laugardagur, ágúst 13, 2016

Fordæmalaus staða

Það kom illa fram hjá mér í gær í síðasta pistli en ég sendi fyrirpurn til SÍ um venjur í starfslokasamningum. Fyrirpurnin var svona:

a) er venja í starfslokasamningum að launþegi haldi bæði launum sínum og öllum hlunnindum á starfslokatímabili?
b) er venja í starfslokasamningum að launþegi haldi starfslokagreiðslum á starfslokatímabili þótt hann fái aðra vinnu i) annars staðar ii) hjá sama launagreiðanda?

Svarið sem ég fékk var já við hvoru tveggja, SÍ legði til að þetta væri gert í starfslokasamningum sinna umbjóðenda og það fengist yfirleitt í gegn. SÍ er Skólastjórafélag Íslands.*

Nú sendi ég ekki sömu fyrirspurn til Grunnskólakennarafélags Íslands svo ég veit hreinlega ekki hvort þetta sé venja í starfslokasamningum grunnskólakennara. Reyndar hallast ég að þeirri skoðun að starfslokasamningar kennara séu sjaldgæfir þótt þeir hafi verið gerðir við nokkra kennara hér í Þingeyjarsveit í fyrra.
Einn Fésbókarvinur minn benti á þá staðreynd að aldrei myndi skólaliði fá slíkan samning. Það er auðvitað ömurlegur raunveruleiki að það eru aðeins hinir hæstlaunuðustu sem fá starfslokasamninga og þar með betri kjör en aðrir.
Hvað er það t.d. annað en hrein launahækkun að fá greiddan bifreiðastyrk án þess að þurfa að hreyfa bílinn?

Fái fólk á biðlaunum hjá sveitarfélagi vinnu hjá sveitarfélagi, þótt það sé hinum megin á landinu, þá skerðast biðlaunin sem laununum nemur. En ekki hjá flestum skólastjórnendum með starfslokasamning, aldeilis ekki. Ekki nóg með það né heldur að þeir geti fengið starf á nákvæmlega sama vinnustaðnum; þeir geta fengið nákvæmlega sama starfið og launin sem því fylgja og haldið starfslokagreiðslunum!

Sá möguleiki var, að sögn,** til staðar hér í Þingeyjarsveit. Í leiðara ritsjóra fréttamiðilsins 641.is Lengi getur vont versnað segir:
En miðvikudaginn 27. maí gerast óvæntir hlutir. Þann dag var fráfarandi skólastjóri ráðinn til eins árs í 50% stjórnunarstöðu sem verkefnastjóri hjá Þingeyjarskóla og á samkvæmt heimildum 641.is, að vera teymisstjóri yfir 4-7. bekk, án kennsluskyldu. Hann á auk þess að vera staðgengill skólastjóra þegar hann er ekki við.   (Leturbreyting mín.)
Uppsagði skólastjórinn á starfslokagreiðslunum er staðgengill nýja skólastjórans. Hefði nýi skólastjórans forfallast einhverra hluta vegna hefði uppsagði skólastjórinn tekið við starfinu.

Reyndar þarf ekki svona kúnstir til. Skv. starfslokasamningum flestra skólastjórnenda má ráða þá hvar sem er í hvað sem er. Svo sá möguleiki er fullkomlega til staðar að skólastjóra sé sagt upp vegna skipulagsbreytinga og fái starfslokasamning, sæki um gamla starfið sitt og fái. 
Þetta er auðvitað mjög gott fyrir viðkomandi, sérstaklega ef hann er að nálgast eftirlaunaaldur og vill hækka launin sín svo eftirlaunin verði hærri eða er að fara í fæðingarorlof. Sveitarfélög gætu vel komið til móts við fólk í svoleiðis stöðu eða einhverja viðkunnanlega í fjárhagserfiðleikum og tvöfaldað laun þeirra í eitt ár. Jafnvel lengur. 

