föstudagur, mars 08, 2013

Einkaréttur á eigin ásjónu?

Fyrir allnokkrum árum síðan vann ég á næturvöktum. Eina nóttina dundaði ég mér við að búa til skjávara með andlitsmyndum starfsmanna. Voru myndirnar teknar af starfmannapössunum. (Þetta tók ekki ýkja langan tíma svo ég var ekkert að svíkjast voða mikið undan verkum.) Vakti þetta frekar lukku en hitt hjá samstarfsfólkinu og fékk skjávarinn að rúlla.
Nokkru seinna vorum við sameinuð öðrum (hin eilífa hagræðing) og bjó ég til nýjan skjávara. Nú brá svo við að uppátækið vakti litla lukku hjá nýju samherjunum. Rökin voru einhvern veginn á þá leið að það kærðu sig ekki allir um að hafa andlitið á sér blasterað á tölvuskjá. Þetta þóttu mér hin fáránlegustu rök; Þetta sama fólk blasteraði þessi sömu smetti framan í mig alveg reglulega án nokkurs tillits til minna tilfinninga. Og hana nú!
Eníveis. Skjávarinn var tekinn af, ég fór annað (í engum tengslum við þetta, samt) og árin liðu.
Eins og stundum vill fylgja tímanum þá breytist ýmislegt. Fyrst komu myndavélasímar, svo Snjáldurskinnan og nú snjallsímar.
Ungt fólk tekur myndir við öll möguleg og ómöguleg tækifæri og setur á Facebook. Nú bregður svo við að ég hef mjög ákveðnar efasemdir.
Eins og áður var tekið fram þá voru myndirnar sem ég setti á tölvuskjáinn teknar af starfsmannapössum sem fólk átti að bera á sér. Þetta voru myndir sem fólkið lét taka af sér og vissi að væru til. Þá rúlluðu þær á þessum eina tölvuskjá í þessu eina starfsmannaherbergi.
Núna getur hver sem er tekið mynd af hverjum sem er frá hvaða sjónarhorni sem er, jafnvel án vitundar viðkomandi, og sett á netið þar sem allir komast í þær.
Nú er ég ekki að tala um neinar viðkvæmar aðstæður eins og t.d. þar sem fólk er hálfbert. Heldur bara aðstæður eins og t.d. með úfið hár, stírur í augunum og eitthvað svoleiðis. Og í sjálfu sér finnst mér ekkert slíkt þurfa að koma til.
Á viðkomandi ekki að hafa eitthvað um það að segja hvort tekin sé af honum mynd og hvort hún sé sett fyrir allra augu?

mánudagur, mars 04, 2013

Vangaveltur um ,,sameiningu" skólanna.


Eins og allir vita var tekin ákvörðun um að ,,sameina" Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla 2012.
Sú ,,sameining" hefur ekki gengið vel og kemur fáum á óvart. Enda engan veginn er hægt að tala um að sameining hafi átt sér stað.

Forsaga.

