föstudagur, maí 09, 2014

Takk elskan, en þú þarft ekki að mála heiminn fyrir mömmu.

Við mæðginin erum að hlusta á tónlist og reyna að halda við gömlum lögum. Eitt af lögunum sem eru á mörgum barnaplötum er Ég skal mála allan heiminn.
Við syngjum þessi lög flest alveg hugsunarlaust en um daginn fór ég að velta þessum texta fyrir mér.
Í fyrsta lagi þá er það ekki í verkahring barnanna minna að gera mig hamingjusama. Það er mitt vandamál.
En þessi texti fjallar um eitthvað hrikalegt trauma.
Mamman er fátæk:
Litlu blómin, sem þig langar til að kaupa,
skal ég lita hér á teikniblaðið mitt.
 Hún er sorgmædd og grætur:
Mamma ertu sorgmædd seg mér hvað er að 
sjálfsagt get ég málað gleði yfir það 
ótal fagra liti á ég fyrir þig
ekki gráta mamma - brostu fyrir mig

Og dagar hennar eru dimmir:
Ég skal mála allan heiminn elsku mamma,
eintómt sólskin, bjart og jafnt.
Þó að dimmi að með daga kalda og skamma,
dagar þínir verða ljósir allir samt. 

Mér finnst það nokkuð ljóst að vesalings konan er afar vansæl eða á hreinlega við þunglyndi að stríða. Og að vera syngja um það með einhverri gleði í barnalagi að blessað barnið upplifi sig ábyrgt fyrir hamingju móður sinnar sé kannski bara ekkert alveg í lagi!



fimmtudagur, maí 08, 2014

Játningar týnda ,,bóndans."

Á bóndabæjum er því iðulega þannig háttað að bæði hjónin ganga til verka. Þess vegna hafa stöðuheiti tekið ákveðnum breytingum. Það er ekki lengur talað um bónda og bóndakonu eða búkonu. Hjónin eru bæði bændur. Fullkomlega eðlileg breyting.
Núna vill þannig til að maðurinn minn er bóndi. Bróðir hans býr líka á bænum svo þeir eru tveir bændurnir á bænum.
Ég er kennari. Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og bjó þar fyrstu 35 ár ævinnar. Ég er enn þá að reyna að átta mig á þessu suður-norður dæmi í staðinn fyrir hið einfalda hægri-vinstri. En af því að ég er gift bónda og bý á bóndabæ þá er talað við mig eins og að ég sé bóndi. Öh, ókeeyy...
Ég get mjólkað og þekki fyrirbærið júgurbólgu en þar með er það eiginlega upptalið.
Ég hitti fólk og það hefur samræður eins og ekkert sé eðlilegra á spurningu eins og: ,,Hvernig koma tún undan vetri?" Mér skilst, ekki að ég hafi nokkra hugmynd um það, að þessar flatir sem vex gras á séu ekki allt tún. Sumt er víst hagar eða eitthvað svoleiðis. Svo ég reyni að skima út um gluggann og svara svo: ,,Hérna... bara vel.. held ég." (Hef enga hugmynd, þetta gæti allt verið kalið.)
Eða: ,,Ætlið þið að sá (hér kemur yfirleitt eitthvað fræ eða kornheiti) í ytri akurinn?" Hef enga hugmynd hvað ,,ytri" akurinn er. ,,Öh, hérna, jáá...Kannski." Um þetta leyti er ég farin að fá grunsamleg augnaráð eins og viðkomandi gruni að ég hafi enga hugmynd um um hvað ég er að tala. Það er rétt, ég hef enga hugmynd um það. Það er alveg jafn óþægilegt samt að fólk skuli gruna þetta því einhverra hluta vegna virðist ég eiga að vita þetta.
Ég skil það ekki. Ég er ekki bóndi. Ég er kennari. Ekki ætlast ég til að maðurinn minn viti allt um mína vinnu. Ég ræði stundum við hann um femíníska bókmenntagreiningu. Hann er ekkert sérstaklega uppveðraður. Hins vegar virðist svo vera sem það að vera bóndi sé ekki starf heldur lífstíll og ég sem eiginkona bóndans falli þar undir.Og ég er bara úti á túni. Eða akri. Eða haga...

þriðjudagur, maí 06, 2014

Hungurleikarnir



Hungurleikarnir eftir Suzanne Collins kom upphaflega út 2008 á ensku en kom út í íslenskri þýðingu 2011. Í kjölfarið komu út Eldar kvikna og Hermiskaði.
Þessar bækur eru hugsaðar fyrir „ung-fullorðna“ eða ungmenni.
Ef ég hefði ekki þurft að kenna þær þá hefði ég aldrei nokkurn tíma lesið þessar bækur, en ég þurfti svo ég las.
Sagan gerist í Panem sem eru e.k. Bandaríki eftir hörmungar. Landinu er skipt í 12 ríki og því fjarlægari sem ríkin eru höfuðborginni Kapítól því fátækari eru þau.
Fyrir rúmum 70 árum síðan höfðu umdæmin gert uppreisn gegn Kapítól og til að hefna þessa og bæla niður baráttuandann þurfti hvert umdæmi að senda síðan tvö framlög, dreng og stúlku, til að keppa á Hungurleikunum. En þar er barist upp á líf og dauða í beinni útsendingu og sigurvegarinn sá eða sú sem lifir af.
Fyrst í stað fannst mér þetta allt ósköp bjánalegt. Einhver tengsl við raunveruleikann verða skáldsögur að hafa og þetta fannst mér alveg absúrd.
Í Fantasíu eru til Útópíur þar sem allt er frábært og andstæðan er dystópía þar sem allt er heldur andstyggilegt. Dystópíur eru svo sem ekkert nýtt fyrirbæri í skáldskap, við þekkjum þær úr 1984 og Mad Max myndunum sem einhver dæmi séu tekin.
En sagan hafði ýmislegt með sér. Aðalsöguhetjan er t.d. stúlkan Katniss Everdeen og mjög gott að stúlkur fái önnur hlutverk í fantasíuheiminum en ,,damsel in distress“ (kona í nauðum). Auðvitað varð að blanda inn einhverju ástarviðfangi fyrir unga fólkið (mér persónulega finnst unglingar að nudda saman bólum afar ósjarmerandi). Það verður að segjast eins og er að Katniss kemur vel út á hvíta tjaldinu og leikkonan Jennifer Lawrence er ekki síðri fyrirmynd.

