En það stendur skýrum stöfum í kristindóminum að yfirmenn og undirgefnir eigi að vera í hverju landi og undirmennirnir eigi að vera trúir yfirmönnunum. (HKL, 1932)
Í gamla daga var til stofnun sem hét Fiskveiðasjóður Íslands og hann var lengi vel staðsettur í Útvegsbankahúsinu við Lækjartorg. Pabbi minn var aðstoðarforstjóri Fiskveiðasjóðs. Hann sótti líka um forstjórastöðuna þótt hann vissi vel að hann myndi aldrei fá hana. Sjálfstæðisflokkurinn átti þá stöðu og föðurættboginn minn hefur lengi verið með alræmda vinstri slagsíðu.
Þetta hefur væntanlega verið á menntaskólaárunum, skólinn bara rétt hjá, að ég kom við hjá pabba. Á fyrstu hæð þar sem bankafgreiðsla Útvegsbankans var voru tveir menn vel drukknir og talsverð fyrirferð í þeim. Á þessum tíma var eitthvað um róna í Reykjavík og þessir höfðu svoleiðis yfirbragð. Ég man alltaf eftir þessum atburði vegna þess að annar þeirra, sá sem hafði sig meira í frammi, var með merki Sjálfstæðisflokksins í barminum og ég varð svo hissa. Ég skildi engan veginn hvernig maður sem, miðað við öll ummerki, var svokallaður undirmálsmaður, gæti mögulega stutt Sjálfstæðisflokkinn og unnið þar með þvert gegn öllum sínum hagsmunum.
Undanfarið hef ég fylgst með og tekið þátt í umræðum á samfélagsmiðlum. Gamlir bændur og fullorðnar verkakonur með sigggrónar hendur fara mikinn og verja Sigmund Davíð og hann "Ólaf sinn" og vona að guð gefi að hann sitji áfram.
Það var mikill dýrðardagur í mínu lífi þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti hvorki að skilja alla hluti né hafa á þeim skoðun. En ég verð að viðurkenna að þetta finnst mér óendanlega sorglegt og á bágt með að leiða hjá mér sem eitt af því sem ég þurfi ekki að skilja. Því mér finnst nauðsynlegt að skilja þetta.
Hvernig má það vera að fólk sem hefur unnið hörðum höndum alla sína ævi og hefur aldrei kynnst og mun aldrei kynnast fjárhæðunum og ofgnóttinni sem aflendingarnir velta sér upp úr geti barist fyrir svona menn á kaffistofunum og samfélagsmiðlunum? Og kýs þá! Kýs þá og heldur þeim að kjötkötlunum sem þeir moka úr sér og sínum til handa! Hvernig, ó, hvernig er þetta hægt?!
Af hverju getum við venjulega fólkið ekki staðið saman og hrundið af okkur þessum afætum sem arðræna okkur, börnin okkar og framtíðina? Okkur verður aldrei hleypt inn í klíkuna, við verðum aldrei ein af þeim. Það er nógu vont að þurfa að lifa við þessa misskiptingu og óréttlæti. En að horfa á gott og heiðarlegt fólk taka þátt í að viðhalda kerfinu er óbærilegt.
Ég vona að Bryndís Schram fyrirgefi mér þótt ég deili stöðufærslunni hennar frá í gær.
PS. Fyrirsögnin er líka tilvitnun í vin minn Laxness.
Hvernig má það vera að fólk sem hefur unnið hörðum höndum alla sína ævi og hefur aldrei kynnst og mun aldrei kynnast fjárhæðunum og ofgnóttinni sem aflendingarnir velta sér upp úr geti barist fyrir svona menn á kaffistofunum og samfélagsmiðlunum? Og kýs þá! Kýs þá og heldur þeim að kjötkötlunum sem þeir moka úr sér og sínum til handa! Hvernig, ó, hvernig er þetta hægt?!
Af hverju getum við venjulega fólkið ekki staðið saman og hrundið af okkur þessum afætum sem arðræna okkur, börnin okkar og framtíðina? Okkur verður aldrei hleypt inn í klíkuna, við verðum aldrei ein af þeim. Það er nógu vont að þurfa að lifa við þessa misskiptingu og óréttlæti. En að horfa á gott og heiðarlegt fólk taka þátt í að viðhalda kerfinu er óbærilegt.
Ég vona að Bryndís Schram fyrirgefi mér þótt ég deili stöðufærslunni hennar frá í gær.
PS. Fyrirsögnin er líka tilvitnun í vin minn Laxness.