sunnudagur, júní 08, 2014

Tímarnir breytast en gamlar konur ekki jafn mikið með

Eitt af því sem mér hefur fundist virka vel í kennslu er að geta vísað til einhvers sem nemendur
þekkja líka og finnst helst skemmtilegt. Því miður virðist ungt fólk í dag lesa helst til lítið svo það virkar ekki alveg að vísa í bækur. Ég varð nánast miður mín nýverið þegar mikill meirihluti hópsins þekkti ekki Enid Blyton.
Ég vísa oft í teiknimyndasögur enda nokkuð vel að mér. Það virkar ágætlega,  krakkarnir hafa séð þær í sjónvarpinu. (Það verður ekki á allt kosið.)
Í gegnum tíðina hafa bíómyndir og sjónvarpsþættir komið sterkir inn.
Þegar ég byrjaði að kenna í Fellaskóla 2002 var verið að sýna þætti eins og King of Queens, According to Jim og Everybody loves Raymond. Þetta voru þættir sem flestir könnuðust við. Og virkaði sérstaklega vel að vísa til þegar ég ræddi um staðaltýpur en þær eru því miður langt frá útdauðar.
Þá gerðu Fellskælingar mér þann greiða að vera vel að sér og áhugasamir um gamalt rokk sem gerði mér alla kennslu og sérstaklega enskukennsluna mun auðveldari. Þótt ekki hafi við leyst gátuna um The Whiter Shade of Pale þá reyndum við það vissulega.
Á þessum tíma þekktu líka allir bæði Star Wars og Hringadróttinssögu enda Hringadróttinssaga ný og seinni hluti Star Wars líka.
Þegar ég kenndi í Árbót þá könnuðust krakkarnir við Guðföðurinn þótt þau hefðu ekki séð hann. Ég bætti snögglega úr því enda vorum við að lesa Gísla sögu Súrssonar. Já, mér finnst Guðfaðirinn
góður formáli að Íslendingasögunum.
Þá voru þau vel að sér í Stjörnustríðsfræðunum. Einn strákurinn var lasinn og hálfhryglaði í honum. Hinir krakkarnir byrjuðu að anda eins og Dart Vader og söngluðu svo ,,vondu-kalla lagið" úr Star Wars. Við hlógum mikið, líka strákurinn.
Hneit þar

En tíminn trítlar áfram sinn veg og pikkar upp nýja siði.
Nú er svo komið er ungmennin eru með annað augað á fartölvunni og hitt á snjallsímanum sínum. Lífið hefur færst þangað inn. Ég banna þessar græjur í tímum því, undarlegt nokk, þá vil ég hafa þau hjá mér í raunheiminum. Þeim finnst það mjög skrítið. Og til að kóróna þessi ósköp þá er unga fólkið hætt að horfa á sjónvarpið. Það hleður bara niður einhverjum þáttum og horfir á þá í tölvunni.
Modern Family eru einhverjir vinsælustu þættirnir í dag. Ég segi: ,,Vísun er eins og í Modern Family um daginn þegar hermt var eftir fræga atriðinu úr Godfather." Tóm augnaráð. ,,Nú eða þá eins og í Toy Story sem vísar stöðugt í Star Wars." Ég varð að sýna þeim þetta.
Ég vitnaði í atriði úr Grey's Anatomy, tveir nemendur könnuðust við það. Annar á nefnilega alla þættina, í tölvunni. Vinir eru útdauðir. Ég tek dramatískt atriði úr Star Wars: ,,Luke. I'm your father" og hlæ svo eins og fífl. Algjört Emíní augnablik. Skelfingarsvipur á sumum börnunum, konan orðin
endanlega klikkuð.
Ég er í tómarúmi þess fullorðna sem hefur enga tengingu við ungdóminn.
Nú ætla ég ekki að fara að gráta yfir því að heimur versnandi fari. Forverar mínir í fullorðna dæminu hafa grátið reglulega yfir því og ungdómnum og allt slumpast þetta nú samt einhvern veginn.
Mikið óskaplega væri það nú samt gott ef þau myndu lesa Ástrík og horfa á Godfather og Star Wars í sumarfríinu.
Góðar stundir og may the force be with you.