föstudagur, janúar 02, 2015

Kennslufræðilegar spekúlasjónir

Mig langar að bæta mig sem kennara. Það verður að viðurkennast að ég hef helst beitt útlistunaraðferðinni, stend uppi við tjaldið og renni í gegnum glærupakka. Svo legg ég fyrir verkefni til að neyða nemendur til að lesa. Draumurinn er að nemendur mæti undirbúnir í tímann og að umræður skapist. Sá draumur rætist sjaldan. Því miður finnst nemendum ekkert sérstaklega gaman að lesa, og það einskorðast ekki við minn skóla. Og hins vegar þá eru nemendur misáhugasamir um að tjá sig. Yfirleitt eru einn til tveir nemendur sem taka þátt í „umræðunum“. Það eru auðvitað ekki miklar umræður og aðrir nemendur geta upplifað kennslustundirnar þannig að kennarinn sýni sumum nemendum meiri áhuga en öðrum.

Þá bendir Ingvar Sigurgeirsson á í bók sinni Litróf kennsluaðferðanna að það sé hálf tilgangslaust að eyða tíma í að staggla í gegnum bókina í tímum þegar nemendur eiga að lesa heima.*
Það er tvennt sem kemur til að ég hef hangið á þessari aðferð: Þetta er hin hefðbundna kennsluaðferð og hún er ósköp þægileg. Hins vegar, og þetta skiptir ekki síður máli, þá vil ég endilega „vinna vinnuna mína.“ Þegar ég er inni í kennslustofunni þá á ég að kenna. Ég er tiltölulega sannfærð um að ég sé ekki ein um þessa tilfinningu. En mikið er ég hrædd um að þetta sé einhver sú versta kennsluaðferð sem til er. 


Mig langar mjög mikið að breyta kennsluháttum mínum en það er erfitt að mjaka sér upp úr hjólfarinu. Ég veit heldur ekki alveg hvernig ég á að fara að því. Ég er t.d. að skrifa þetta bara til að hjálpa sjálfri mér að hugsa. Svo eru góð ráð auðvitað alltaf vel þegin.
Við kennarar í FSH fórum í heimsókn í Fjölbrautarskóla Snæfellinga í haust.  FSN er opinn skóli, kennt að mestu í einum sal og allt opið á milli. Ég veit ekki alveg hvort allir kennararnir séu búnir að kasta námsbókunum en einhverjir eru búnir að því. Kennarinn sem ég talaði mest við notaði enga bók heldur notaðist við leitaraðferðir og svo settu nemendur upp heimasíðu.
Mig langar að herma eftir þessu að ákveðnu leyti. Ég treysti mér ekki til að kassera bókinni, verð að hafa öryggisnet.
Það sem ég er að hugsa er að setja upp heimasíðu (og það eru hæg heimatökin fyrir alla með google-aðgang) þar sem að nemendur myndu síðan vinna inn útdrætti, glósur og ítarefni úr bókinni. Ef ég tek sem dæmi ÍSL403 þá myndi ég byrja á að setja upp í kassa h-in 5; hver, hvað, hvers vegna, hvar og hvenær. T.d svona:

Hver
Hvað
Hvers vegna
Hvar
Hvenær
Marteinn Lúther
Mótmælti því að katólska kirkjan gæti selt aflátsbréf
Ekki hægt að kaupa sig frá syndinni.
Spilling innan kirkjunnar
Þýskalandi
1483 – 1546

Þá myndi ég setja fram einhver verkefni og t.d. Gerið grein fyrir Jóni Arasyni og/eða Sviðsetjið aftöku Jóns og sona hans miðað við frásögnina í Rótum úr Skarðsárannál.
Innlifunaraðferðir og tjáning held ég að séu góðar þótt ekki sé nema bara til að breyta til og hafa gaman. Þarf að fá einhvern til að kenna okkur hringdans.

Svo með tímanum myndi nemendur sjálfir fylla inn í kassann. Sjálf myndi ég samt alltaf fara almennt yfir kaflana og draga fram aðalatriðin.
Ég las núna í jólafríinu áðurnefnda bók Ingvars Litróf kennsluaðferðanna. Þar talar hann um tvenndarnám eða tvenndarvinnu sem mér lýst vel á. Þá myndu tveir og tveir vinna saman annar sem gerandi (doer) hinn sem athugandi (observer). Þá vinnur annar nemkandinn en hinn metur og svo snýst það við. Ég er farin að nota svona jafningjamat svolítið, mér finnst nemendur átta sig betur á eftir hverju við erum að leita og hvað er verið að æfa.
Þá myndi ég líka nota hópavinnu talsvert t.d. púslaðferðina en Ingvar vinur minn bendir á að: „Alkunna er að fáar aðferðir duga betur til að læra námsefni en að þurfa að kenna það öðrum.“ (Ingvar, bls. 146)
Þetta er það sem ég er að spá og eins og áður sagði þá þigg ég gjarna góð ráð og ábendingar.

