fimmtudagur, maí 04, 2023

Refsinornir

Ég ætla að varpa þessu út í kosmósið af því að ég held að við þekkjum flest svona fólk og, ég ætla bara að segja það, það er alveg hundleiðinlegt.

Það er erfitt að setja fram dæmi af því að „þetta fólk“ gæti þekkt sig í dæmunum en það er líka stórhættulegt að reyna að tala í kringum sannleikann. Við skulum því segja að frásögnin sé byggð á sönnum atburðum. #afsakið.

Sko, ég er ekki að halda því fram að fólk eigi ekki að vera ábyrgt gerða sinna en mér finnst í alvöru að það eigi að vera einhvers staðar takmörk. Ég er ekki að tala um glæpi heldur bara svona hegðun. Og mér finnst í alvöru að það eigi að vera einhver fyrningarákvæði varðandi hvað má draga upp hvar og hvenær sem er.

Byggt á sönnum atburðum.

Dæmi 1.

Ég: Mér finnst ekki fallegt af þér að kalla mig ljótum nöfnum í gær þótt við séum ósammála um þetta sem gerðist.

Refsinorn: (setur upp heilagan vandlætingarsvip og dregur fram 700 blaðsíðna syndaregisterið mitt í A3 broti (það er ekki til í föstu formi heldur bara í höfði refsinornarinnar en þetta er byggt á sönnum atburðum svo ég má byggja) og skellir því með dynk á púltið (ekkert púlt heldur en þið vitið) og byrjar að fletta. Lítur ásakandi upp og segir reiðilegum en dálítið brostnum rómi:) Jæja? Ég man nú vel þegar þú varst sautján ára og sagðir eitthvað leiðinlegt við mig.

Ég: Þegar ég var sautján ára? Það er rooosalega langt síðan að ég var sautján ára.

Refsisnorn: Það getur vel verið en þetta særði mig mjög mikið og ég get ekki gleymt því.

Ég: (Kafandi djúpt í margra áratuga gamlar minningar.) Ég man bara ekkert eftir þessu.

Refsinornin: Nei auðvitað ekki. Þér hefur alltaf verið sama um mínar tilfinningar.

Ég: (Gjörsamlega að kreista heilabörkinn.) Jú, ég man þetta! En heyrðu… Þetta var nú ekki alveg svona… Ég baðst líka afsökunar.

Refsinornin: Það getur vel verið en þetta situr alltaf í mér.

 

Dæmi 2.

Látum það vera að það sé eitthvað dregið fram sem ég gerði af mér fyrir næstum fjörutíu árum síðan en mér finnst helvíti skítt þegar ég á líka að bera ábyrgð á hegðun fólks mér tengdu.

Ég: Ég kann ekki vel að meta það að þú sért að skipa mér fyrir verkum. Þú ert enginn yfirmaður yfir mér.

Refsinorn: (Dregur fram syndaregister sem ég kannast ekki við og skellir því á púltið og byrjar að fletta.) Jæja? Þetta er sko ekkert öðruvísi en þegar maðurinn þinn skipaði einhverri annarri manneskju fyrir verkum fyrir tuttugu árum síðan.

Ég: Ha? Hvað kemur þetta málinu við?

Refsinornin: Ég er bara að segja að þið hafið ekkert efni á að dæma.

Ég: Við? Við* erum ekkert að tala við þig, ég er að tala við þig! Svo skil ég ekki hvað máli það skiptir hvað maðurinn minn gerði áður en ég kynntist honum og það einhverri manneskju sem er ekki hérna!

Refsinornin: Nei, það má aldrei tala um ykkar hegðun.

Ég: Okkar...?! Ha?! Bara... Hvað?!





Update 11. okt. 2023.
Var að hlusta á þennan þátt og er að átta mig á að ég er að lýsa narsissískri hegðun hér að ofan. 

*Það er svo seinni tíma ritgerðarefni hvernig línurnar á milli þið og við flæða og hverjir fylla hvern flokk hverju sinni. 





Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...