Það er auðvitað til að æra óstöðugan að rifja upp þetta ferli en förum samt lítillega í gegnum það.
Fólki og börnum fer því miður fækkandi í sveitinni okkar. Litlir skólar eru eitt en þeir örskólar* sem við búum við annað. Enda hefur komið í ljós að foreldrar hafa áhyggjur af félagslegri stöðu barna sinna og vilja sameiningu. Hagræðingin sem væntanlega myndi fylgja í kjölfarið er í raun aukaatriði. Ánægjulegur bónus engu að síður.
En engin(n) vill missa ,,sinn" skóla og er það skiljanlegt. Þess vegna vill nokkuð tilfinningarót fylgja umræðunni.
Til að hjálpa við (fresta/forðast) ákvarðanatöku hafa nokkrar skýrslur verið skrifaðar.
Vel metnir fræðimenn við Háskóla Íslands voru fengnir til að skrifa eina. Leiddi hún í ljós vilja til sameiningar. Þeirri skýrslu var gefin sú einkunn af skýrslubeiðendum að hún væri ,,ekki skeinipappírsins virði" sem hún var skrifuð á. Ég hafði á þeim tíma samband við einn skýrsluhöfunda og spurði hverju þessu sætti. Viðkomandi, sem var miður sín vegna þessara viðbragða, sagði að erfitt hefði verið að svara þeim spurningum sem lagt var upp með. M.a. vegna þess að bókhaldslyklar skólanna væru ólíkir en Hafralækjarskóli var þá í sama bókhaldskerfi og Norðurþing.  Þá höfðu skýrsluhöfundar boðist til að gera skoðanakönnun meðal allra íbúa sveitarfélagsins en því verið hafnað vegna kostnaðar. (Og kannski ótta við niðurstöðuna?)
Í sveitarstjórnarkosningunum 2010 náði Framtíðarlistinn sem hafði sameiningu skólanna efst á sínum aðgerðalista inn tveimur mönnum. Þá var skrifuð enn ein skýrslan sem gaf til kynna sameiningarvilja foreldra. Minnstan þó í nærsamfélagi Stórutjarnaskóla.
Þá ber að hafa í huga að Samstaða sem náði meirihluta í kosningunum lofaði að hreyfa ekkert við skólunum næstu tvö ár eftir kosningar. Aldrei kom skýrt svar um hvað yrði gert þá þótt spurt væri eftir á íbúafundi.

,,Sameiningin."

Á haustdögum 2011 sagði skólastjóri Litlulaugaskóla heldur skyndilega upp starfi sínu. (Var í tveimur 50% stöðum en í raun 200% vinnu svo eitthvað varð undan að láta, skiljanlega.)
Var ákveðið að ráða ekki nýjan skólastjóra strax heldur láta aðstoðarskólastjórann taka við út skólaárið. Þarna sköpuðust óvæntar aðstæður til breytinga.

Núna mætti taka umræðu um hversu gott það er að taka stefnumótandi ákvarðanir af því að eitthvað gerist fremur en að stjórna atburðarásinni með stefnumótandi ákvörðunum en sú umræða verður að bíða betri tíma.

Ályktun Fræðslunefndar.

Þann 11. 10. 2011 fundar Fræðslunefnd og setur fram eftirfarandi ályktun:

Það er mat fræðslunefndar að erfitt sé að sjá afgerandi niðurstöðu út úr skýrslunni um skólamál í Þingeyjarsveit.
Fundarmenn sammála um að það verði að fara að taka ákvörðun um framtíðarskipan skólamála í Þingeyjarsveit.
 Fræðslunefnd leggur til við sveitarstjórn að hún láti bera sama kostnað við rekstur 3ja skóla eins og nú er annars vegar og hins vegar kostnað við rekstur tveggja skóla þ.e.   Stórutjararskóla, og  Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla sameinaða að Hafralæk annars vegar og hins vegar Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla sameinaða að Laugum.


Vinsamlegast veitið athygli að þeim tilmælum er beint til sveitarstjórnar að kostnaðarreikna: ,,rekstur tveggja skóla þ.e. Stórutjarnarskóla, og  Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla sameinaða að Hafralæk annars vegar og hins vegar Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla sameinaða að Laugum.”
Fagnefnd sveitarfélagsins í skólamálum, virðist finnast eðlilegast að skólarnir tveir, Litlulauga- og Hafralækjarskóli, verði sameinaðir á einum stað.

Skv. lögum er sveitarstjórnarfulltrúar einungis bundnir af lögum og eigin sannfæringu. Þó hefur sú umræða komið upp að rétt sé að fara eftir tilmælum fagnefnda því í þeim er valið fólk sem sveitarstjórn treystir fyrir tilteknum málefnum. Þetta er auðvitað sjónarmið. Sjálf hef ég valið að fara eftir eigin sannfæringu og get upplýst það hér að ég mun ekki samþykkja 50 milljóna króna framlag til breytinga á húsnæði Hafralækjarskóla þótt Fræðslunefnd hafi lagt það til. Mér þætti öðru sæta ef sú ákvörðun hefði verið tekin að sameina skólana í Hafralækjarskóla en það hefur ekki enn verið gert.
Mér þykir hins vegar rétt að ef fólk tekur þá ákvörðun að fara að tilmælum fagnefnda að eftir þeim sé þá alltaf farið en ekki bara eftir hentugleikum.

