laugardagur, nóvember 19, 2005
Ég hakkaði niður brauðenda um daginn og gaf fuglunum. Skömmu eftir að ég setti þetta út þá frétti ég að nágranni minn berst við mikinn músagang. Þær eru búnar að naga gúmmí úr botninum á bílnum og ein dauð á hverjum morgni í músagildrunni. Þetta er jú árstíminn sem þær fara að leita skjóls. Kennslustofan á meðferðarheimilinu er í kjallara og við fengum eina á gluggann um daginn. Alla vega, ég hafði miklar áhyggjur af því að ég væri bara að gefa músunum og hef því aðeins haft auga með brauðhrúgunni. Þegar ég leit út um gluggann áðan þá sá ég í fyrsta skipti einhvern að snæðingi. Það var ekki mús og ekki fugl heldur köttur. Svo ég ætla bara að halda áfram að gefa kisu að borða. Bæði í algjöru hefndarskyni vegna þess að hér er bannað að vera með gæludýr og hún hlýtur að halda músunum frá.
Úff, gerði heiðarlega tilraun til venjulegrar göngu. Það var tveggja tíma barningur í gegnum ýmsar gerðir snjós (er eignafallið ekki örugglega svona?). Glærasvell leynir sér ekki en það er erfitt að átta sig á hvítkristölluðum snjó. Er hann það frosinn að ég renni, nógu frosinn til að halda mér, ekki nógu frosinn til að halda svo fóturinn stingist metra niður? Ég átti við allar þessar gerðir í dag. Verst er þegar maður dúmbar niður í hverju skrefi og þarf að klofa. Ég geri mér samt vonir um að ég hafi fengið mikla líkamsrækt út úr þessu. Það er hins vegar ljóst að ég reyni þetta ekki aftur fyrr en snjóa leysir. Best að athuga með gönguskíðin.
föstudagur, nóvember 18, 2005
Þá er ég búin að fara í vikulegan verslunarleiðangur til Húsavíkur og er tilbúin í helgina. Finnst alltaf gott að fá helgarfrí en er sérstaklega ánægð með það núna. Búin að vera eitthvað þreytt þessa viku. Held reyndar að ég viti hvað það er. Þegar ég lagðist í löngu flensuna þá hætti ég alveg að hreyfa mig fyrir utan þetta nauðsynlega. Svo kom kuldakast og... Bara allar ástæður til að hola sér niður í sófa og gera sem minnst. Núna er tollurinn að koma. Því minna sem maður gerir því latari verður maður. Ég ætla því að hreyfa mig um helgina. Ég á hlý föt og get alveg dröslast út að labba. Það er m.a.s. skíðagöngubraut hérna. Ég á að vísu ekki skíðin en get kannski fengið þau lánuð. Ætla alla vega að skoða brautina um helgina. Get kannski fundið fleiri gönuleiðir þótt það sé ekki annað.
fimmtudagur, nóvember 17, 2005
Stjórnmálaþurs
Þú ert vanaföst, tilfinningarík félagsvera.
Í margmenni á stjórnmálaþursinn oftar en ekki orðið. Ef einhver hyggst grípa fram í fyrir honum talar hann bara hærra - og það virkar. Hann hefur sterkar skoðanir á flestu, hvort sem um er að ræða fjárlagahalla ríkisins eða það hvort SS eða Goða pylsur eru betri, og gerir hvað hann getur til að þröngva þeim upp á aðra. Stjórnmálaþursinn þarf að passa sig þegar hann er í nærveru þeirra sem eru ósammála honum því blóðþrýstingurinn á það til að rjúka upp.
Stjórnmálaþursinn vantar ekki nýja skó fyrr en það er komið gat á þá gömlu... sem skósmiðurinn segist ekki geta gert við. Stjórnmálaþursinn veit hvar Guðsteinn er með verslun.
Hvaða tröll ert þú?
Það er þemavika í skólanum og mikið í gangi. 10. bekkur er að setja upp Dýrin í Hálsaskógi og það virðist ætla að verða mikil og skemmtileg sýning. Kemur í ljós á árshátíðinni. Ég og 8. bekkur settum upp eitt atriði úr Animal Farm á samverustund í dag. Það var ekki stórkostlegur leikstjórnarsigur fyrir mig. Mér til afsökunar þá kom þetta seint til og æfingar voru litlar. Við sungum alla vega Ungar skepnur, aldnar skepnur við Njallann. Ég held að krakkarnir læri síst minna á svona vikum en hefðbundnum. Þar sem við æfðum lítið þá höfðum við bara sungið lagið einu sinni. Í morgun heyri ég svo lagið, þá höfðu krakkarnir átt lausa stund, gripið tónlistarkennaranema og beðið hann að hjálpa sér. Glæsilegt frumkvæði. Hvað eiga börn í grunnskóla að læra ef ekki að bjarga sér?
