Ég birti hér nokkrar færslur af Facebook, lítillega uppfærðar.
I. Framboðið sjálft.
Af því að fólk hefur verið að lýsa undrun sinni á þeirri rosalegu frekju og tilætlunarsemi Katrínar Jakobsdóttur að ætla sér að fara beint úr stól forsætisráðherra í forsetastólinn þá finn ég mig til knúna að leggja orð í belg.
Katrín talaði um það opinberlega að hún hafi verið búin að ákveða að hætta
í stjórnmálum fyrir næsta kjörtímabil. Kannski talaði hún ekki um það
opinberlega fyrr en í forsetaframboðinu en og nú ætla ég bara að segja það
beint því það mun koma fram, við erum frænkur og hún var búin að tala um þetta
við sína nánustu. Þannig að nei, ég er ekki hlutlaus. Ég veit alveg nákvæmlega hvaðan Katrín
kemur.
Katrín sagði líka opinberlega að hún hefði hvatt Guðna Th. til að sitja
eitt kjörtímabil til. Það hefði nefnilega verið fullkomin tímasetning. Katrín
hefði hætt fyrir næstu þingkosningar sem eru 2025. Þá hefði hún haft þrjú ár
til hvíldar og stjórnmálaöldurnar hefði lægt og hún hefði getað boðið sig fram
til forseta 2028, 52 ára gömul. Þetta hefði verið fullkomið og með hreinum
ólíkindum að Katrín hin alvalda eða skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins og við í
„sóða-„ og „dauðasveitunum“ gátum ekki þvingað Guðna Th. til að sitja lengur.
En Guðni fékk bara alveg að ráða ráðum sínum sjálfur og ákvað að hætta.
Hvað átti Katrín að gera í þeirri stöðu? Og ég ætla ekki að taka undir
karlrembulegar fullyrðingar um valdasýki. Né heldur að forsætisráðherra megi
ekki bjóða sig fram. Allar fullyrðingar um slíkt eru rangar eins og þjóðhetjan
sjálf Ólafur Ragnar Grímsson kom
inn á í kosningasjónvarpinu.
Sumir segja að Katrín hefði átt að bíða. Setjum þá sviðsmynd upp: Halla
Tómasdóttir hefði verið kosin. Halla er 56 ára á þessu ári, hún getur vel setið
næstu 12 ár, jafnvel lengur. Átti Katrín að bíða í 12, 16 eða 20 ár? Eftir 20
ár er Katrín orðin 68 ára. Ef Katrín hefði ekki verið í framboði í þetta skipti
og fólk ekki ,,neyðst" til að kjósa taktískt þá hefði Halla Hrund getað
unnið. Halla Hrund er 43 ára. Auðveld 20 ár þar.
Þá hefur verið gagnrýnt að hún hafi ekki sagt strax af sér eftir ávarp Guðna
Th. og hafið forsetaframboðið. Tilkynning Guðna kom öllum á óvart og þá átti
Katrín eftir að hugsa málið og ræða það við fjölskylduna sína. Þá var
lokafrestur til að bjóða sig fram klukkan 12:00 þann 26.
apríl. Katrín var búin að tilkynna
framboð sitt vel innan þess ramma.
Katrín hefði getað boðið sig fram gegn sitjandi forseta eftir 4 ár. Er
það samt? Hvernig hefði það litið út? Það er hefð fyrir því að sitjandi forseti
sitji eins lengi og hann vill. Ástþór hefur að vísu neitað að samþykkja þá hefð
en sitjandi forseta hefur aldrei verið skákað.
Mér finnst það alveg augljóst að fyrst Katrín vildi láta á þetta reyna
þá var tíminn núna. Persónulega hefði ég viljað hafa hana áfram í stjórnmálunum
en ég virði það að hún sé orðin þreytt.
II. Orðræðan
(Vinsamlegast athugið! Í þessari færslu er beitt kaldhæðni. Fyrir þau
sem ekki vita hvað það er má sjá útskýringu hér.)
Eitt af því sem gekk linnulítið um netheima og gerir enn er sú
fullyrðing að Katrín Jakobsdóttir hefði látið „gabba sig“ til að gefa eftir
forsætisráðherrastólinn og fara í framboð til forseta. Af því að henni hefði
verið „lofaður“ forsetastóllinn.
Ah, gamla, góða kvenfyrirlitningin aftur og enn.
Svona orðræða hefur linnulítið verið í gangi frá því að Katrín kom fram á sjónarsviðið. Iðulega kölluð „Kata litla“ sem er að sjálfsögðu til þess ætlað að gera lítið úr henni. Fyrst í stað var talað um að Steingrímur J. stjórnaði henni á bak við tjöldin og nú í seinni tíð að Bjarni Ben stjórnaði.
Af því að auðvitað getur kona ekki stjórnað sér sjálf, hvað þá öðrum. (Fyrir utan þegar hún er alvalda og stjórnar t.d. allri fjölmiðlaumræðu.)
