Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi birtist viðtal við Dagbjörtu Jónsdóttur, sveitarstjóra Þingeyjarsveitar þess efnis að Þeistareykjavirkjun myndi mala gull fyrir Þingeyjarsveit í náinni framtíð. Reiknað væri með að hagnaðurinn næmi um 300 þúsund krónum á ári á hvert heimili í sveitarfélaginu. Leigutekjurnar eru þegar byrjaðar að streyma inn, "Sveitarfélagið fær einnig umtalsverðar tekjur af sölu á efni úr jarðvegsnámum og af leyfisgjöldum. "
Það er skemmtilegt að Kristján Már skyldi reikna gróðann út miðað við hvert heimili í Þingeyjarsveit. Það er eins og hann geri fastlega ráð fyrir að heimilin í Þingeyjarsveit fái að njóta gróðans. Það er verra að hann skyldi ekki spyrja sveitarstjórann í beinu framhaldi hvernig heimilin í Þingeyjarsveit myndu njóta gróðans.
Það vill nefnilega þannig til að fyrr um daginn, örfáum klukkustundum áður en hið ánægjulega viðtal birtist á Stöð 2, bönkuðu upp á hér á Hálsi tveir menn frá Tengi, það er nefnilega verið að ljósleiðaravæða Þingeyjarsveit, þessa sömu Þingeyjarsveit sem malar gull nú þegar á Þeistareykjavirkjun. Miðað við blaðið sem mennirnir skildu eftir þá er tengigjaldið í hvert hús 248 þúsund krónur. Þetta eru skemmtilega sambærilegar tölur, ekki satt?