Það kannast flest við söguna af Narkissos í grískri goðafræði. Narkissos var fallegur ungur maður sem varð ástfanginn af eigin spegilmynd, veslaðist upp og dó. Það er sök sér að sjálfselskufullt fífl drepist úr heimsku en sagan er aðeins flóknari en þetta.
Frægasta útgáfa
sögunnar kemur frá Ovid.
Liriope vatnagyðja á ungan son, Narkissos, sem
er gullfallegur. Hún fær blindan sjáanda til að spá fyrir honum. Sjáandinn
segir að Narkissos verði gamall maður ef hann sér aldrei spegilmynd sína. Narkissos
eignast marga aðdáendur, bæði unga menn og konur, en hann endurgeldur aldrei
aðdáunina og hrekur þetta fólk frá sér.
Einu sinni er Narkissos að veiða úti í skógi þegar gyðjan Ekkó sér hann og verður ástfangin af honum. Ekkó (bergmál) getur aðeins endurtekið síðasta orðið sem er sagt við hana svo hún getur ekki talað við Narkissos. Hann heyrir að verið er að elta hann og kallar og Ekkó bergmálar bara síðasta orðið sem hann segir. Hún kemur til hans og faðmar hann en hann hrindir henni frá sér. Ekkó veslast upp úr sorg og deyr og aðeins bergmálið lifir.
Það er ekki alveg skýrt hvernig hefndargyðjuna
Nemesis kemur til sögunnar, hvort hún heyri af örlögum Ekkó eða einhver annar
aðdáandi óski þess að Narkissos upplifi það að fá ekki þann/þá sem hann elskar.
Nemesis kemur því alla vega þannig fyrir að Narkissos fær sér vatn að drekka úr
á og sér sína eigin spegilmynd og verður ástfanginn. Hvort hann átti sig ekki á
að þetta sé hann er ekki skýrt en hann alla vega veslast upp og deyr.
Í sumum útgáfum fremur hann sjálfsmorð en það breytir svo sem litlu.
Í annarri útgáfu er það ungur maður, Ameinias,
sem er hafnað af Narkissosi. Narkissos gefur honum sverð. Ameinias biður
Nemesis um að Narkissos upplifi óendurgoldna ást og fremur síðan sjálfsmorð á
dyraþrepunum hjá Narkissosi.
Það er mikilvægt að halda því til haga að
fólkið sem elskar Narkissos þjáist vegna ástar sinnar á honum. Það má segja að
Narkissos hafi fengið makleg málagjöld í goðsögunni en auðvitað dó hann úr
hreinni sjálfselsku.