Ég er 52 ára gömul
kona. Ég hef verið kona alla mína ævi. Ég hef upplifað, og upplifi enn, mikla
kvenfyrirlitningu. Já, það er enn mjög mikil kvenfyrirlitning í heiminum og á
Íslandi. Eftir að ég varð miðaldra kona þá er ég að upplifa nýjar víddir
fyrirlitningar, ósýnileika og þöggunar.[i]
Þegar fyrri metoo
bylgjan reið yfir þá voru margir svo hissa á framkomunni og áreitinu sem konur
höfðu orðið fyrir. Ég var ekkert hissa. Ég hafði lifað þetta.
Það er mjög
fróðlegt að greina orðræðu. Stúlkur niður í táningsár eru „ungar konur.“ Karlmenn
hátt á þrítugsaldri eru „drengir.“
Við hjónin erum með
sameiginlega facebook-síðu. Fyrst var hún mín en svo var ég allt í einu komin í
hina ýmsu bílaklúbba svo greinilegt að eiginmaðurinn var að skoða facebook
undir mínu nafni. Mér fannst því eðlilegt að hafa hana á báðum nöfnum. Eins
undarlega og það kann að hljóma þá varð ég vör við breyttar undirtektir og
viðbrögð þegar ég-ið sem tjáði sig gat mögulega verið karlkyns.[ii]
Stundum hef ég því
gert mér far um það á facebook að það sé ekki augljóst að það sé ég, konan, sem
er að skrifa.
Íslenskan er hins
vegar mjög kynjað tungumál. Það verður því yfirleitt fljótlega augljóst hvaða
kyn talar og við hvaða kyn er talað.
Komdu sæl/sæll/sælt.
Ég er búin að fá nóg af þessari karlrembu. En þú? Ert þú orðinn
þreyttur á þessu?
Það hlýtur líka að
vera erfitt fyrir fólk sem upplifir sig í öðru kyni en því sýnilega að alltaf
sé vísað til þess í röngu kyni.
Nógu erfitt er nú fyrir fólk sem hingað flytur
að læra íslenskuna þótt ekki bætist við öll þessi kynjuðu orð í öllum föllum og
fleirtölu.
Fyrir utan það hversu kynjuð íslenskan er þá
er hún mjög karllæg líka. Karlkynið er hið ómarkaða kyn. „Eru ekki allir í stuði!?“
Konur hafa ítrekað talað um að þeim finnist þær útilokaðar í þessari orðræðu en
þá kemur alltaf hið klassíska: „Konur eru líka menn.“
Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að konur sækja
síður um störf ef talað erum um væntanlegan umsækjanda í karlkyni. [iii]
[i] Nýverið átti ég í samskiptum við stofnun. Ég hafði haft netaðgang sem
maðurinn minn átti í raun að hafa. Starfsmaður stofnunarinnar ákvað þetta. Svo
er aðgangurinn tekinn af mér vegna nýrra reglna. Ég sendi bréf og segi að það
sé allt í lagi að ég hafi ekki aðganginn en maðurinn minn eigi að hafa hann. Ég fæ svar um „nýjar reglur og þetta sé svona o.s.frv. o.s.frv.“ Allt í lagi segi
ég, það breytir því ekki að maðurinn minn á rétt á þessum aðgangi og útskýri af
hverju. Ég fæ aftur svar: „Það þarf að fylla út alls konar skjöl og fara í
gegnum alls konar fimleika til að fá þetta í gegn.“ Ég sagði við manninn minn: „Ef
þú vilt þennan aðgang þá verður þú að sjá um þetta.“ Hann fór, talaði við
starfsmanninn og fékk aðganginn um leið. Allt sem ég hafði sagt í bréfunum var
nefnilega rétt. Starfsmaðurinn hafði bara ekki lesið þau almennilega.
Stuttu seinna er ég
að segja þessa sögu, sögu um að það sé ekki hlustað á konur, þegar einn
hlustandinn hoppar inn í miðja frásögn og segir: „Þú áttir ekkert að hafa
þennan aðgang hvort sem var“ og fer svo að tala um annað. Þöggunin algjör.
[ii] Ég hef líka tekið eftir því þegar við þurfum að senda tölvupóst í
formlegum erindum að það er betra að eiginmaðurinn sendi þann póst.
[iii] Caroline Criado Perez: Invisible
Women.