föstudagur, apríl 01, 2011

Nei-ið

Hafi ég skilið málflutning þeirra sem vilja hafna Icesave samningunum þann 9. apríl næstkomandi þá eru þessar ástæður helstar:

1. Okkur ber engin skylda til að borga þetta.

2. Þótt við höfnum samningnum þá gerist ekki neitt sbr. síðustu höfnun.

3. Icesave er bara inngöngumiði í ESB og með því að hafna samningnum þá losnum við við ESB.

Allt í lagi. Allt er þetta gott og gilt. Ég er til í ýmislegt til að losna við ESB. En ég get ekki að því gert en mér sýnist vera einhver rökvilla í þessum málflutningi.

Af hverju fáum við ekki inngöngu í ESB ef við neitum að borga? Hlýtur það ekki að vera vegna þess að Evrópusambandsþjóðirnar telja að okkur sé skylt að borga? Er nóg að við teljum að okkur sé ekki skylt að borga, verða ekki viðsemjendur og jafnvel fleiri að deila þeirri skoðun?

Og eru það ekki þessar sömu Evrópuþjóðir sem hafa dómsvald í málinu? Hvernig er hægt að halda því fram að við eigum möguleika á því að vinna dómsmál þegar það (virðist) liggja ljóst fyrir að við fáum ekki aðild að ESB ef höfnum samningnum af því að fólkið í Evrópusambandslöndunum telur okkur skylt að borga...?

Ef ESB dömpar umsókninni okkur af því við höfnum samningnum þá er það eitthvað sem gerist. Þá er það klárlega ekki rétt að EKKERT gerist. Viðsemjendur okkar hafa líka gefið það út að frekari samningaviðræður séu ekki í boði svo þá blasir dómstólaleiðin við. Að fara fyrir dóm er atburður, þ.e. eitthvað sem gerist. Og nota bene, það er ESA sem stefnir okkur og við endum fyrir EFTA dómstólnum. Þið vitið, þetta apparat sem tilheyrir ESB sem mun hafna umsókninni okkar af því að ... Ja, einhverjum gæti dottið í hug að það sé vegna þess að þeir telji okkur skylt að borga.

Segjum nú sem svo að við höfnum þessu og förum fyrir dómstóla og vinnum málið. (Sem við hljótum auðvitað að gera af því okkur er ekki skylt að borga skv. röksemdafærslunni). Þá hefur ESB enga ástæðu til að hafna umsókninni okkar svo við hljótum að halda áfram för okkar þangað inn. Þannig að það að hafna Icesave samningnum er engin trygging fyrir því að við förum ekki í ESB.

En, alla vega. Það er eitthvað í þessu sem mér finnst ekki ganga upp. En kannski er það bara ég...