Fyrir mörgum árum lenti ég í vandræðum. Einstaklingur sem fann fyrir vanmætti hreytti í mig: "Ég er bara vangefinn!" Þessu svaraði ég með setningunni: "Nei, þú ert ekki vangefinn."
Ég veit að rétta orðið er þroskaheftur, það er bara ekki orðið sem einstaklingurinn sem ég var að svara notaði.
Þriðji aðili frétti af þessum orðaskiptum og fór í vegferð. Ástu Svavarsdóttur skyldi refsað fyrir fordóma sína gagnvart þroskaheftu fólki. Á þessari vegferð tókst viðkomandi að búa til alls konar hluti og setja fram alls konar ásakanir og fann mér flest allt til foráttu. Sjálf áttaði ég mig illa á þessum ásökunum og um hvað þær snerust. Þetta voru allt frekar óljósar aðdróttanir. Þetta var linnulítið. Að lokum snerist þetta um það að Ástu Svavarsdóttur skyldi refsað fyrir þá yfirgengilegu frekju að dirfast að vera til og taka pláss í heiminum.
Þetta gekk upp allan stigann og loks var fulltrúi frá yfir-yfir yfirstjórninni kallaður til. Það var haldinn fundur með mér, viðkomandi, fulltrúanum og fleira fólki. Ég var búin á því, ég var örmagna, þetta var búið að ganga á í marga mánuði. Þarna sat viðkomandi og hélt langa ræðu um öll mín ömurlegheit. Ég svaraði og sagði hvað hefði gerst. Þessu svaraði viðkomandi með: "Já, já, þú ert alltaf að segja það sama."
Mig minnir að það hafi verið á nákvæmlega þessum tímapunkti þar sem fulltrúinn frá yfir-yfir yfirstjórninni leit til mín og náði augnsambandi. Og ég sá á svipnum á honum að hann vissi. Hann vissi hvað var að gerast. Þetta var búið og ég gekk í burtu laus allra mála.