferðis beittan bakstunguhníf.
Bölvaður sértu allt þitt líf!

þriðjudagur, febrúar 26, 2019

Þættinum hefur borist bréf


Gagntilboð mitt er þetta:
Seldu okkur og ég skal taka allt út.
Ég skal m.a.s. sleppa því að tilkynna vini þína.

Vinsamlegast athugið að tilboðið rennur út 5. mars klukkan 16:18.

Er hatrið á mér meira virði en vináttan?

miðvikudagur, febrúar 20, 2019

"Bóndinn og bróðir hans"


Þegar ég flutti úr Reykjavík í sveitina 2005 var ýmislegt sem ég ekki þekkti. Í Reykjavík t.d. flytur fólk að heiman þegar það er orðið fullorðið. Svo selja foreldrarnir húsið sitt/íbúðina og fólk er ekkert að spá í það meira. Engir átthagafjötrar. Atvinna bænda byggist hins vegar á landi, þeir verða að hafa land til að rækta hey ofan í skepnurnar og stórar byggingar utan um þær svo þeir eru átthagafjötraðir að miklu leyti.
Þetta er auðvelt fyrir fyrstu fjölskylduna á staðnum en svo versnar í því þegar börnin ættu að taka við. Á Íslandi er nefnilega jafn erfðaréttur. Það þýðir að öll börnin fá jafnan arfshlut. Þetta er auðvitað ekkert mál ef engin/n vill taka við búi en erfiðara þegar einn vill taka við búi og þarf að kaupa alla hina út. Það er líka erfitt ef fleiri en einn vilja taka við því þá þarf að deila hlutunum og búa saman í sátt og samlyndi. Ég tala um karlkyn því þótt stelpurnar vildu taka við þá var það lengi vel ekki í boði. Sumir foreldrar létu búið frekar fara í eyði eða neyddu óviljuga syni til að taka við en hleypa dætrum sínum að.

Eftir því sem tíminn leið lærði ég betur á umhverfi mitt. Mér var t.d. sagt frá „bóndanum og bróður hans.“ Sögumaður sagði frá á þá leið að á mörgum bæjum væri því þannig háttað að þar byggju saman tveir bræður. Annar væri giftur með börn og bærist á, væri bóndinn á meðan hinn væri ógiftur og ynni öll verkin á bak við tjöldin. Hann var þá bróðirinn, vinnuþrællinn sem enginn vissi um. Á þessum tímapunkti var ég 35 ára, örlaga piparjúnka og aumingjagóð með afbrigðum og tók alveg út fyrir alla þessa aumingja bræður sem þræluðu í sveita síns andlits án nokkurrar viðurkenningar.
Stuttu seinna átti ég annað samtal við konu sem var gift einum svona bónda. Henni var ekki skemmt. Greinilega búin að heyra það aðeins of oft að mágur hennar héldi uppi búinu og maðurinn hennar ynni mest lítið.
En fyrirbærið bóndinn og bróðir hans er samt til. Einhverra hluta vegna þá verður sá bróðir sem giftir sig og eignast fjölskyldu ósjálfrátt bóndinn í hugum fólks. Það má alveg telja það ósanngjarnt en þannig er það nú samt.  Auðvitað verður sá einhleypi frekar sorrí,  svekktur og sár. Í fyrsta lagi er líf hans ekki að ganga upp eins og hann vildi. Í öðru lagi þarf hann að horfa upp á bróður sinn fá allt það sem hann sjálfur vill. Í þriðja lagi setur samfélagið hann í annað sæti.  Svo kraumar ófullnægða kynhvötin undir öllu. Fólk getur orðið biturt af minna tilefni.

Hér í sveitinni er bróðir sem virti konu bróður síns ekki viðlits. Hún var bara alveg ómöguleg. Hjónin skildu og bóndinn fékk sér aðra konu. Núna er sú kona ómöguleg og bróðirinn virðir hana ekki viðlits.
Stundum gengur biturðin svo langt að hún er tekin út á börnum bóndans líka. Einn bróðirinn tók yfir búskapinn. Þegar hann hætti vildu börn hins kaupa kúakvótann. Nei, frekar gaf hann kvótann á næsta bæ en selja þeim hann.

Ég veit ekki hvernig það er í öðrum sveitarfélögum en hérna er þetta hugtak vel þekkt og flestir þekkja einhverjar sögur. Nú er auðvelt að hlæja að beiskum og bitrum karlfauskunum sem hafa spólað sjálfa sig fasta í pytti óhamingjunnar.  En áður en þið gerið það þá skulum við muna eftir meðlimum Incel hreyfingarinnar sem eru því miður stórhættulegir.
Við ættum sennilega að vera þakklát fyrir það að pipruðu bændadurgarnir eru bara skrítnir og bitrir.

