Þá er niðurstaðan ljós hér í Þingeyjarsveit og fátt sem kemur á óvart.
Ég vil byrja á því að þakka kjósendum fyrir að leyfa mér að hafa Stórutjarnaskóla í friði næstu fjögur árin. Það er það sem ég vildi, ég gat bara ekki kysst vöndinn.
Þá þakka ég kjósendum fyrir að hafna með afgerandi hætti hugmyndum um fleiri skólastarfsstöðvar. Afskaplega hef ég takmarkaða trú á því fyrirkomulagi.
Talandi um starfsstöðvar. Nú liggur fyrir að farið verður í lofaða ,,íbúakosningu" en ég tel að hún standist ekki lög. Alla vega ekki með þeim hætti sem hún er boðuð. Vísa ég í
fyrri skrif um það.
Nú má spyrja af hverju ég geti ekki unnt íbúum skólasvæðis Þingeyjarsskóla að kjósa um sín mál. Því er til að svara að skólamál sveitarfélagsins snerta alla íbúa sveitarfélagsins, við borgum öll fyrir alla skólana. En spyrjum okkur nú að því hvað gerist eftir ,,íbúakosninguna"? Ef íbúar skólasvæðis Þingeyjarskóla hafna sameiningu þá eru væntanlega allar hugmyndir um skólasameiningu í Þingeyjarsveit út af borðinu. Ef íbúar skólasvæðis Þingeyjarskóla samþykkja sameiningu þá eru allar líkur á að umræðan haldi áfram og farið verði í frekari sameiningu. Verður farið í íbúakosningu um innlimun Stórutjarnaskóla? Hvernig mun sú kosning fara fram? Á skólasvæði Þingeyjarskóla og Stórutjarnaskóla? Öllu sveitarfélaginu sem sagt. Það er alveg sama hvernig á það er litið, með boðuðu fyrirkomulagi er verið að mismuna íbúum sveitarfélagsins. Það er verið að veita hluta þeirra meira vald í skólasameiningarmálum en öðrum. Og það vill svo skemmtilega til (aldrei þess vant) að ég get vísað til þess að ég er ekki ein um þessa skoðun. Sigurlaug Svavarsdóttir (við erum ekki skyldar) segir í aðsendri grein á
641.is,
Eitt samfélag, einn skóli:
Það er ekki góð stjórnsýsla að okkar mati að ætlast til að hluti íbúa
sveitarfélags taki ákvörðun um framtíðarskipan svo viðamikils
málaflokks, þegar kemur að slíkri ákvörðun hljóta allir að bera
sameiginlega ábyrgð, annað teljum við ekki lýðræðisleg vinnubrögð.
Ég veit að Samstaða vill vel en það er ekki nóg að vilja vel. Eins og enskurinn segir: ,,
The road to hell is paved with good intentions." Það verður að fara að lögum og reglum. 107. grein
Sveitarstjórnalaga um íbúakosningar er alveg skýr.
Jafnræðisregla Stjórnarskrárinnar er það líka en hún er svohljóðandi:
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til
kynferðis,
trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar,
litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Ég myndi telja að heimilisfang innan sama sveitarfélags falli undir
stöðu.
Almennir íbúar geta, ef þeir telja að ólýðræðislega sé að farið, sent inn stjórnsýslukæru til Innanríkisráðuneytisins. Hvort sem þeir telja að ólöglega sé staðið að íbúakosningu eða t.d. skólasameiningu. Eyðublaðið er
hér.
Að öðru leyti óska ég nýrri sveitarstjórn velfarnaðar og ætla sjálf að fara að hugsa um skemmtilegri hluti enda orðin almennur borgari á ný.