Það virðist alla vega fullkomlega löglegt...*Ég vil að það sé á hreinu að mér er djöfullega við að losa sveitarstjórnina svona úr snörunni.
**Finn þetta ekki staðfest formlega neins staðar.

föstudagur, ágúst 12, 2016

Starfslokasamningurinn - Lokaorð (vonandi)

Eftir langa mæðu, kæru, tímaeyðslu og fjárútlát hafa íbúar Þingeyjarsveitar, og raunar allir, fengið aðgang að starfslokasamningi fv. skólastjóra Þingeyjarskóla. Samningi sem átti að vera opinber frá upphafi þar sem opinberir aðilar eru að sýsla með opinbert fé.
Ég hef að vísu ekki eytt neinum fjármunum í ferlinu, nema óbeint, en Þingeyjarsveit lét lögfræðing svara upphaflegu erindi mínu, lögfræðingur sendi andsvar við kærunni og lögfræðingur las yfir úrskurðinn.
Svo þegar samningurinn loksins berst þá er ekkert í honum sem kallar á þessa leynd. Ekkert. Það eru engar upphæðir, engar persónuupplýsingar. Þetta er, og afsakið orðbragðið, algjört prump. Þetta er svo ómerkilegt að ég hreinlega trúði því ekki að ég hefði fengið allt í hendur. 

Ekki misskilja mig, samningurinn er vissulega veglegur (ég fer nánar í það á eftir). Þetta er miklu meira en almennir launþegar geta átt von á en samningarnir sem kennararnir gerðu eru samt sem áður áþekkir. En við vissum það fyrir, við vitum það vel að starfslokasamningar eru gerðir til að tryggja uppsögðum launþega betri kjör en almennir kjarasamningar. 

Þar sem engin lög eða reglur gilda starfslokasamninga er erfitt að vita hvað sé eðlilegt og venjulegt í slíkum samningum. Ég veit að KÍ aðstoðaði við gerð samningsins svo ég tel eðlilegt að ætla að KÍ viti hvernig starfslokasamningum er almennt háttað hjá skólastjórnendum og kennurum. Ég sendi því fyrirspurn á lögfræðing KÍ sem vísaði henni til formanns viðkomandi aðildarfélags. Skv. því svari þá leggur SÍ það til fyrir sitt fólk og nær yfirleitt fram.

Þetta vissi Þingeyjarsveit allan tímann. Þau voru með samninginn í höndunum, þau vissu að það eru engar upphæðir í honum, þau vissu að úrskurðarnefndin hafði sett það fordæmi í úrskurðum sínum að afhenda ætti starfslokasamninga. Þau vissu að þau voru með tapað mál í höndunum, lögfræðingurinn hlýtur að hafa sagt þeim það. Ég vissi það ekki. Ég veit það hins vegar núna þegar ég horfi á samninginn. Svo af hverju þessi endalausa leynd? 

Samstaða lofaði opinni og gegnsærri stjórnsýslu. Eitthvað tjatt á persónulegum fundum er ekki opin og gegnsæ stjórnsýsla. Það sem útsvarsgreiðendur vilja vita er hvernig er verið að verja fjármunum þeirra. Og það er fullkomlega eðlileg krafa. Það varð efnahagshrun á öllu landinu fyrir ekki löngu síðan vegna óábyrgrar fjármálastjórnunar. 
Samstaða og sveitarstjórinn hennar myndu gera vel í því að segja íbúum meira og betur hvað er að gerast og hvernig fjármunum er varið. Sú saga gengur t.d. að flutningur bókasafns Litlalaugaskóla hafi kostað 10 milljónir. Það er fjarri öllu sanni en hvar eru þær upplýsingar að finna? Af hverju stendur þetta hvergi á heimasíðu sveitarfélagsins? 
Ritstjóri 641.is bauð sveitarstjórninni dálk á síðunni. Af hverju var það ekki þegið? Átti ekki að stofna
facebook síðu? Hvar er hún? Ef við vitum hvað þið eruð að gera þá myndum við ekki tortryggja ykkur. Það helst í hendur.

