Eins og gengur og gerist í sveitum landsins þá
eru sumir hreppar betri en aðrir. Í gegnum árin safnast upp rígur sem hófst
út af einhverju sem enginn man enda skiptir það engu máli. Undirliggjandi er sú
einfalda staðreynd að sveitin mín er betri og fegurri en sveitin þín. Punktur
og basta.
Þess vegna hefur þetta sameingarbrjálæði haft
heldur vond áhrif. Allt í einu er sveitin mín sem er mest og best og frábærust í sömu sveit sett og aðrar sveitir. Hins vegar
hafa sveitungar brugðið á það snilldarráð að sameinast ekki í raun og sann
heldur halda áfram að hnýta og kýta.
Þannig er því sem betur fer farið í Þingeyjasrsveit.
Einhverjir besserwissarar tóku upp á þeim óskunda að sameina hér nokkrar
sveitir en við í Kinninni vitum sko vel hvar er fallegast, hvar mesta veðursældin
er og hver eru best. Sei, sei já, Við vitum allt um það. Já, þið dælingar allir
hvort sem þið eruð aðal, reyk, bárð eða fnjósk áttið ykkur á því að við erum
best. Við erum enginn lágreistur dalur. Við erum háreist Kinn
Eins og eðlilegt er þá nýtur svona afburðafólk
gæða sinna og er verðlaunað eftir því.
Svo það getur vel verið að Kinnískar konur séu
látnar fara og aðaldælskum raðað á garðann í staðinn þá skiptir það sko ekki
máli. Ne-hei. Nei, við fengum... Wait for it... Uppþvottavél í Ljósvetningabúð! Geri aðrir betur.
Og þótt Aðaldælingur hafi fengið
skólastjórastöðuna og Reykdælingur sveitarstjórastöðuna og gengið fram hjá
reyndu Kinnungunni í hlutastarfinu þá bliknar það í samanburðinum við
uppþvottavélina sem við fengum í Ljósvetningabúð.
Og það getur vel verið að það eigi að setja 50
milljónir í framkvæmdir í Hafralækjarskóla, 10 millur í Breiðumýri og 5 milljónir í Stórutjarnaskóla þá
skulum við ekki gleyma því að við fengum 100 þúsnund króna uppþvottavél í
Ljósvetningabúð. Já-há, just eat your heart out.
Og það getur vel verið að Fnjóskdælingar fái
að halda skólanum sínum og Bárðdælingar fái að hafa áfram leikskólastöð en við;
við fengum við sko nýja uppþvottavél. Glampandi fína uppþvottavél.
Og auðvitað vill enginn kaupa ljótu
félagsheimilin ykkar sem þarf að laga fyrir tugi milljóna á meðan glæstir viðskiptamenn sogast að félagsheimilinu okkar
og sjá fyrir sér ferðamannaparadís eins og gefur að skilja enda Kinnin paradís
á jörðu.
En ég vil að það sé alveg 100% á tæru að við höldum sko uppþvottavélinni!!!