föstudagur, október 02, 2015

Leikur að tölum

Í gærkvöldi benti fréttamiðillinn 641.is á ansi látlausa og lítt uppgefandi klásúlu í fundargerð sveitarstjórnar frá 1. okt. sl. Þar reynist leynast upphæð starfslokasamninga sem gerðir voru við þrjá kennara og tvo skólastjórnendur Þingeyjaskóla í vor. Samanlögð er upphæðin 30,5 milljónir. Núna væri auðvelt að deila þessari upphæð í 5 hluta en við vitum að henni er ekki skipt jafnt á milli. Ég fór þá leið að leggja saman mánuðina sem eru skv. mínum útreikningum 56  (6+8+12+12+18). Mér skilst að einn einstaklingur hafi verið í 70% starfi svo miðað við það er verið að borga 53.7 heila mánuði. (8x0,7=5,6) Ef við deilum svo 30,5 milljónum í 53,7 fáum við meðaltalið (rétt tæplega) 568 þús. per einstaklingur á mánuði brúttó. Þessu er að sjálfsögðu ekki skipt svona en ef við gefum okkur að kennararnir séu með 420 þús á mánuði til að vanætla ekki þá eru skólastjórnendurnir tveir með um 600 þús. á mánuði. Þetta eru svo sem engar óskaplegar tölur og eðlilegt að fólk fái bætur fyrir atvinnumissi. Það sem er hins vegar ekki í lagi er klásúlan sem skv. heimildum 641.is er í samningunum á þá leið að fólk haldi starfslokagreiðslunum þrátt fyrir að það fái aðra vinnu. Og annar skólastjórnandinn sat ekki atvinnulaus eitt einasta sekúndubrot heldur gekk beint inn í sérhannaða stöðu í þessum nákvæmlega sama skóla. Fullkomlega eðlilegt að sumir fái tvöföld laun á kostnað okkar útsvarsgreiðenda. Fullkomlega.


Til að bæta gráu ofan á svart þá gengur sú saga að nýja kerfið í Þingeyjarskóla gangi nú ekki betur en svo að búið sé að stækka stöður flestra kennara. Fylgir sögunni stöðuhlutföll upp á vel rúmlega 100%. Við skulum hafa það á tæru að öll vinna kennara yfir 100% er yfirvinna. Sé þessi saga sönn þá erum við útsvarsgreiðendur í Þingeyjarsveit að borga starfslokasamninga hjá kennurum sem voru „óþarfir“ í eins-húss-Þingeyjarskóla og yfirvinnulaun hjá hinum af því vinnan er svo mikil! Næs...
Það er nú gott að það voru sparaðar spjaldtölvur við nemendur unglingadeildar Stórutjarnaskóla. Það hlýtur að vega upp á móti þessum útgjöldum öllum. Þessum mjög svo einstefnusinnuðu útgjöldum öllum.



En það er ekki bara verið að moka peningum í núverandi, fyrrverandi og fyrrverandi-næstum-því- fyrrverandi-áframverandi  starfsfólk Þingeyjarskóla, nei, það er verið að moka peningum í húsnæðið sjálft líka. Veitir svo sem ekkert af, það vita allir. Hins vegar læddi ólyginn því að að það væri ekkert verið að hengja sig mikið á fjárhagsáætlunina sem er auðvitað öllu verra ef rétt reynist.
En við skulum ekki blekkja okkur, við vitum alveg hvert er næsta skref. Sameining Þingeyjarskóla og Stórutjarnaskóla er næst á dagskrá. Eins og staðan er í dag þá hentar Stórutjarnaskóli miklu betur undir sameinaðan skóla. En þessi sameining verður ekki nefnd fyrr en líður að næstu sveitarstjórnarkosningum eftir tæp þrjú ár. Það er hægt að laga húsnæði Þingeyjarskóla heilmikið á þremur árum. 



Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...