*Það eru skiptar skoðanir um heimanám. Nú er hins vegar verið að taka upp svokallaðar feiningar eða F-einingar í framhaldsskólum og heimanám er beinlínis byggt inn í þann útreikning.

sunnudagur, desember 28, 2014

Jóla-karlremban

Jólin, skv. nútíma túlkun og skilningi, ganga út á að fagna fæðingu frelsarans. Þetta eitt og sér er auðvitað mjög karllægt, karlímyndin Guð gefur mannfólkinu sinn eingetna son því til bjargar. Hins vegar hef ég alltaf litið á Jesú sem fyrsta femíníska kommúnistann svo, og ekki segja vinstri sinnuðum vinum mínum það, ég er alveg sátt við þetta Jesúdæmi allt saman. Það hefði lítið þýtt að senda hina eingetnu dóttur á þessum tíma.

Jólunum fylgja aðrir karlar sem okkur þykja bæði skrítnir og skemmtilegir, nefnilega sjálfir jólasveinarnir. Sjálf hef ég lagt þeim lið undanfarið að læðast inn á heimilið og lauma gjöfum í skó barnanna. Einhverra hluta vegna finnst okkur fullkomlega eðlilegt að ala það upp í börnum okkar að skrítnir karlar séu ægilega skemmtilegir og hið besta mál að þeir séu að læðupokast inni á heimilunum á meðan aðrir sofa. 


Það eru ekki bara jólasveinarnir. Nýverið sátum við mæðginin og horfðum á Kalla á þakinu. Þar á lítill drengur vin sem er frekar ókurteis og óþroskaður karl sem enginn veit um. Það eru fleiri svona sögur og myndir um vinfengi skrítinna karla og, aðallega, lítilla drengja. Sbr. Up og Skreppur seiðkarl.

Á sama tíma vörum við börnin okkar við ókunnugu fólki, sérstaklega karlmönnum. Erum við ekki að senda þeim afar misvísandi skilaboð?
Minna fer almennt fyrir skrítnum og skemmtilegum kerlingum. Má þó nefna til Mary Poppins og Fíu fóstru en þeim er samt kyrfilega plantað í hefðbundið kvenhlutverk fóstrunnar.
Ef við höldum okkur við jólahátíðina þá er hún nánast algjörlega eign karla. Grýla fær aðeins að troða inn sínu ljóta nefi en skemmtileg er hún ekki.


Í gær fór fjölskyldan á jólaball. Sungin voru hefðbundin jólalög, sömu lögin og ég gekk í takt við í kringum jólatréin á sínum tíma og eru enn sungin á öllum jólaböllum út um allt land. Víðfrægt er nú erindið: „...hann fékk bók en hún fékk nál og tvinna.“ Var að mig minnir einhver umræða um það á sínum tíma. Ég man ekki alveg hvort það var spilað en satt best að segja þá eru mörg hinna lítið skárri. Í laginu Nú skal segja eru kynhlutverkin alveg skýr.
Litlar stelpur vagga brúðu, æfa sig fyrir móðurhlutverkið á meðan strákarnir sparka bolta. Þeirra leikur er mun frjálsari og býður upp á fleiri möguleika. Þeir eru alla vega ekki að æfa sig fyrir föðurhlutverkið. Það má skjóta því hér inn í að ef leikir drengja snerust meira um að æfa sig fyrir föðurhlutverkið þá yrðu þeir kannski betri feður og börn ekki jafn berskjölduð fyrir skrítna föðurímynd eins og Kalla á þakinu eða Fagan.

Gömlu konurnar í Nú skal segja prjóna sokka því alltaf eiga konur að gera gagn. Gömlu karlarnir hins vegar mega dunda sér við að taka í nefið og hnerra svo hressilega; vera skrítnir og skemmtilegir.
Því skal þó haldið til haga að í Adam átti syni sjö er pabbi til staðar sem elskar alla syni sína og þeir elska hann. Eigi þetta að vera hinn fyrsti Adam má líklegt telja að einhverjar dætur hafi verið til staðar en hvort hann hafi elskað þær og þær hann er alveg látið liggja á milli hluta.
Kynhlutverkin í Nú er Gunna á nýju skónum eru líka alveg kýrskýr. Mamma er föst í eldhúsinu „eitthvað að fást við mat“, (gætum við mögulega sýnt vinnu kvenna meiri lítilsvirðingu?) á meðan pabbinn er viðutan, skrítinn og skemmtilegur að leita að flibbahnappinum sínum.

Mér er alveg sama þótt þetta séu „hefðir“ og „óþarfi að sjá það ljóta í öllu.“ Þetta eru ömurleg skilaboð sem við erum að senda börnunum okkar og ég mælist til að þessir textar verði endurskoðaðir (og upphefst nú ritskoðunarsöngurinn).
Ef hefðin er vond þá má og á að breyta henni.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...