laugardagur, febrúar 09, 2019

Minning

Gunnar Marteinsson
f. 3. júní 1929 - 25. janúar 2019
Þegar ég kom á Háls í fyrsta skipti 2006 þá var Gunnar Marteinsson, tengdafaðir minn, orðinn fullorðinn maður. Hann þjáðist líka af parkinson sjúkdómnum sem setti honum talsverðar skorður. Engu að síður gekk hann enn til verka, fór alltaf út og sinnti kálfunum og hinu og þessu sem til féll.
Hann var alveg ótrúlega þrautseigur. Fór út í hvaða veðri sem var, alltaf eins og klukka.
Síðsumars 2008 var Marteinn að þreskja og enginn til að mjólka svo ég tók það að mér.  Ég var komin sjö mánuði á leið og með svo mikla meðgönguþoku að ég gat ekki fyrir mitt litla líf munað röðina á kúnum. En kýr eru mjög vanafastar verur og verða að fara í réttri röð í mjólkurbásinn. Gunnar sótti kýrnar fyrir mig og sagði mér röðina, tvisvar á dag í þó nokkra daga. Ég fann ekki að þetta færi í taugarnar á honum. Einn daginn spurði hann þó sallarólegur: "Ertu ekkert farin að muna röðina?"
Það mætti, svona eftir á, hlæja að þessari stöðu, parkinson veikur fullorðinn maður og bálólétt kona að mjólka. En þetta gekk ótrúlega vel hjá okkur og munaði auðvitað öllu um hann. Hann vissi nákvæmlega hvað þurfti að gera og hvernig. Í eitt skiptið var ein kýrin eitthvað óhress og sparkaði með afturfætinum. Ég var að brasast við að binda hana en hún stóð aftast svo Gunnar lagðist ofan á mjaðmabeinin á henni svo þá gat hún auðvitað ekki sparkað. Ég gat mjólkað hana og þurfti ekkert að ergja hana eða meiða með bandi.
Þegar mjöltum var lokið þá var mér boðið inn í mat (húsið okkar Marteins ekki byggt og ég bjó ekki á staðnum.) Ég sagði í eitthvert skiptið að það þyrfti nú ekkert að gefa mér að borða þótt ég hlypi í skarðið fyrir Martein. Þá sagði tengdapabbi mjög ákveðið: "Þeir sem vinna fá að borða." Ég skal alveg viðurkenna að ég varð upp með mér að bóndinn skyldi viðurkenna svo afgerandi framlag mitt. Það er nefnilega ekki sjálfgefið.
Seinna sá ég að svona var hann. Á sinn hægláta og hljóðlega hátt viðurkenndi hann fólk. Hann reyndi ekki að þvinga sínum skoðunum upp á aðra heldur leyfði fólki að vera það sjálft. Tóta, tengdamamma var ekki allra en hann reyndi aldrei að breyta henni. Hún var listamaður í eðli sínu og hann leyfði henni að rækta það og sinna því. Já, ég segi "leyfði", við verðum að muna tíðarandann.

Fyrst í stað hélt ég að sjúkdómurinn héldi aftur af honum en seinna komst eg að því að hann var alltaf hlédrægur og fyrirferðalítill. En hann var staðfastur. Hann var kletturinn sem Háls stóð á síðustu áratugina. Hann sagði ekki margt og hann sagði það ekki hátt en það sem hann sagði skipti máli.
Fólk sem var hér í sveit sem börn myndaði hlýtt og einlægt samband við Gunnar. 

Gunnar var mjög jarðbundinn og raunsær maður. Hann barmaði sér ekki í veikindum sínum heldur tók þeim með stóískri ró. Hann horfðist í augu við þau og samþykkti staðreyndir. Þegar hann datt um jólin 2008 gat hann ekki gengið áfram heldur þurfti að bakka allar sínar ferðir. Honum datt ekki í hug að kvarta. En þegar ég kom í mat á aðfangadagskvöld og sá þetta spurði ég hvort við ættum ekki að láta líta á þetta daginn eftir, þá sagði hann skýrt og skorinort: "jú takk." Þegar kom í ljós að setbeinið var brotið og honum boðið að leggjast inn þá þáði hann það með þökkum. Þegar læknirinn bauð honum í framhaldinu að koma í hvíldarinnlagnir á Hvamm þá vildi hann það gjarnan.

Gunnar, ég þakka þér samfylgdina. Það var heiður að kynnast þér og ég sé þig svo oft í manninum mínum, hann er kletturinn minn.
Fyrirgefðu að við skyldum valda þér áhyggjum á ævikvöldinu. Fyrirgefðu að við getum ekki heiðrað  minningu þína og Tótu sem skyldi og haldið arfleifð ykkar við. En við munum alltaf minnast þín og þú lifir í hjörtum og minningu barnabarnanna þinna.

sunnudagur, janúar 20, 2019

Einbýlishús til sölu

Hús okkar á Hálsi gæti verið til sölu fyrir rétt verð. 
Vinsamlegast athugið að við viljum kaupa fyrir sunnan svo kaupverð verður að vera viðunandi.
Húsið er 4-5 herbergja. Tvær forstofur, þvottahús í annarri og lítið baðherbergi. 3 svefnherbergi og stórt baðherbergi. Stór stofa og aukastofa með rennihurðum sem hægt er að breyta í gestaherbergi.

Húsinu fylgir lítil gistieining. (Sjá hér.)
Undanfarið ár hafa tvö herbergi í húsinu einnig verið leigð út. Nokkuð góðar tekjur fylgja þessari útleigu og er fyrirtæki með öllum leyfum utan um reksturinn. Það getur fylgt með í kaupum.

Lítil lóð er í kringum húsið.
Hafið samband við Karl Gunnarsson hjá Lundi í síma 898-2102 vegna hússins.

Einnig er möguleiki að kaupa hlut í búrekstri.
Hafið samband við Hallgrím Jónsson hjá Pacta í síma 789-2160 vegna búsins.