laugardagur, desember 26, 2015

Skólamálaumræða 2. tbl.

Tók saman skólamálaumræðuna þaðan sem frá var horfið síðast enda margt búið að gerast.

fimmtudagur, desember 24, 2015

Plötuskápur foreldra minna

Ég hef alltaf haft gaman að tónlist. Ég veit ekki hvernig það kemur til en ég man þegar foreldrar mínir keyptu sér "græjur." Það var svona sambyggður kassi, sem er víst mjög retró og flott í dag, og ég var alveg heilluð af græjunni. Svo fóru að berast plötur inn á heimilið.
Ég lenti í einelti sem barn og var því einmana og asnalegur krakki. Mínar bestu stundir átti ég við þessar græjur, hlustandi á plötur foreldra minna, taka þær upp, uppgötva kanann.
Foreldrar mínir áttu hvorki mikið né veglegt plötusafn. Einu sinni var kom fljótlega inn á heimilið og hafði ég óskaplega gaman að henni. Spilaði hana í ræmur eins og sagt er.
Pabbi virðist ekki hafa verið mjög mikill áhugamaður um tónlist því hann keypti aðallega e.k. safnplötur.
Best fannst mér Juggernauts of the early 70's því á henni voru rokklög, m.a. "Mama told me not to come."
Hann keypti alla vega fjórar Top of the Pops plötur sem voru með hálfberum stelpum framan á. Engum þótti það neitt athugavert á sínum, en þetta æpir á konu núna í dag. Ég hlustaði á þessar plötur man ég. En svo kom sá tímapunktur að mér fannst "Crazy little thing called love" eitthvað skrítið. Þá uppgötvaði ég að þetta voru bara cover af lögunum. Þvílíkt prump.
Stóra systir mín átti þrjár Abba plötur sem mér fannst auðvitað mjög skemmtilegar The Album, Arrival og Greatest Hits með fræga coverinu. Þá átti hún líka plötuna með Bugsy Malone. Eins og gefur að skilja var hún ekki mjög hrifin af því að litla systir væri að spila plöturnar hennar.
Fljótlega kom upp úr dúrnum að pabbi hafði gaman að jazzi og átti hann safnplötur með Benny Goodman og Glenn Miller. Þá átti hann plötu með The Platters (ekki viss um að það hafi verið orginal bandið samt) þar sem "Only You" var í greinilegu uppáhaldi hjá honum.
 Presley kom líka sterkur inn en til voru einar þrjár plötur með honum.Tvær safnplötur og ein stúdíóplata.Gamla rokkið var svolítið "in" því það var líka til ein plata með Bill Haley and The Comets.
Eitthvað kom inn meira af íslenskum plötum, t.d. voru alla vega tvær með Halla og Ladda. Önnur endar á Taktu nálina af mér. Einu sinni kom lítil stúlka í heimsókn og platan var spiluð fyrir hana. Henni fannst þetta síðasta lag mjög skrítið og ég man að pabba fannst það mjög skemmtileg uppákoma. Ég man ekki betur en þau hafi bæði haft gaman að.
Plata með Hljómsveit Ingimars Eydals var líka til. Á henni er "Lagið um litlu hjónin" sem mér fannst óskaplega skemmtilegt.
Daglegt háð með Jörundi og Götuskó með Spilverki þjóðanna. Þá keypti pabbi plötu af Hjálmtý Hjálmtýssyni því þeir unnu í sömu byggingu á sínum tíma. Annars höfðu foreldrar mínir ekki mjög gaman að klassískri tónlíst á vínyl-tímabilinu. Það breyttist seinna og man ég eftir þó nokkrum geisladiskum með t.d. Pavarotti.
Soundtrack úr The Great Gatsby var líka til, umslagið var bleikt með mynd af Miu Farrow. (Finn ekki þá útgáfu.) Á þeirri plötu er lagið "What'll I Do?" eftir Irving Berlin sem mér þótti skemmtilegt. Leitaði að því fyrir ekki löngu en gat ekki fundið.
Mér þykir skelfilegt að viðurkenna það núna en ég hafði óskaplega gaman að Goombay Dance Band plötunum tveimur sem komu inn á heimilið.
Þá voru til þrjár jólaplötur. Þessi með teiknaða snjókarlinum framan á sem er að spila á rafmagnsgítar fannst mér skemmtilegust. Finn hana ekki á netinu sem mér finnst skrítið þar sem hún var örugglega mjög vinsæl.
Pabbi keypti líka Hjálpum þeim sem ég var fljót að nappa.
Þá man ég að mamma keypti plötur af Gylfa Ægis af því hann hringdi sérstaklega til að selja þær. Ég held þær hafi aldrei verið teknar upp.
Þetta er það sem ég man af safninu í fljótu bragði.

Þar sem tónlistarsmekkur minn var ekki alveg á pari við foreldrana keypti ég mér plötuspilara þegar ég var tólf ára að mig minnir. Fyrsta platan sem ég keypti var In Transit með Saga og plata tvö var Í mynd með Egó.Mig minnir að Sögur af landi með Bubba hafi verið síðasta vínylplatan sem ég keypti.

Sei, sei já.






Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...