þriðjudagur, apríl 05, 2011

Sæt lítil samsæriskenning

Sennilega hef ég setið í Þýskum bókmenntum á sínum tíma (frekar en menntó) þegar upp kom umræða um Baader-Meinhoff hryðjuverkagengið. M.a. veltum við fyrir okkur hvað fólkinu hefði eiginlega gengið til. Kennarinn útskýrði það þannig að hugmyndafræðin gengi út á að til að ná fram sinni draumaskipan þá yrði að gera núverandi ástand svo óþolandi að fólki fyndist allt betra en það. Þetta þykir mér undarleg hugmyndafræði en sel ekki dýrar en ég keypti.
Umræðan um Icesave velti þessari minningu fram úr rykföllnum geymslum áranna. Mér er fyrirmunað að skilja að sama fólk sem vælir endalaust um það að ,,ríkisstjórnin geri ekki neitt" ætli sér nú að gera ríkisstjórninni eins erfitt fyrir að ,,gera eitthvað" og hægt er og helst að koma algjörlega í veg fyrir það. Við getum reynt að blekkja okkur fram í rauðan dauðann en það blasir við að með Nei-i erum við í besta falli að tryggja status quo næstu árin. Málaferli taka tíma og þó svo ólíklega vildi til að við ynnum þá verður lánshæfismatið okkar í ruslflokki á meðan svo það er alveg spurning hversu mikið við græðum. Lendum við í þeim ósköpum að tapa málinu gætum við verið dæmd til þess að greiða alla upphæðina. Eitt þúsund og tvö hundruð milljarða. Það verður gaman að greiða ,,skuldir óreiðumanna" margfalt hærri en við hefðum þurft að gera.
Nei, mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvað fólkinu gengur til. Það eina sem mér dettur í hug og finnst líklegt er að það sé verið að reyna að koma ríkisstjórninni frá. Það sjónarmið er í sjálfu sér alveg gott og gilt en þá myndi ég gjarna vilja að fólk kæmi heiðarlega fram og viðurkenndi það. Þá vil ég gjarna fá að vita líka hvaða valkost annan það sér í stöðunni. Vill fólk í alvöru fá gömlu hrunflokkanna aftur á valdastól? Flokkana sem komu okkur í þessa stöðu. Flokka sem hafa ekki gert neitt annað en hygla vinum og vandamönnum í gegnum árin. Heldur fólk í alvöru að þessir flokkar fari allt í einu að hugsa um hag alþýðunnar? Þeir hafa aldrei gert það! Til að kóróna allt saman þá samþykkti Sjálfstæðisflokkurinn Icesave samninginn á þingi því atvinnurekendur, eigendur framleiðslutækjanna, voru að komast í þrot vegna lokaðra lánalína. Í þessu tilviki fara saman hagsmunir atvinnurekanda og hinna vinnandi stétta. Þegar búið er að taka Samfylkingu, Vinstri-græna og Sjálfstæðisflokkinn út úr jöfnunni þá er enginn raunhæfur kostur eftir. Svo hvað er í gangi?
Hvurslags málflutningur er þetta sem er í gangi? Hvaðan kemur mötunin?
Tökum hugtakið ,,skuldir óreiðumanna." Hvaðan kemur það? Jú, frá Davíð Oddssyni. Manninum sem einkavæddi bankana. Manninum sem færði tilvonandi óreiðumönnum bankana á silfurfati. Manninum sem afnam allt eftirlit með fjámálastofnunum svo þiggjendur bankanna gætu orðið óreiðumenn. Manninum sem keyrði Seðlabanka Íslands í gjaldþrot og dýpri skuldir en Icesave skuldin verður ef við segjum já. Manninum sem er nú ritsjóri Morgunblaðsins og heldur úti stöðugum áróðri gegn ríkisstjórninni, samningnum og sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Helsti áróðurinn kemur frá honum og hans fylgismönnum (Útvarpi Sögu, ÍNN og meðlimum Frjálshyggjufélagsins). Hvað gengur manninum til?
Það kom berlega í ljós í frægu Kastjósviðtali, sem kostaði okkur hryðjuverkalög, og svo síðar í aðdraganda kosninga að Davíð Oddsson á sér draum. Hann er með De Gaulle heilkennið á alvarlegu stigi. Það varð hins vegar ljóst að framboð myndi ekki skila honum aftur á valdastól. Hefðbundin tæki lýðræðisins duga því ekki. Það eina sem getur skilað honum aftur á valdastól er bylting. Hvernig kemur maður á byltingu? Jú, maður gerir ástandið óbærilegt.