Þingeyjarsveit á nú þegar þrjú vegleg félagsheimili og virðist vera bæta því fjórða við með breyttu fyrirkomulagi á Seiglu. Alla vega get ég ekki séð annað miðað við starfslýsingu forstöðumanns en það er auðvitað svo margt sem ég hvorki veit né skil.
Hins vegar gleður það mig mikið að byrjað er að sameina félagsheimilin undir eina yfirstjórn því væntanlegur forstöðumaður á einnig að reka Breiðumýri.
Mér þætti eðlilegt að öll yfirumsjón útleigu félagsheimila og annarra veislusala
sveitarfélagsins væri á einni hendi. Ástæða þess er sú að nú sjá húsverðir eða
skólastjórnendur um sitt húsnæði og viðkomandi hefur aðeins yfirsýn yfir sitt
hús. Það er leitt ef sveitarfélagið missir af nýtingu húsnæðis vegna þess að
eitt húsið er bókað og viðkomandi húsvörður/skólastjórnandi veit ekki að annað
húsnæði er laust.
Þá vill nú brenna við að fólk vill leigja „sitt“ hús á
„sínu“ svæði. Það getur verið erfitt fyrir húsvörð/skólastjóra að hafna slíkri beiðni
vegna tengsla og tilfinninga viðkomandi við „sitt“ hús og „sitt“ svæði. Gömlu
hrepparnir eru sameinaðir í einu sveitarfélagi og eiga þessi hús sameiginlega.
Þau eru öll á „okkar“ svæði. Sumir eru því miður afskaplega meðvirkir gömlum hrepparíg. Þá hafa skólastjórnendur sveitarfélagsins yfrið nóg á sinni könnu og óþarfi að þeir séu að sýsla með veislusali líka.
Sveitarstjórnin virðist þó helst vilja selja eða leigja eitthvað af félagsheimilum sínum.
Ég bý rétt hjá Ljósvetningabúð og það hryggir mig hve lítið húsið er notað. Ég hef upphugsað hin ýmsustu not fyrir húsið eins og t.d. svefnpokagistingu og tjaldstæði á sumrin og jafnvel eins og eina kántríhelgi. Mér þætti gaman ef flygillinn góði væri notaður meira og píanóleikurum boðið að spila. Hægt væri að halda alls konar tónleika frá kammermúsík upp í rokk. Af hverju geri ég þetta ekki mætti nú spyrja. Því er til að svara að ég treysti mér ekki til að spila með fjárhagsöryggi fjölskyldunnar. En ég er viss um að þetta er hægt.