miðvikudagur, nóvember 16, 2005
Keypti tvær vekjaraklukkur í gær svo ég svæfi nú örugglega ekki yfir mig. Ég hef þær sérþarfir að það má alls ekki heyrast tikk í klukkunum. Gjörsamlega þoli það ekki. Stóð því í helstu verslunum nágrannabæjarins og hlustaði klukkur. Það er kannski ekki skrítið að verslunarfólk sé farið að heilsa mér. Gat svo ekki sofnað síðustu nótt. hefur væntanlega vantað bláa diskóljósið til að blikka mig í svefn.
Hér er farið að verða jólalegt. Kirkjukórarnir eru líka farnir að æfa fyrir aðventuna. Milliraddir syngja mest eintóna. Mér finnst það auðvitað ekki nógu gaman og laumast reglulega yfir í sópran. Það er svo auðvelt að afvegaleiða mig, ég syng bara með þeim sem ég heyri ´mest í.
Hér er farið að verða jólalegt. Kirkjukórarnir eru líka farnir að æfa fyrir aðventuna. Milliraddir syngja mest eintóna. Mér finnst það auðvitað ekki nógu gaman og laumast reglulega yfir í sópran. Það er svo auðvelt að afvegaleiða mig, ég syng bara með þeim sem ég heyri ´mest í.
þriðjudagur, nóvember 15, 2005
Vekjaraklukkan mín er biluð svo ég hef notað gemsann sem vekjara undanfarinn mánuð. Gemsinn lýsist allur upp og blikkar bláum bjarma ef hann vill segja eitthvað. Eins og t.d. vekja mig. Nú eða leita að signal, sem hann gerir ansi oft. Eina nóttina þegar svefnherbergið mitt lýsist allt upp í bláum bjarma þá svona hvarflaði að mér að þetta væri kannski ekki sniðugt. Hvað gæti fólk haldið?
Ég sem sagt að hugsa um að fara til Húsavíkur og kaupa mér vekjaraklukku þótt það sé skítakuldi og snjófjúk. Ég gæti nefnilega keypt mér nammi í leiðinni:)
Ég sem sagt að hugsa um að fara til Húsavíkur og kaupa mér vekjaraklukku þótt það sé skítakuldi og snjófjúk. Ég gæti nefnilega keypt mér nammi í leiðinni:)
mánudagur, nóvember 14, 2005
Draugagangur í sálinni
Í kærleikans kirkjugarð
klöngrast dáin þrá.
Rís þess vofa' er aldrei varð
vill mig láta sjá.
Í dimmu draumalandi
dansar vonin feig.
Því ást á eyðisandi
aldrei verður fleyg.
Aftur svíða gömul sár,
sorgin leikur brag.
Flæða aftur tregatár,
taktfast muldra lag.
Í skjóli nætur skuggar líða
skunda í mitt hús.
Í örmum mínum ástin blíða
aldrei varð mér fús.
Ég endursamdi þetta (eins og ég var hvött til). Er ég ekki bara að ná hrynjandinni?
Í kærleikans kirkjugarð
klöngrast dáin þrá.
Rís þess vofa' er aldrei varð
vill mig láta sjá.
Í dimmu draumalandi
dansar vonin feig.
Því ást á eyðisandi
aldrei verður fleyg.
Aftur svíða gömul sár,
sorgin leikur brag.
Flæða aftur tregatár,
taktfast muldra lag.
Í skjóli nætur skuggar líða
skunda í mitt hús.
Í örmum mínum ástin blíða
aldrei varð mér fús.
Ég endursamdi þetta (eins og ég var hvött til). Er ég ekki bara að ná hrynjandinni?
sunnudagur, nóvember 13, 2005
Vegna hinna undurlegu rjúpnaveiðireglna og sölubanns þá er ég að íhuga að verða mér úti um byssuleyfi og skjóta rjúpur. Það myndi leysa rjúpuvanda fjölskyldunnar. Við höfum borðað skoskar rjúpur undanfarin tvö ár en ég veit ekki hvort ég á að treysta því að þær verði fluttar inn. Ég held nefnilega að ég undir vopnum sé ekki sniðug hugmynd.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)
Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...
-
Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar. I. Framboðið sjálft. Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeir...
-
Fyrir nokkrum árum síðan setti ég fyrirspurn inn á Turn-it-in grúppu á Facebook. Turn-it-in er forrit sem við kennarar notum til að sjá hv...
-
Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...