Collins hefur sagt frá því að hún hafi horft til Rómar hinnar fornu við skriftirnar, nafnið Panem vísar til þess. ,,Panem et circenses“ þýðir brauð og leikar sbr. gefið fólkinu brauð og leika og þá er það til friðs. Fólkið í Kapítól sækir stíft í lýtaaðgerðir til að verða fallegt og fegurðarstuðullinn orðinn ansi ýktur. Þar kallast sagan bæði á við Róm sem og nútímann.

Sukkveisla í Róm með augum Goscinny. Takið eftir farðanum.
Meg Ryan





Fljótlega fór ég að átta mig á að bókin hafði talsvert fleiri skírskotanir til samtímans.  Mér þótti það ansi langt gengið að fólk ætti virkilega að hafa gaman að því að horfa á börn slátra hverju öðru í beinni. En það er auðvitað alþekkt að nota ýkjur til að koma boðskapnum á framfæri.
Vinsælustu sjónvarpsþættir samtímans eru raunveruleikaþættir sem ganga helst út á það að gera lítið úr fólki og niðurlægja. Ekki er verra ef hægt er að láta það sýna sínar verstu hliðar. Mig minnir að Survivor hafi riðið á vaðið en það heiti þýðir beinlínis sá sem kemst af. Hins vegar er þátttakendum ekki slátrað heldur kosnir miselskulega í burtu með mismörg hnífasett í bakinu. Þá voru búnir til þættir kallaðir „Bum Fights“ þar sem virðingin fyrir manneskjunni og lífi hennar flæktist engin ósköp fyrir framleiðendum. Þá fór myndbandið af hengingu Saddam Hussein eins og eldur um sinu á netinu þannig að kannski er heimur Hungurleikanna ekki jafn órafjarri og virtist í fyrstu.


Kannski tek ég fyrir kommúnisma og misskiptingu auðsins í Panem seinna.

sunnudagur, maí 04, 2014

Eftirsjá

Þegar ég flutti á Háls þá bjuggu föðurbræður mannsins míns hér líka. Harðfullorðnir menn orðnir þá. Vitandi vits hvernig lífsins gangur er þá áttum við svo sem von á að þeir myndu kveðja einn daginn. En samt var ákveðið kæruleysi í gangi. Pabbi þeirra varð 96 ára þegar hann fór. Og kannski hin hefðbundna afneitun. Við vitum að dauðinn bíður okkar allra en samt... en samt...
Einn daginn fékk ég hugmynd: Mig langaði að taka mynd af þeim við húsið þeirra. Svart-hvíta og eitthvað breytta, í höfði mér var mjög flott mynd. Því miður er hún þar enn því ég kom mér aldrei að því að taka myndina.
Ég hugsa stundum um þessa mynd og sé eftir að hafa ekki tekið hana. Samt veit ég að þetta skiptir auðvitað engu máli. Þessi mynd var aldrei neitt nema eitthvað í höfðinu á mér. Og jafnvel þótt ég hefði tekið hana þá hefði það ekki breytt neinu. Ég hefði kannski póstað henni á snjáldurskinnunni og sennilega gleymt henni.

Tók eina af Helga úr fjarlægð þegar hann leit til veðurs.

Í framhaldi af þessum þankagangi hef ég verið að velta fyrir mér þessu fyrirbæri; eftirsjá. Og ég hef velt fyrir mér hvort þeir bræður, ógiftir og barnlausir hafi séð eftir einhverju í lífi sínu.
Náðum samt mynd af þremur
kynslóðum bræðra á Hálsi.
Nú held ég alls ekki að það sé forsenda hamingjunnar að eiga maka eða börn. Það er ákaflega góður bónus í góðu lífi en örugglega ekki nauðsynlegt. (Og miðað við hvað þetta voru myndarlegir menn þá hljóta þeir að hafa valið sér piparsveinalífið ;))
Ég gat aldrei fundið neina eftirsjá eða beiskju hjá þeim. Þeir höfðu áhuga á því sem var að gerast á bænum, lífsglaðir og sáttir. Samt höfðu þeir alið nánast allan sinn aldur á Hálsi og lifðu ósköp fábrotnu lífi.
Kannski er það feillinn hjá mér og okkur flestum; kannski felst hamingjan í því fábrotna. Kannski er hana að finna einhvers staðar í hjartarótunum á okkur sjálfum. Ekki í öðru fólki, hlutum eða flandri. Þegar upp er staðið þá skiptir þetta engu máli. Við erum bara ryk í vindinum.
Og sennilega er ég bara að fresta verkefnayfirferðinni :)













Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...