Útreikningar.
Skv. starfslokasamningnum þá á við útreikning mánaðarlegra greiðslna að taka meðatal slíkra greiðslna á tímabilinu 1. feb. 2014 - 31. jan. 2015.
Nú vill svo skemmtilega til að hérðasmiðillinn 641.is lét reikna út fyrir sig helstu útsvarsgreiðendur í Þingeyjarsveit árin 2014 og 2015. Skólastjórinn fyrrverandi komst ekki á topp 10 listann 2014 en hafði verið útreiknuð og deildi miðillinn því með mér þegar ég óskaði eftir því. Skv. útreikningum 641.is (með fyrirvara um útreikningana að sjálfsögðu) var skólastjórinn með 683.042 í laun á mánuði 2014. Það eru 8.196,504 á ári. (átta milljónir, eitt hundrað nítíu og sex þúsund, fimm hundruð og fjórar.)
Skólastjórinn kemt á listann fyrir árið 2015 og þá með 1.011.243 kr á mánuði. Það eru 12.134,916 á ári. (tólf milljónir, hundrað þrjátíu og fjögur þúsund, níu hundruð og sextán.)
Hún er því að fá 3.938,376 (tæplega fjórum milljónum) meira árið 2015 en árið á undan. Það er auðvitað alveg eðlilegt þar sem viðkomandi er bæði á fullum starfslokagreiðslum frá ÞIngeyjarsveit og í 50-70% vinnu hjá Þingeyjarsveit á sama tíma. Það eina sem ég hnýt um er að starfslokin tóku gildi 31. júlí 2015 og nýja starfið hófst 1. ágúst 2015. Það þýðir að séu starfslokagreiðslurnar þær sömu og launin árið á undan þá eru launin fyrir 50-70% deildastjórastöðu 787,680 þús. á mánuði. 
Mikið svakalega hafa grunnskólakennarar samið vel síðast!

Tek við leiðréttingum vegna útreikninga.

fimmtudagur, ágúst 11, 2016

Sporslur á sporslur ofan

Samkomulagið er í ellefu liðum. Engar tölur eru gefnar upp í samningnum. * Það vekur athygli mína að strax í 3. lið er tiltekið að starfsmaður beri engar vinnuréttarlegar skyldur gagnvart vinnuveitanda á því tímabili: "... nema vinnuveitandi ráði hana aftur til starfa á því tímabili."

Í 7. lið er tiltekið að starfsmanni sé heimilt að ráða sig til annarra starfa "þar með talið vinnuveitanda / Þingeyjarskóla án þess að ofangreindar greiðslur á starfslokatímabili skerðist"

Eflaust eru svipuð ákvæði í hinum starfslokasamningunum en þetta er sá fyrsti sem var gerður og því frumgerðin.  Því vaknar óneitanlega sú spurning að ráðning viðkomandi í annað starf við skólann hafi verið löngu ákveðin. Ég get auðvitað ekkert fullyrt um það til eða frá en sá grunur vaknar.

Hvað varðar "ofangreindar greiðslur" þá er kveðið á um þær í 4. lið samningsins:


Nú er ég enginn sérfræðingur í starfslokasamningum og það getur vel verið að fólk haldi öllum hlunnindum. Venjulegt launafólk sem á rétt á biðlaunum fær nú yfirleitt bara föst dagvinnulaun auk fastrar ómældrar yfirvinnu. Hér er hins vegar um öll hlunnindi ræða, m.a. "tilfallandi" greiðslur.

Þá á bifreiðastyrkur að vega upp á móti kostnaði sem starfsmaður leggur út. Vissulega er dýrt að aka á milli starfsstöðvanna að Hafralæk annars vegar og Litlulaugum hins vegar og eðlilegt að starfsmaður beri ekki kostnað af því. En að útsvarsgreiðendur greiði óekna kílómetra sem sporslu tel ég í hæsta máta óeðlilegt.
Þá fær viðkomandi starfsmaður full laun á tíma sem undir öllum venjulegum kringumstæðum er orlofstími auk þess að fá síðan greitt orlof í lok samningstímans.

Þeir sem áhuga á að kynna sér nánar kostnað okkar útsvarsgreiðenda vegna viðkomandi starfsmanns geta skoðað upphæðir hér og hér. Það getur verið áhugavert að setja tölurnar í samhengi við annan kostnað sveitarfélagsins en ég læt öðrum það eftir.

* Ég rakst á fundargerð frá Flóahreppi þar sem heildarkostnaður vegna starfslokasamnings var gefinn upp.

Afsökunarbeiðni

Jæja, þá er ég komin með starfslokasamninginn í hendur. Formálinn sem tiltekinn var í úrskurði var lítilfjörlegur og gerði ég meira úr honum en efni stóðu til. Hins vegar er plaggið ekki nema ein síða með engum upphæðum og átti ég bágt með að trúa að það hefði kallað á neitun, kæru og ársbið eftir úrskurði að fá það í hendur. Engu að síður, ég hljóp á mig og ég biðst afsökunar á því.

sunnudagur, ágúst 07, 2016

Úrskurður

Síðastliðinn fimmtudag barst mér í sniglapósti úrskurður frá Úrskurðarnefnd um upplýsingalög. Úrskurðurinn er ekki enn kominn á heimasíðu nefndarinnar en lokaorð bréfsins eru svona: Nefndin heldur sig því við þá stefnu sína að fjármálagjörningar stjórnvalds geti ekki farið leynt nema mikið liggi við. Nefndin setur heldur enga fyrirvara né vill að yfir eitthvað sé strikað eins henni er þó heimilt.

