miðvikudagur, maí 11, 2016

Forseti elítunnar

Þá hefur forsetinn hætt við að hætta við að hætta. Það er gott en ég furða mig á því hvernig honum gat mögulega dottið það í hug upphaflega að hætta við hætta. 
Hann hélt því fram að það væru svo miklir "óvissutímar" að það vantaði "kjölfestu" og að hans mati hafði enginn framkominna forsetaframbjóðenda það til að bera. Að forsetinn leyfi sér að dæma fólk á þennan hátt er auðvitað kapítuli út af fyrir sig en látum það vera að sinni.
Þessi meinta óvissa sem forsetinn vísaði til var óánægja almennings með þær upplýsingar að þáverandi forsætisráðherra og tveir aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar ættu eða hefðu átt hluti í aflandsfélögum. Ríkt fólk sem telur að hið sama eigi ekki að gilda um það og umbjóðendur þess. Fólk sem tók þátt í því að mergsjúga landið á árunum fyrir hrun og á siðferðilega hlutdeild í hruninu. Efnahagshruni sem bitnaði á alþýðu þessa lands á meðan elítan geymdi "sína" fjármuni í skjóli frá sviptingunum innanlands og stórgræddi á öllu saman.
Forsetinn, sem meig utan í elítuna á árunum fyrir hrun og er kvæntur milljónamæringi,  ákvað að hann væri rétti maðurinn til að standa fyrir alþýðu Íslands. Forsetinn er allt annað en heimskur. Hann vissi það fullvel að fv. forsætisráðherra hrökklaðist frá vegna fjármála eiginkonu sinnar. Hann vissi það fullvel að hér varð talsverð umræða um lögheimili eiginkonu hans sumarið 2013. Hann vissi það fullvel að tengdafjölskylda hans væri moldrík og líkurnar á því að þau ættu eignir í skattaskjólum væru yfirgnæfandi. Að halda að ekki yrði hjólað í eignir, heimilisfesti og skattamál eiginkonu hans (sem er sennilega fyrrverandi eiginkona hans miðað við allt) er til marks um þvílíkan dómgreindarskort að það tekur engu tali. 
Þegar fjandmaður hans í gegnum tíðina býður sig fram þá læðist hann í burtu með skottið á milli lappanna. Hann heldur því að vísu fram að það séu komnir tveir frambærilegir frambjóðendur, önnur blaut tuska framan í hina, Davíð og Guðni. Þessi málflutningur heldur engu vatni því það vissu allir að Guðni myndi bjóða sig fram. Hann dregur sig í skjól vegna Davíðs. 
Hvernig má það vera að forsetinn er reiðubúinn að standa frammi fyrir þjóð sinni sem dómgreindarskertur aumingi? Maður sem er ekkert ef ekki pólitískur refur. Eitthvað hefur honum gengið til.
Jú, hann er guðfaðir Panamaríkisstjórnarinnar. Hann túlkaði stjórnskipunina eftir eigin höfði og veitti þáverandi forsætisráðherra ekki þingrofsheimild þótt hann hefði enga ástæðu til að ætla annað en að meirihluti væri á þingi fyrir þingrofi. 
Nýr forsætisráðherra lægði ekki óánægjuöldurnar í samfélaginu, Stigamannastjórnin stóð tæpt. Þá boðaði forsetinn til blaðamannafundar á Bessastöðum og algjörlega rændi umræðunni næstu þrjár vikurnar. Þegar Davið býður sig fram, maður sem er langt í frá óumdeildur, þá dregur hann sig í hlé því nú er kominn fram maður sem getur dregið til sín sviðsljósið og umræðuna. 
Ríkisstjórn Ólafs Ragnars Grímssonar hefur fest sig aftur í sessi. Elítuflokkarnir fá svigrúm til að ná aftur vopnum sínum og standa gegn kerfisbreytingum í spilltu og ógeðslegu samfélagi.
Takk, Ólafur Ragnar, takk kærlega.