Meirihluti sveitarstjórnar ákvað á fundi sínum þann 20. október 2011 að fara ekki að tilmælum Fræðslunefndar heldur lagði fram eftirfarandi bókun:

Vegna liðar 4.  Sveitarstjórn ákveður að verða ekki við tilmælum um útreikning.        
Sveitarstjórn samþykkir að  Hafralækjarskóli og Litlulaugaskóli verði sameinaðir í eina stofnun með tveimur starfsstöðvum.  Þessi breyting taki gildi frá og með 1/8 2012.
Skipaður verður starfshópur til að undirbúa breytinguna.
Stórutjarnaskóli starfi áfram sem sérstök stofnun.

Þessi tillaga kom minnihlutanum algjörlega í opna skjöldu enda ekki getið í fundarboði að svo stór ákvörðun lægi fyrir fundinum. Aðeins var tilgreint að farið yrði yfir fundargerð Fræðslunefndar.
Að lestri loknum var málið rætt, m.a. kom fram að auglýst yrði eftir nýjum skólastjóra og ýmiss konar útfærslur á  tveimur starfsstöðvum enda engan veginn sjálfgefið hvernig slíkt yrði útfært. Ákvað minnihlutinn að samþykkja þessa bókun því að með því væri alla vega stigið skref í rétta átt.
Hér þykir mér rétt að taka fram að fundir sveitarstjórnar eru opnir og engin ákvörðun tekin um að trúnaður skyldi vera um þessa umræðu.

Starfshópurinn.

Þann 3. nóvember var starfshópurinn skipaður. Í honum áttu sæti 3 sveitarstjórnarfulltrúar, oddviti, formaður Fræðslunefndar og fulltrúi þaðan, virtur maður í sveitarfélaginu af lista meirihlutans og starfandi skólastjórar sitthvors skólans. Skólastjóri Hafralækjarskóla var í námsleyfi á þessum tíma.
Fyrsti fundur hópsins var haldinn rúmum mánuði síðar eða þann 6. desember 2011. Var ýmislegt rætt en lítið ákveðið annað en að biðja sveitarstjórn um erindisbréf.
Á sveitarstjórnarfundi þann 29. des. 2011 var lagt fram eftirfarandi erindisbréf sem hópurinn eða hluti hópsins hafði sett sér sjálfur:

Erindisbréf starfshóps um sameiningu Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla

Erindisbréf fyrir starfshóp sem sveitarstjórn skipaði 3. nóvember 2011, til að leggja til leiðir við sameiningu Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla í nýja stofnun með tveimur starfsstöðvum frá 1. ágúst 2012.
Markmið sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar með sameiningu skólanna í nýja stofnun með tveimur starfsstöðvum er að halda starfsemi á báðum stöðum en þróa jafnframt aukið samstarf starfsfólks, nemenda og foreldra. Sú þróun og það samstarf verði leitt af skólastjórnendum, starfsfólki, nemendum og foreldrum í samráði við fræðsluyfirvöld sveitarfélagsins. Gengið verði út frá því að óbreyttu að allar deildir skólanna verði reknar áfram þar sem þær eru í dag og hvor grunnskóladeild bjóði upp á kennslu 1. – 10. bekkjar á báðum starfsstöðvunum.
-        Starfshópurinn leggi til leiðir til að sameina þessar stofnanir og leggi til stjórnskipulag nýrrar stofnunar. Hópurinn skili tillögum til sveitarstjórnar.
-        Gætt verði að hagsmunum nemenda og starfsfólks.
-        Starfshópurinn getur leitað eftir utanaðkomandi sérfræðiaðstoð m.a. lögfræðiálita.
-        Starfshópurinn leggi til nafn á nýja stofnun.
- Starfshópurinn haldi fundargerðir sem lagðar eru fyrir sveitarstjórn og birtar á heimasíðu sveitarfélagsins til upplýsinga fyrir íbúa.
29. desember 2011

