fimmtudagur, júlí 02, 2015

Tarzan



Fallegi pabbi minn.
Þegar ég var krakki þá var ég talsverður lestrarhestur. Las í gegnum Vippa, Grím grallara, Fimm-, Dularfullu- og Ævintýrabækurnar. Einhvern tíma, man ekkert hvernig það kom til, þá fór pabbi að tala um Tarzan bækurnar og að hann og bróðir hans hefðu átt þær í gamla daga. Sammæltumst við um að reyna að ná þessum bókum. Ég man ekki hvort við gerðum okkur sérstaka ferð eða hvort fjölskyldan fór bara í heimsókn á Skólavörðustíginn til afa og ömmu. Hvernig sem það vildi til þá fórum við pabbi einn daginn í gegnum kassa í kjallaranum. Við vorum of sein, frændur mínir höfðu náð í góssið.
Einhverju seinna fór Siglufjarðarprentsmiðjan að gefa út Tarzan blöð. Ég safnaði þeim auðvitað eftir bestu getu. Síðan minnkaði áhuginn eitthvað og blöðin voru falin ofan í sængurfataskúffu. Það vildi nú ekki betur til en skúffan var opin að aftanverðu og Jósefína kattardrottningin okkar komst í blöðin og brýndi á sér klærnar. Ég hefði getað grátið þótt rúmlega tvítug væri á þeim tímapunkti. Tapaði m.a. eintakinu af fyrsta blaðinu. Fyrir tíu árum voru Tarzan blöðin seld í bunkum á bókamarkaði í Perlunni. Ég stóðst auðvitað engan veginn mátið og bætti mér upp tapið og meira til. Nema fyrsta eintakinu, auðvitað.
Nú hafa Tarzan blöðin verið á ákveðnu flandri í húsinu en fengu svo stað í hillusamstæðunni hjá eldri drengnum.
Nýverið erum við mæðginin að fara í gegnum herbergið hans. Ég er aðallega að fjarlægja hluti sem við foreldrarnir höfum geymt inni hjá honum því nú er hann orðinn það stór að mér þykir eðlilegt að herbergið hans sé einmitt það, herbergið hans. Þarna stend ég í tröppunni og er að teygja mig í tímaritaboxin með Tarzan blöðunum þegar drengurinn spyr hvað þetta sé.  Hálffimmtuga móðirin hikar aðeins og svarar svo: „Þetta eru Tarzan blöðin mín. Vilt þú.... kannski... eiga þau?“ „Já!“ hrópar drengurinn, yfir sig ánægður, og lagðist svo yfir blöðin. Þetta með eðlukarlinum er alveg uppáhalds. Hann búinn að segja mér söguna nokkrum sinnum og leika m.a.s. leikrit upp úr því.
Ég hef óneitanlega gaman að þessu. En mikið syrgi ég að afi hans skuli ekki hafa lifað til að segja honum frá Tarzan.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...