miðvikudagur, apríl 19, 2017

Skóladagar

Skv. grunnskólalögum nr. 91/2008  eiga nemendur rétt á 180 skóladögum að lágmarki. Því til viðbótar er kveðið á um að kennsludagar séu eigi færri en 170. (Af 180 skóladögum eiga 170 að vera kennsludagar.)
Nú má spyrja hvaða munur sé á kennsludögum og skóladögum. Menntamálaráðuneytið setur fram  álit í Nánari skilgreiningu á skóladögum í grunnskólum

Ráðuneytið áréttar að árlegur lágmarksfjöldi kennsludaga skuli vera 170 og að óheimilt er að telja sem kennsludaga aðra en þá daga sem nemandi starfar í skólanum eða í vettvangsferðum utan skóla að lágmarki í sambærilegan tíma og gert er ráð fyrir í stundaskrá.

Skv. þessu eru kennsludagar þeir dagar sem nemendur eru í skólanum og: "...að  kennsludagur sé skóladagur þar sem fram fer skipulagt starf nemenda undir leiðsögn kennara. "


Þetta þýðir að skertir dagar eins og skólasetningardagar, skólaslit eða foreldradagar eru ekki kennsludagar þótt þeir séu skóladagar. (Skertir dagar mega heldur ekki vera fleiri en 10.)

Ég veit ekki hreinlega hvort dagar þar sem nemendur eru ekki skólanum, eins og t.d. námskeiðsdagar starfsfólks,  geti talist sem skóladagur.* En hann er alveg örugglega ekki kennsludagur.

Ráðuneytinu er alveg sérstaklega í nöp við svokallaða tvöfalda skóladaga og sagði í álitinu dagsettu 16. apríl 2012 að ekki væri heimilt að tvítelja tiltekna skóladaga. Hins vegar kemur fram í Nánari skilgreiningum að:

Í kjölfar þess álits var athygli ráðuneytisins vakin á því að Kennarasamband Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga hefðu litið svo á að fara mætti með aðra skóladaga sem samið var um í kjarasamningum 2001 með öðrum hætti en lögbundna kennsludaga. Þessir aðilar líta áfram svo á að þrátt fyrir að með setningu grunnskólalaga 2008 hafi verið bætt við 10 skóladögum, hafi ekki verið ætlunin að hrófla við túlkun á því með hvaða hætti mætti skipuleggja þessa daga. Í fyrra áliti ráðuneytisins var ekki fjallað sérstaklega um að munur væri á kennsludögum og öðrum skóladögum. Í viðræðum við framangreinda aðila hefur nú komið fram sú ósk að ráðuneytið líti öðrum augum á þessa aðra skóladaga með því að staðfesta að heimilt sé að tvítelja tiltekna skóladaga eða dreifa skólastarfinu á nokkra daga, t.d. foreldraviðtölum, ef um slíkt er samkomulag í viðkomandi skólasamfélagi. Óskað var eftir að ráðuneytið heimili að langur skóladagur gæti þá flokkast sem einn kennsludagur og að auki sem annar skóladagur, þ.e. sem einn af öðrum skóladögum sem kveðið var fyrst á um í kjarasamningum og síðan lögbundnir 2008. Einnig að heimilt yrði að telja viðburð að afloknum kennsludegi með sama hætti, þ.e. einn kennsludag og einn annan skóladag.  

Þetta þýðir að tvöfaldur dagur er ekki tvöfaldur kennsludagur. Hann telst þó líklega sem tvöfaldur skóladagur.

Þessar reglur um skóladaga tiltaka lágmarksfjölda daga nemandans í skóla og námi. Þetta er að sjálfsögðu gert til að tryggja jafnrétti barna til náms. 
Hins vegar er ekkert sem bannar að hafa fleiri daga í skóladagatali sé vilji til þess í skólasamfélaginu. T.d gæti verið skynsamlegt á svæðum þar sem veður eru oft válynd að hafa tvo aukadaga í skóladagatali, þ.e. 172 kennsludaga svona upp á að hlaupa komi óveður eða eitthvað annað óvænt upp á. Gerist ekkert slíkt þá fá nemendur í versta falli meiri kennslu. Ég hef reyndar ekki skoðað hvernig slíkt snýr að kjarasamningum kennara.

Rétt er þó að hafa í huga að grunnskólalögin fjalla um rétt barna til náms, ekki um kvaðir hinna fullorðnu. Okkur ber hins vegar skylda til að tryggja þennan rétt og sinna honum.
Hvet ég foreldra til að skoða skóladagatöl barna sinna og hafi þessi tvö álit frá ráðuneytinu til hliðsjónar.
Einn og einn dagur skiptir ekki máli en safnast þegar saman kemur. Ef það vantar t.d. eina 5 kennsludaga á ári þá er það heil kennsluvika. Á 10 ára grunnskólagöngu barnsins verða þetta 10 vikur eða heilt misseri. Það hlýtur að muna talsvert um það.
* Þetta er komið á hreint. Námsskeiðsdagar starfsfólks þar sem nemendur eru ekki í skólanum teljast ekki sem skóladagar.