Það er meira en ár síðan ég lagði fram kæruna og verður biðtíminn að teljast alltof langur. Ekki er þó við nefndina að sakast heldur ríkisvaldið, augljóslega þarf að veita meiri fjármunum til nefndarinnar. Þessi langi biðtími auðveldar stjórnvaldi að liggja á upplýsingum því loksins þegar úrskurður liggur fyrir eru mál nánast fallin í gleymskunnar dá og allir búnir að missa áhugann.
Í þessu tilfelli t.d. þá tekur starfslokasamningurinn til tímabilsins 25. feb. 2015 til og með 31. júli 2016. Hann er runninn út á tíma loksins þegar við fáum að sjá hann.

Ég hef ekki enn fengið samninginn í hendur, skrifstofa Þingeyjarsveitar var í sumarfríi síðustu viku en ég býst fastlega við að hann berist mér í tölvupósti á morgun. Ég setti beiðnina fram í tölvupósti og því ber að svara á sama hátt. Nema auðvitað þau vilji kæra úrskurðinn sem vekur þá mjög áleitnar spurningar.

23. gr. Birting og aðfararhæfi úrskurða.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál skal birta úrskurð þeim sem fór fram á aðgang að gögnum og þeim sem kæra beindist að svo fljótt sem verða má.
Ef nefndin hefur tekið til greina beiðni um aðgang að gögnum ber að veita aðgang að þeim jafnskjótt og úrskurður hefur verið birtur, nema þess sé krafist að réttaráhrifum hans verði frestað skv. 24. gr.
Úrskurður samkvæmt lögum þessum um aðgang að gögnum eða afrit af þeim er aðfararhæfur, nema réttaráhrifum hans hafi verið frestað.
  (Upplýsingalögin)*

Ferillinn.
Þann 18. maí 2015 sendi ég inn beiðni um aðgang að gögnum. Í byrjun júní fékk ég bréf frá lögfræðingi Þingeyjarsveitar þar sem beiðnni var hafnað. 10. júní 2015 sendi ég kæruna til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Þingeyjarsveit var gefin kostur á að svara sem og hún gerði með greinargerð frá lögfræðingi. (Þar sem ég var kölluð "kvartandi". ) Mér var gefinn kostur á að svara sem ég gerði. En fram kemur í úrskurðinum að athugasemdir hafi ekki borist. Ég er lítillega móðguð þar sem ég er frekar ánægð með andsvarið mitt en það er svona, kona fær ekki allt sem hún vill. En það skiptir engu, stefna og vilji Úrskurðarnefndarinnar er alveg skýr.
Rétt er að taka fram að ég naut aðstoðar ungs lögfræðings við allt ferlið sem las yfir og lagaði það sem þurfti og veitti ráðgjöf. Naut ég þar ættartengsla.

Formatið fyrir beiðnina fékk ég frá formanni óstofnaðra Samtaka erfiða fólksins, Styrmi Barkarsyni, þar sem ég er virkur meðlimur. (Ég vona að hann fyrigefi mér að deila formatinu.)

Ég fer í gegnum þetta svo fólki viti að svona ferli er svolítið mál og ákvörðunin var erfið, ég ætla ekkert að neita því. Hins vegar á stjórnsýsla að vera opin og gegnsæ og stundum þarf að hjálpa henni að vera það.
(Svo og þeim sem geta ekki farið eftir kosningaloforðunum sínum.)

Ég geri ekki ráð fyrir að birta samninginn opinberlega þótt hann sé nú formlega orðinn opinber. Vilji fólk sjá hann ætti að nægja að biðja um hann á skrifstofunni. Vilji fólk aðrar upplýsingar eins og t.d. um aðra starfslokasamninga eða laun og fríðindi sveitarstjórnarfulltrúa er velkomið að nota fyrrnefnt format.


*17. gr. í eldri lögum sem úrkurðað er eftir.