Líkaði mér bréfið illa enda var þar fastneglt hvernig sameiningunni yrði háttað. Fyrir utan það eitt að einn skólastjóri ætti að sitja yfir báðum skólum var engin önnur breyting í farvatninu. M.ö.o. það er engin sameining í raun.
Skilningur minn á samþykkt sveitarstjórnar frá 20. október um tvær starfsstöðvar og umræðunum í kringum þá ákvörðun var sá að nýr skólastjóri og starfsfólkið, fagfólkið í skólunum, mæti það hvor staðurinn hentaði betur og hefði lokaákvörðun um það á sínum höndum.
Hins vegar verður umræðan á þann veg að þau leggja annan skilning í þetta en ég. Að aðalmálið væri stjórnskipulag nýrrar stofnunar, t.d. hvort leggja ætti niður aðstoðarskólastjórastöðurnar (sjá síðar) og ítrekað að auglýst yrði eftir nýjum skólastjóra sem myndi þá taka við sameiningarferlinu og leiða það til lykta. Eftir að þáverandi sveitarstjóri lagði til orðalagsbreytingu þar sem bætt er inn orðunum að óbreyttu samþykkti ég bréfið. Skal því ekki neitað að ég tel það nú hafa verið mistök.

Á sveitarstjórnarfundi þann 2. feb. 2012. er farið yfir tvær nýjustu fundargerðir starfshópsins. Aðalefni fundanna eru réttindi starfsfólks. Ekki var haft samband við Samband íslenskra sveitarfélaga né verkalýðsfélög fyrr en í janúar og fullnægjandi svör höfðu ekki borist að öllu leyti að mati nefndarinnar.
Skv. svörum frá Sambandinu er hægt að fara tvær leiðir í sameiningu: annars vegar að leggja niður báðar stofnanirnar og búa til nýja en þá þarf að segja öllum upp og það hefur aldrei staðið til eða hins vegar að setja þær undir sama hatt svo ekki þurfi að segja neinum upp. Kemur upp úr dúrnum að nú er meirihlutinn að gæla við þá hugmynd að auglýsa ekki eftir nýjum skólastjóra heldur láta þann sem enn situr yfir báða skóla. Jafnvel þótt viðkomandi hafi lýst því opinberlega yfir að hann telji breytingar ekki til góðs.
Þegar grannt er skoðað þá blasir við að starfshópurinn var ekki að fjalla um skólamál á neinn hátt. Sú hlið var afgreidd í erindisbréfinu sem var afar nákvæmt um það hvernig skólahaldi í nýrri stofnun ætti að vera háttað. Starfshópurinn hafði þ.a.l. ekkert um það að segja.
Það sem starfshópurinn var að fjalla um er annars vegar hvernig sameina ætti skólanna tæknilega. Það hlýtur að vera pólitísk ákvörðun sem pólitískt kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins eiga að standa að og bera ábyrgð á.
Hins vegar var hópurinn að fjalla um starfsmannamál sveitarfélagsins.
Í hópnum sátu starfandi skólastjórar, ráðnir aðstoðarskólastjórar beggja skóla. Það er engan veginn við hæfi að einstaklingar, hversu hæfir sem þeir eru,  séu settir í þær aðstæður að bera ábyrgð á hlutum sem snerta þá, vini þeirra og samstarfsmenn mjög persónulega. Aðstoðarskólastjórarnir áttu m.a. skv. ofansögðu að taka ákvörðun um það hvort leggja bæri niður aðstoðarskólastjórastöðurnar. Það hlýtur hver maður að sjá að þetta gengur ekki upp.
Þetta væri allt annað mál ef þetta væri fagnefnd sem væri að fjalla um skólastarf sem slíkt og hvernig sameiningu þess væri best háttað en því var ekki að heilsa. Sveitarstjórn hreinlega varpaði pólitískri ábyrgð sinni á afar erfiðu og viðkvæmu máli, atvinnu fólks,  yfir á annað fólk.

