Þegar ég flutti úr Reykjavík í sveitina 2005 var ýmislegt sem ég ekki
þekkti. Í Reykjavík t.d. flytur fólk að heiman þegar það er orðið fullorðið.
Svo selja foreldrarnir húsið sitt/íbúðina og fólk er ekkert að spá í það meira.
Engir átthagafjötrar. Atvinna bænda byggist hins vegar á landi, þeir verða að
hafa land til að rækta hey ofan í skepnurnar og stórar byggingar utan um þær
svo þeir eru átthagafjötraðir að miklu leyti.
Þetta er auðvelt fyrir fyrstu fjölskylduna á staðnum en svo versnar í því
þegar börnin ættu að taka við. Á Íslandi er nefnilega jafn erfðaréttur. Það
þýðir að öll börnin fá jafnan arfshlut. Þetta er auðvitað ekkert mál ef engin/n
vill taka við búi en erfiðara þegar einn vill taka við búi og þarf að kaupa
alla hina út. Það er líka erfitt ef fleiri en einn vilja taka við því þá þarf
að deila hlutunum og búa saman í sátt og samlyndi. Ég tala um karlkyn því þótt
stelpurnar vildu taka við þá var það lengi vel ekki í boði. Sumir foreldrar
létu búið frekar fara í eyði eða neyddu óviljuga syni til að taka við en hleypa
dætrum sínum að.
Eftir því sem tíminn leið lærði ég betur á umhverfi mitt. Mér var t.d. sagt
frá „bóndanum og bróður hans.“ Sögumaður sagði frá á þá leið að á mörgum bæjum
væri því þannig háttað að þar byggju saman tveir bræður. Annar væri giftur með
börn og bærist á, væri bóndinn á
meðan hinn væri ógiftur og ynni öll verkin á bak við tjöldin. Hann var þá bróðirinn, vinnuþrællinn sem enginn
vissi um. Á þessum tímapunkti var ég 35 ára, örlaga piparjúnka og aumingjagóð
með afbrigðum og tók alveg út fyrir alla þessa aumingja bræður sem þræluðu í
sveita síns andlits án nokkurrar viðurkenningar.
Stuttu seinna átti ég annað samtal við konu sem var gift einum svona bónda. Henni var ekki skemmt. Greinilega
búin að heyra það aðeins of oft að mágur hennar héldi uppi búinu og maðurinn
hennar ynni mest lítið.
En fyrirbærið bóndinn og bróðir hans
er samt til. Einhverra hluta vegna þá verður sá bróðir sem giftir sig og
eignast fjölskyldu ósjálfrátt bóndinn
í hugum fólks. Það má alveg telja það ósanngjarnt en þannig er það nú
samt. Auðvitað verður sá einhleypi
frekar sorrí, svekktur og sár. Í fyrsta
lagi er líf hans ekki að ganga upp eins og hann vildi. Í öðru lagi þarf hann að
horfa upp á bróður sinn fá allt það sem hann sjálfur vill. Í þriðja lagi setur
samfélagið hann í annað sæti. Svo
kraumar ófullnægða kynhvötin undir öllu. Fólk getur orðið biturt af minna
tilefni.
Hér í sveitinni er bróðir sem
virti konu bróður síns ekki viðlits. Hún var bara alveg ómöguleg. Hjónin skildu
og bóndinn fékk sér aðra konu. Núna er sú kona ómöguleg og bróðirinn virðir
hana ekki viðlits.
Stundum gengur biturðin svo langt að hún er tekin út á börnum bóndans líka. Einn bróðirinn tók yfir
búskapinn. Þegar hann hætti vildu börn hins kaupa kúakvótann. Nei, frekar gaf
hann kvótann á næsta bæ en selja þeim hann.
Ég veit ekki hvernig það er í öðrum sveitarfélögum en hérna er þetta hugtak
vel þekkt og flestir þekkja einhverjar sögur. Nú er auðvelt að hlæja að
beiskum og bitrum karlfauskunum sem hafa spólað sjálfa sig fasta í pytti óhamingjunnar. En áður en þið gerið það þá skulum við muna eftir meðlimum
Incel hreyfingarinnar sem eru því miður stórhættulegir.
Við ættum sennilega að vera þakklát fyrir það að pipruðu bændadurgarnir eru
bara skrítnir og bitrir.