sunnudagur, nóvember 14, 2021

Sannleikurinn, slúðrið og ástin.

 Eftir að ég varð “klikkaða kerlingin á Hálsi” þá hef ég tekið kjaftasögum með mun meiri fyrirvara en áður. Ég hef lært að orðatiltækið „sjaldan veldur einn er tveir deila“ er kjaftæði og sannleikann er ekki endilega að finna í miðjunni á sitthvorri hliðinni. Sumir eru fullfærir um að valda og viðhalda deilum alveg einir árum saman og ljúga út í eitt. Ég hef líka fengið staðfest að það virðist mega tala hvernig sem er um konur og miðaldra konur alveg sérstaklega séu mun ómarktækari en aðrar. Þá eiga konur sem veikjast að einbeita sér að veikindum sínum. Ekki eyða orkunni í eitthvað annað. Ekki samt tala um veikindin. Bara halda kjafti. Helst úti í horni.

Með þessa reynslu í farteskinu hefur mér fundist erfitt að fylgjast með fréttaflutningi og umræðum um Sólveigu Önnu annars vegar og mál Jóns Baldvins hins vegar.

Orðræðan um Sólveigu Önnu hjó mjög nærri; klikkuð og erfið. Þetta er mjög algeng orðræða um konur, sérstaklega þær sem neita að læðast meðfram veggjum. Sólveig Anna benti okkur á að hér á landi eru láglaunakonur sem ná ekki endum saman. Hún benti okkur ekki bara á það, hún rak það upp í andlitið á okkur eins og blauta tusku og sló okkur svo með tuskunni. Þetta er svo ódönnuð hegðun og ódömuleg. Konan hlýtur bara að vera klikkuð. Já! Sendiboðinn er klikkaður við þurfum ekki að breyta neinu! Jei!

Jón Reynir Traustason skrifaði frábæra grein um Sólveigu Önnu svo ég bendi bara á hana.

 

Jón Baldvins mál hefur verið ansi lengi í umræðunni. Það er ýmislegt þar sem truflar mig. Ég ætla alls ekki að neita því að ég trúi konunum frekar en honum. Ég sé bara alls ekki af hverju allar þessar konur ættu að vera að ljúga þessu. Lygi er oftast óljós og slepjuleg. Það er erfitt að festa á henni hendur. Staður og stund fylgir yfirleitt ekki sögunni eða hvað nákvæmlega gerðist. Gefið í skyn og ýjað að en reynt að koma í veg fyrir að það sé hægt að staðreyna frásögnina. Flestar kvennanna koma með stað og stund og nákvæmar lýsingar.

En gefum okkur að þetta sé allt saman lygi, að Jón Baldvin sé sárasaklaus.

Jón og Bryndís hafa farið mikinn í málsvörn hans. Ég skil það, það er ömurlegt að sitja undir lygaþvættingi. Það er líka ömurlegt að mega ekki reiðast og sýna sárindi sín. Svo þegar manni er algjörlega ofboðið þá fer brynjan upp og breytist í hroka, manni er ekki trúað hvort sem er. Ég veit, ég skil. Vandinn er; þetta hefur enga þýðingu.  Fólk man nefnilega ekki tímalínuna og það næsta sem gerist er að það sem var vörn gegn árás er túlkað sem árás.

En vilji fólk ekki vera til umfjöllunar í fjölmiðlum þá er ágætt ráð að vera ekki alltaf að skrifa í fjölmiðla eða gefa út bækur.

Þau fullyrða út í eitt að þessar frásagnir og umtal um meinta kynferðislega áreitni Jóns í gegnum árin sé runnin undan rifjum Aldísar elstu dóttur þeirra. Og hvað gengur henni til? Jú, hún er geðveik.

Aldís þvertekur fyrir að hún sé „geðveik“ og hefur sýnt læknisvottorð þess efnis. Ekki ætla ég að véfengja það. Mig langar samt að segja að það að fólk sé með geðsjúkdóm gerir það ekki að lygurum. Ég vann á geðdeild í nokkur ár og hitti fólk á vondum stundum í lífi þess, t.d. í geðrofi eða í maníu. Við slíkar kringumstæður fær fólk oft ranghugmyndir. En þegar maníunni/geðrofinu slotar hverfa ranghugmyndirnar. Vissulega er til að fólk gangi um með ranghugmyndir vegna geðsjúkdóms í lengri tíma. Það leynir sér yfirleitt ekki.

Þá fullyrða þau að þessi veika kona hafi fengið til liðs við sig fullt af öðrum konum til að hjálpa sér við að ná sér niðri á þeim. Málflutningurinn er sem sagt sá að allar þessar konur séu annað hvort svo vitlausar að þær sjái ekki í gegnum þessi alvarlegu veikindi eða svo leiðitamar að þær hlýði bara því sem þeim er sagt að gera.

Fyrir mörgum árum voru pabbi minn, föðurbróðir og tveir vinir með spilaklúbb. Einn vinurinn var mikið fjarverandi svo afi hljóp stundum í skarðið. Í eitt skipti spurði hinn vinurinn afa, fyrir framan stútungssyni hans tvo á sextugsaldri, hvenær maður hætti að hafa áhyggjur af börnunum sínum. Án þess að hugsa sig um svaraði afi: Aldrei.

Það er þetta sem truflar mig mest. Hérna eru foreldrar sem telja að dóttir sín sé veik. Samt bera þau hana út í fjölmiðlum og höfða meira að segja meiðyrðamál gegn henni. Já, hún er að segja ljóta hluti. Já, hún er „erfið“. Hún er samt dóttir þeirra. Fárveik í ofanálag samkvæmt þeim sjálfum.

Er mannorðið dýrmætara en barnið manns? Ég vona að ég þurfi aldrei að svara þeirri spurningu. En standi ég einhvern tíma frammi fyrir henni vona ég að ég svari henni ekki svona.




 

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...