Undanfarið hefur þjóðin fengið að fylgjast með
leit lögreglunnar að strokufanganum Matthíasi Mána Erlingssyni. Mikið hefur
verið gert úr flóttanum og á stundum jaðrað við hetjudýrkun. Já, hetjudýrkun.
Það ætti svo sem ekki að koma á óvart þar sem fjölmiðlar hafa nýverið byrjað á
þeim undarlega andskota að upphefja menn eins og Annþór nokkurn, Börk og Jón
stóra.
Því miður stjórnast umfjöllun fjölmiðla af
eftirspurn og svona ,,fréttir" fá flestar flettingar. Þá hafa fjölmiðlar
margir sett upp athugasemdakerfi sem hafa reynst hinar hroðalegustu rotþrær.
Þjóðarsálin er ekki fögur. En svona virkar þetta sem sagt. Sú frétt sem fær
flestar flettingar og lengsta umræðuhalann selur best.
Ég hef enga sérstaka skoðun á fangelsismálum
Íslendinga. Mér þætti gott ef e.k. betrunarvist ætti sér stað en ég átta mig
einnig á að iðulega er um hefnd samfélagsins að ræða. Mér þykir það í sjálfu
sér gott og gilt. Mér er það ekki til efs að fórnarlömbum líði betur vitandi af
árásarmönnum sínum á bak við lás og slá á meðan þau ná sér. Þá hef ég einnig
skilning á þeirri viðurkenningu samfélagsins að á viðkomandi hafi verið brotið
og þeim brotlega sé refsað. Hins vegar veit ég líka að stundum koma menn verri
úr fangelsi en þeir fóru inn.
Nú er ég orðin svo gömul sem á grönum má sjá og
fyrir mér er Matthías Máni ungur maður. Það breytir því ekki að 24 ára gamall
var faðir minn giftur maður, faðir og fyrirvinna og er svo um marga menn.
Jafnvel yngri. Mín hrörnun stjórnar ekki þroska annarra og Matthías Máni er
fullorðinn maður. Um það verður ekki deilt.
Það er engum vafa undirorpið í mínum huga að
þessi (ungi) maður eigi við sálræna erfiðleika að etja og geðlæknir eða
sálfræðingur myndi gera honum meira gagn en fangelsisvist. Þá er
einangrunarvist úrræði sem ég vona og treysti að sé ekki misnotað.
En Matthías Máni braut af sér og hann braut
alveg hrikalega af sér. Hann réðist á annan einstakling, barði hann með
kertastjaka og reyndi bæði að kæfa með kodda og síðan kyrkja. Hann ætlaði sér
að drepa fórnarlamb sitt. Og ætlar sér enn.
Þrátt fyrir þetta þá virðist vera ákveðin
samúð með Matthíasi. Það er vel. Það má vel ræða aðbúnað fanga og hvað má betur
fara. Það sem truflar mig hins vegar er hvernig alla vega hluta ábyrgðarinnar
hefur verið varpað á fórnarlambið. Í Nærmynd DV er fyrirsögnin:
Í þessari fyrirsögn liggur að fórnarlambið
hafi hrundið þessari atrburðarás af stað með því að ,,spila með" Matthías.
Þá er nafnorðið -drengur- iðulega notað um Matthías t.d. ráðvilltur drengur.
Það er gert til að ýta undir aldursmuninn á honum og fórnarlambi hans sem er 31
árs og fyrrverandi stjúpa. 7 ára aldursmunur er alla jafna ekki mikill
aldursmunur en í þessu tilfelli leikur grunur á ástarsambandi á milli
Matthíasar og fórnarlambs hans. (Mig minnir þó að fórnarlambið hafi alltaf
þvertekið fyrir það.)
Það virðist, einhverra hluta vegna, breyta
gríðarmiklu í huga fólks. Matthías, fullorðinn maðurinn, er skyndilega drengur
sem þessi fullorðna kona fór illa með. Af hverju það liggur svo beint við að sé
kona eldri í sambandi þá hljóti hún að vera að fara illa með sinn sér yngri
ástmann er mér fyrirmunað að skilja. En þar sem ungi maðurinn í þessu tilviki
trylltist og reyndi að drepa hana þá hlýtur hún auðvitað að hafa gert eitthvað
til að verðskulda það. Konur hafa jú einstakan hæfileika til þess að reita menn til reiði.
Mér er það fullkomlega ljóst að fáir hugsa
svona þótt aðeins hafi borið á því í athugasemdahölum og útvarpsþáttum enda er
það ekki þetta sem truflar mig hvað mest í þessari umræðu. Nei, það sem truflar
mig mest er að fyrir ári síðan var svipuð umræða uppi, annar
,,ástar"þríhyrningur sem hafði endað með ósköpum.
18 ára stúlka kærði þrítugan mann fyrir nauðgun.
Þarna er aldurmunurinn 12 ár. Stúlkan 6 árum yngri en Matthías Máni. (Hér er
miðað við viðburðatíma en ekki rauntíma). Ég man ekki til þess að ungur aldur
stúlkunnar hafi nokkurn tíma skipt máli í umræðunni né þá aldursmunur þeirra
tveggja. Ein ágætis grein var skrifuð en ekki meir. Ef aldur stúlkunnar var
nefndur að öðru leyti var ávallt einhver reiðubúinn að benda á að hún væri nú
orðin lögráða (og þar með lögríða nokkuð fyrr). Þar með var það mál útrætt.
Ef við skoðum orðapörin þá held ég að þau sé
svona: strákur - stelpa, piltur - stúlka, drengur - telpa. Var nokkurn tíma talað um að 18 ára telpa
hefði kært nauðgun?
Nei, það var aldrei gert. Hins vegar var það
nefnt nokkrum sinnum að hinn kærði væri nú svo góður drengur.