fimmtudagur, maí 03, 2012

Hvurslags fréttamennska er þetta!

Það kemur fram í hverri fréttafyrirsögninni á fætur annarri að Huang Nubo fái Grímsstaði í 40 ár. Ef þessir sömu fjölmiðlar myndu lesa sína eigin frétt þá kæmust þeir snarlega að því að þetta er ekki rétt. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um málið.

Í fréttinni segir:
,,Atvinnuþróunarfélögin í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu hafa skilað útfærslu á því með hvaða hætti sveitarfélög á Norður- og Austurlandi geti eignast land á Grímsstöðum á Fjöllum í því skyni að leigja það kínverska fjárfestinum Huang Nubo. Samkvæmt heimildum fréttastofu er þar lagt til að sveitarfélögin stofni hlutafélag sem kaupi ríflega 70 prósenta hlut jarðarinnar. Sveitarfélögin sjálf leggi til eigið fé við stofnun félagsins, en ekki er gert ráð fyrir skuldsetningu eða ábyrgðum sveitarfélaganna tengt kaupunum. "

Þetta eru sem sagt hugmyndir sem Atvinnuþróunarfélögin eru að leggja til um hvernig sé mögulega hægt að útfæra... ef og kannski... Skil jú? Engin ákvörðun hefur verið tekin.
Það hlýtur líka að vera hægt að skoða fundargerðir sveitarstjórna til að komast að hvað hefur verið samþykkt og hvað ekki.
Það skal tekið fram að mbl.is kann enn og skilur viðtengingarhátt.

Þessar hugmyndir á að leggja fyrir ríkisstjórnarfund. Eru miklar líkur á að þetta verði samþykkt? Nei? Hvað er þá í gangi? Hvernig væri að fjölmiðlar veltu því aðeins fyrir sér.

miðvikudagur, maí 02, 2012

Fréttamat, hlutleysi-áróður


Um daginn heyrði ég sögu svohljóðandi:
Ónefndur maður, talsmaður hagsmunaðila, er svo rökfastur að hann talar andstæðinga sína í kaf á nokkrum mínútum. Málflutningur hans er greinargóður og auðskilinn og í raun ekkert meira að segja eftir að hann hefur lokið máli sínu. Vegna þessa vilja fréttamenn ekki fá hann í viðtöl.
 Ég ætla ekkert að fullyrða um sannleiksgildi sögunnar en sem ákveðin ,,teóría” finnst mér hún alveg standast. Það er nefnilega ekki í hag fjölmiðla að hlutirnir séu á hreinu. Hinn endanlegi sannleikur er eflaust ekki til en það er alveg ljóst að fjölmiðlar eru ekki að leita hans.
Það er mikilvægt og jafnvel göfugt markmið að upplýsa almenning um það sem er að gerast í heiminum. En ef það er ekkert að gerast í heiminum, hvað þá? Fréttatíminn er 30 í mínútur, það verður að fylla hann. Dagblaðið á að vera 30 eða 50 síður, það verður að fylla það. Það er ekki í hag fjölmiðla að deilumál leysist. Friður í samfélaginu er ekki hagur fjölmiðla. Það er þeim hins vegar í hag að bera olíu á eldinn því þá er hægt að skrifa um eitthvað á morgun.
Það er langt síðan að mér fór að leiðast fjölmiðlaumræðan. En eftir hrunið hefur alveg keyrt um þverbak.
Það er ekkert launungarmál að ég styð ríkisstjórnina. Ég veit fullkomlega hvaða fjölmiðlar styðja hana og hverjir ekki og að sjálfsögðu vel ég þá sem eru mér sammála. Hins vegar finnst mér það ákaflega vont. Því enginn og ekkert er hafið yfir gagnrýni. Mér finnst alveg gríðarlega vont að geta engum trúað. Það er alltaf eitthvert áróðursstríð í gangi. Raunin er sú að ég ,,vel” að trúa ,,mínu” fólki en ekki ,,hinum”. Áður en þú kafnar úr hneykslan: þú gerir þetta  líka.
Mig dreymir um fjölmiðil, helst dagblað, sem tekur upp mál og skoðar þau á gagnrýninn og æsingarlausan hátt og ég get treyst, ekki í blindni þó, að um þau sé fjallað á hlutlausan hátt. Hlutlausan. Mikið óskaplega væri gott ef íslenskir fjölmiðlar kynntu sér þetta hugtak. Það er engan veginn í lagi að ég viti nákvæmlega pólitískar skoðanir ákveðinna fréttamanna.
Ég get líka alveg lifað með því að fréttatíminn sé ekki nema tíu mínútur af því að það er bara allt ágætt í veröldinni. Sem mér finnst reyndar ólíklegt.