Katrín hefur verið í stjórnmálum í meira en tuttugu ár. Hún hefur setið
á Alþingi í sautján ár, var menntamálaráðherra i fjögur ár og forsætisráðherra
sl. sjö ár. Varaformaður VG í tíu ár og formaður sl. ellefu ár. Auðvitað, auðvitað,
veit þessi kona nákvæmlega ekkert um það hvernig lýðræðið virkar. Auðvitað
gleypir hún það bara hrátt þegar henni er „lofaður“ forsetastóllinn af því
auðvitað ber hún ekkert skynbragð á það að fyrst þurfi að fara fram kosningar.
Á sl. tuttugu árum hafa nefnilega bara farið fram sex Alþingiskosningar þar sem
VG hefur gengið misvel.
Og af því að hún er bara svona lítil kona þá getur Bjarni Ben auðvitað, auðvitað,
bara gabbað hana og snúið í hringi alveg eins og honum hentar.
En stundum er líka talað um það hvað hún er vel menntuð, og tilheyrir þá
einhverri neikvæðri elítu. Það náttúrulega ber Háskóla Íslands ekki gott vitni
að svona rosalega einföld og vitlaus kona skuli fara svona auðveldlega í gegnum
hann.
Nei, Katrín Jakobsdóttir tekur sínar ákvarðanir sjálf. Hún er bæði vel
menntuð og vel gefin og veit að sjálfsögðu hvernig lýðræðið virkar á Íslandi.
PS.
Ég vona að ég sé ekki að „hijacka“ einhverjum orðum úr femínismanum í
færslu um þessa voðalegu konu sem EKKERT, nákvæmlega EKKERT hefur gert fyrir
konur á Íslandi. Eða þannig.
Guði sé lof að þessi framúrskarandi femínisti vann!
III. Orð
Núna langar mig að tala um fyrirbærið -orð-.
Í forsetaþætti Heimildarinnar sagði Baldur Þórhallsson að haft hefði
verið samband við „okkur“ úr „herbúðum Katrínar“ og hann beðinn um, jafnvel
þrýst á hann að draga framboð sitt til baka.
Ég vil taka það strax fram að ég mun ekki væna Baldur um lygar. Hefði
Katrín ekki boðið sig fram þá hefði ég verið í miklum vandræðum með atkvæðið
mitt því mig langaði að fá konu í embættið en mig langaði líka mjög mikið að
kjósa Baldur.
Það hefur aldrei komið skýrt fram hvaða mengi þetta „okkur“ spannar og
því síður hugtakið „herbúðir Katrínar.“ Það er kannski vert að taka fram að
Katrín varð undrandi á þessum fréttum og ekki var hún leikkonan í hópnum.
Baldur sagði sem sagt ekki í þættinum að það hefði verið talað við hann
beint. Það var talað við „okkur.“ Það má því leiða að því líkum að einhver í
„herbúðum Katrínar“ hafi talað við einhvern í „herbúðum“ hans.
Við tökum eftir að hann talar ekki um „kosningateymi“ né
„kosningastjóra“. „Herbúðir“ er ansi vítt hugtak. Ég ætla að leyfa mér að halda
því fram að „herbúðir“ spanni ekki bara kosningastjóra og kosningateymi heldur
einnig dygga stuðningsmenn. Ég var yfirlýstur stuðningsmaður Katrínar og hef
því þá væntanlega verið í hennar „herbúðum“. Mér er það bæði ljúft og skylt að
taka það fram að ég hafði ekki samband við „herbúðir“ Baldurs og fór fram á að
hann drægi framboð sitt til baka.
Reyndar sýndist mér að honum fyndist meira úr þessu gert en var ætlun
hans. Mér gæti skjátlast.
Þegar fólk setur fram svona alvarlega fullyrðingu, mætti jafnvel segja
ásökun, þá þarf að rökstyðja hana. Það verður að koma fram hver það var sem
hafði samband og við hvern. Ef það kemur ekki fram þá eru þetta bara dylgjur.
Það var seinna gengið á Baldur og hann beðinn um nöfn og þá sagði hann
að þetta hefði verið einkasamtal og ekki eðlilegt að nefna nöfn. Hann hefði
verið að ræða þetta „almennt.“ Það má spyrja hversu eðlilegt það sé að varpa
fram ásökunum byggðum á einkasamtölum opinberlega. Ég held nefnilega að Baldur
hafi hlaupið á sig þarna og var svo að reyna að draga í land.
Það getur alveg verið að einhver úr „herbúðum Katrínar“ , ekki samt ég,
hafi haft samband við einhvern í „herbúðum Baldurs“ og lagt það til að Baldur
hætti við framboðið. Kannski var það í einkasamtali yfir kaffibolla eða jafnvel
inni á bar. En þetta var enginn þungavigtaraðili í kosningateymi Katrínar.
Sú fullyrðing hefur verið sett fram að Baldur hafi sagt hinum frambjóðendunum
hver þetta var. Sé það rétt og hafi þetta verið einhver þungavigtaraðili í
„herbúðum Katrínar“ þá væri Steinunn Ólína búin að segja okkur hver þetta var.
Á meðan þetta er eitthvað almennt einkasamtal ónefndra aðila þá er þetta
því miður bara dylgjur.