miðvikudagur, janúar 18, 2012

Af hverju nauðga þeir?


Það má vera að nauðgunum hafi ekki farið fjölgandi, enda skiptir litlu hversu fáar þær eru, ein nauðgun er einni of mikið. Hins vegar finnst mér viðhorfið hafa breyst. Nú langar mig ekki mikið til að velta mér upp úr lýsingum en ég er hrædd um að það sé nauðsynlegt til þess að útskýra það sem ég er að hugsa.
Fyrir um 4 fjórum árum síðan var ungur maður dæmdur  fyrir nauðgun í salerni Hótel Sögu. Hann hélt því fram að ,,kynmökin” hefðu verið með vilja beggja. Gefum okkur að hann hafi í alvöru haldið það. En hér er það sem ég skil ekki: Stúlkan var frosin af ótta. Fannst honum í alvöru eðlilegt að stúlkan væri alveg eins og dauðyfli? Væri ekki líklegra að kynlíf ókunnugra inni á almenningssalerni væri svolítið villt? Svolítið líflegt? Þá var stúlkan einnig svo þurr að hún var öll rifin og tætt eftir aðfarirnar. Er þetta ekki Kynfræðsla 101? Ef konan er ekki blaut þá langar hana ekki.
Nú má vera að þessi ungi maður hafi undarlegar hugmyndir um kynlíf, hvernig sem á því nú stendur. En hann er greinilega ekki einn um það því maðurinn var sýknaður í héraðsdómi. (Málinu var svo aftur vísað heim í hérað.) Svo mætti lögfræðingurinn hans, svokallaður ,,stjörnulögmaður” í sjónvarpssal til að verja þessa sýknu. Málflutningurinn var: Ungi maðurinn hélt að stúlkan væri viljug. Hvernig, ó, hvernig er hægt að komast að þessari niðurstöðu?!
Nýverið kom fram kæra á hendur þekktum manni. Hann fullyrti að sjálfsögðu að kynlífið hefði verið með vilja allra aðila. Hins vegar kom fram í fréttum að stúlkan sem kærði þurfti að fara í aðgerð til að fjarlægja túrtappa sem hún var með. O, hvað það hlýtur að vera unaðslega gott að láta þjappa túrtappa upp í legið á sér. Tala nú ekki um af því að hann er rakadrægur svo nauðsynleg bleyta hefur ekki komist til skila. Allt þurrt sem sagt. Kynfræðsla 101, þið munið.
Gefum okkur að þessir menn hafi í alvöru haldið að þetta væri viljugt ,,kynlíf”.  Það eitt og sér er nógu slæmt. Það sem er öllu verra er allt fólkið sem er reiðubúið að verja þennan málstað.
Og hver er málstaðurinn? Jú, hann er sá að konur njóta ekki kynlífs og það er bara eðlilegt að þær njóti þess ekki.
Þetta er rangt. Kynlíf á að vera gott. Það á ekki að vera vont.  Hvernig má það vera að fullt af fólki virðist hafa misst sjónar á þessu grundvallaratriði? Eru ungar konur virkilega, upp til hópa, að lifa löngunarlausu kynlífi og þar með valda/viðhalda þessum ranghugmyndum?
Ég hef séð tvær bíómyndir um mansal. Annars vegar Human Trafficking og  Lilya-4-ever. Það óhuggulega var að í Lilya-4-ever þá er berst söguhetjan um og grætur á meðan viðskiptavinurinn er að hamast á henni og honum er alveg sama. Í Human Trafficking er sýnt þegar stúlkurnar liggja dauðar undir kúnnunum og þeim virðist vera alveg sama.  Nú má segja að þetta eru bíómyndir. Hins vegar er fullt af stúlkum seldar í kynlífsánauð (börn líka en ég treysti mér ekki út í þann viðbjóð) og alveg ljóst að þær kæra sig ekki um að þjónusta kúnnana. 
Fyrir einhverju síðan brann hóruhús til kaldra kola í Tælandi. Flestar stúlknanna brunnu inni því þær voru hlekkjaðar við rúmin.
Mér er það fullkomlega ljóst að mikill meirihluti karlmanna er fullkomlega eðlilegur og myndi aldrei nauðga. Mér er líka ljóst að til eru einstaka kvenkyns gerendur en þeir eru miklu færri. Staðreyndin er að kynlífsmarkaðurinn er tilkominn vegna eftirspurnar karlmanna og langflestar nauðganir eru framdar af karlmönnum.
Án þess að ég vilji firra einstaklingana ábyrgð langar mig að varpa fram eftirfarandi spurningum:
Hvernig stendur á því að sumum mönnum finnst þetta í lagi?
Hvað erum við sem samfélag að gera sem veldur því að þessi viðhorf skjóta rótum?
Erum það ekki við sem búum til þessa menn?

Ef ungar konur eru virkilega að lifa löngunarlausu kynlífi hvernig stendur þá á því?
Hvað erum við að gera rangt og hvernig getum við lagað það?