Gleðileg jól og farsælt nýtt ár og svoleiðis.
Bloggletin stafar að miklu leyti af símalínusambandinu, ég nenni bara ekki að sitja við tölvuna og svo var bara allt meinhægt. Þar til núna. Verð aðeins að hella úr skálum pirringsins.
Þar sem það er allt útlit fyrir að ég sé flutt alfarin út á land þá ákvað ég að selja íbúðina mína í Reykjavík. Ég var með fína leigjendur sem fengu aðra íbúð svo ég ákvað að skella íbúðina bara í sölu. Hún er metin lægra heldur en eins íbúðir í nærliggjnadi húsum og er ég nú ekkert sérstaklega sátt við það en fasteignasalinn bendir á að hinar íbúðirnar séu nú ekkert að fljúga út svo ég sætti mig við þetta. Ungur maður hefur áhuga og skoðar og gerir svo tilboð milljón lægra en beðið er um. Ókey, strákinn langar að leika svo ég geri gagntilboð sem er 250 þús. lægra en upphaflega var beðið um. Daginn eftir fæ ég gagn-gagntilboð þar sem ungi maðurinn hefur hækkað sig um alveg heilar 200 þús. Ég segi fasteignasalanum ég nenni nú ekki einu sinni að svara þessu. Ég sé ekki tilbúin að lækka mig um meira en 400 þús. frá uppsettu verði. Ég sé búin að hafa talsverðan kostnað af íbúðinni, borgaði utanhússviðgerð upp á rúmar 600 þús. og væri nýbúin að borga viðgerð í stigaganginum upp á 160 þús. Fasteignasalinn spyr hann megi segja stráknum þessa tölu og ég játa því. Seinna um daginn klukkan hálf fimm þegar ég er stödd í jólainnkaupum á Akureyri hringir fasteignasalinn og kemur með enn eitt tilboðið frá stráknum sem er 650 þús. lægra en upphaflega var farið fram á. Þetta sé það hæsta sem hann er tilbúinn að fara og, til að kóróna allt saman, tilboðið gildir bara til klukkan 18:00 þennan dag. Svaka stælar. Ægilegur töffari. Ég var tilbúin að skoða þetta tilboð en þessir stælar fóru bara það mikið í mig ég gat ekki tekið því. Mér líkaði ekki maðurinn, mér líkaði ekki framkoman og hann gat bara átt sig. Mér lá ekkert á að selja íbúðina. Ég gat bara fundið nýja leigjendur og beðið. Þar með slítum við fasteignasalinn samtalið.
Daginn eftir þegar ég er að keyra suður hringir síminn. Fasteignasalinn vildi endilega fara yfir stöðu markaðsins og íbúðarinnar og svona. Drengurinn er búinn að hækka sig um alveg heilar 50 þús. og fasteignasalinn mælir eindregið með að ég taki tilboðinu. Þá er hann búinn að ná henni niður um 600 þús. frá því sem sett var upp. Ég ákveð að samþykkja það. Það er gengið frá sölunni stuttu eftir áramót.
Fyrir rúmri viku síðan hringir fasteignasalinn. Kaupandinn er að heimta skaðabætur vegna leynds galla. Það voru viðarþiljur í svefnherbergisveggnum og stofuveggnum, sami veggurinn hann bara dekkar bæði stofu og svefnherbergi. Viðarþiljurnar voru þarna þegar ég keypti og voru þarna ósnertar þegar hann kaupir. Þetta rífur hann niður og undir eru sprungur. Viðgerðir upp á hundruði þúsunda. Þetta er innveggur í 50 ára gömlu húsi svo hvernig hann fær þetta út er mér óskiljanlegt.
Persónulega held ég að drengurinn hafi aldrei ætlað sér að standa við samninginn að fullu. Hann vildi fá íbúðina á lægra verði og hann ætlar sér að fá það fram með öllum ráðum. Ef það hefði ekki verið þetta þá hefði það bara verið eitthvað annað. Mér finnst það hins vegar engan veginn í lagi að það sé hægt að gera manni tilboð í eign, fá hana afhenta og eyðileggja hana fyrir mér því hann ætlaði sér alla vega að rífa allt út, og fara svo fram á afslátt. Ef hann vildi ekki borga svona mikið fyrir íbúðina þá átti hann ekki að bjóða svona hátt. Bara drullast í burtu og leyfa mér að selja einhverjum öðrum.
Hann fór með þetta í fasteignasöluna en hún virðist vera alveg stikkfrí.
Mér finnst líka skrítið að fasteignasalan fær 1.95% af söluhagnaði og sú þóknun rýrnar ekkert þótt söluverðið lækki í raun ef hann fær sínu framgengt.
Best að taka það fram að það segja mér allir að ég þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu, lögin og dómafordæmin séu öll mér í hag. Þetta er bara ves.
laugardagur, janúar 20, 2007
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Ágæti Ingi Freyr. Ég las pistil þinn Það sem við tölum um þegar við tölum um mafíósa í Skagafirði sem birtist á vef Stundarinnar nýlega...