Tillaga starfshópsins.

Að lokum kom sú eina tillaga frá Starfshópnum sem frá Starfshópnum gat komið:

Starfshópurinn leggur til að farin verði sú leið við að sameina Hafralækjarskóla og Litlulaugaskóla í eina stofnun að um samruna tveggja stofnana sé að ræða .  Sú stofnun fái nýtt nafn og nýja kennitölu.

Með samrunanum er horft til þess að hægt verði að þróa aukið samstarf nemenda, starfsfólks  og foreldra á þessum tveimur starfsstöðvum.  Við þá þróun verði hagsmunir nemenda  hafðir að leiðarljósi.  Með samrunanum  verði sköpuð aukin  tækifæri  til að bæta stöðu nemenda námslega og  félagslega.

Lagt er til að beitt verði ákvæðum laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum sem almennt vernda hag starfsfólks. Starfsfólk færist þá yfir til nýrrar stofnunar án uppsagnar enda er það heimilt skv. þeim upplýsingum sem starfshópur hefur aflað sér.  Sjá einnig meðfylgjandi greinargerð.

 [....]

Greinargerð með tillögu:  Starfshópurinn er einhuga um þessa tillögu í heild sinni, nema hvað varðar yfirfærslu starfsmanna í efstu  stjórnunarlögum yfir til nýrrar stofnunar.  Starfshópurinn vísar því til sveitarstjórnar að taka ákvörðun um hugsanlegar uppsagnir og ráðningar í efstu stjórnunarlögum  þar sem einstaklingar innan starfshópsins eru vanhæfir til þeirrar ákvarðanatöku.

Starfshópur beinir því  til sveitarstjórnar að hún tilgreini nánar hvaða ávinningur á að nást með samrunanum.

Starfshópurinn fer nákvæmlega eftir sínu erindisbréfi og tekur engar ákvarðanir um atvinnu fólks, nema þá einu sem hann gat tekið, reyna að halda öllum í vinnu. HIns vegar er síðasta málsgreinin athygliverð:
Starfshópur beinir því  til sveitarstjórnar að hún tilgreini nánar hvaða ávinningur á að nást með samrunanum.

Það hlýtur að teljast ljóst að starfshópurinn sjálfur skildi ekki hverju meirihluti sveitarstjórnar vildi ná fram. Enda er það nánast öllum óskiljanlegt nema vonandi meirihlutanum sjálfum.
Þegar meirihlutinn var búinn að koma sínu í gegn með meirihlutavaldi lagði minnihlutinn fram eftirfarandi bókun:

„Minnihlutinn harmar ákvörðun meirihluta um hvernig staðið er að sameiningu Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla, enda óljóst hvaða ávinningur eigi að nást með samrunanum þegar engar breytingar eiga sér stað þ.m.t. engar breytingar á efsta stjórnunarlagi skólans.“

Reynslan.

 Hvernig hefur svo gengið? Nákvæmlega eins lagt var upp með; illa.
Hagræðingin er engin og allir óánægðir. Starfsfólki skólanna (því þetta eru enn tveir skólar sama hvað hver segir) er full vorkunn því það á að breyta því sem má ekki breyta. Sameina það sem má ekki sameina. Auðvitað gengur það ekki.
Það eru þrír möguleikar í stöðunni:
Halda þessari þrautargöngu áfram og bíða eftir að eitthvað gerist sem kallar á eftir á stefnumótun.
Bakka og fara aftur í gamla farið.
Eða sú leið sem hugnast mér best: Bíta á jaxlinn og fara alla leið. Sameina skólanna í fullri alvöru annað hvort í húsnæði Litlilaugaskóla eða Hafralækjarskóla.

*Sjá aðsenda grein Bergljótar Hallgrímsdóttur á eldri vef 641.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...