laugardagur, maí 19, 2012

Flugslys í beinni

Þarf ég að segja meira?
Þessi fréttamennska í gær er fyrir neðan allar hellur. Sem betur fer fór allt vel og allar líkur voru á að allt færi vel. En það er ekkert fréttnæmt við það. Eftir hverju var verið að bíða? Ég veit það eitt að mig langaði ekki að horfa á það í beinni.

fimmtudagur, maí 17, 2012

Dropi í bakkafullan lækinn


Nú virðist baráttan um forsetaembættið vera að fara af stað og hefur sitjandi forseti slegið tóninn í þeirri baráttu.
Það sem mér finnst merkilegast, og reyndar sorglegast, er að nú virðist flokksskírteini frambjóðandans skipta mestu máli. Og auðvitað það hvort hann hafi einhvern tíma haft flokksskírteini.
Ég man ekki eftir þessari umræðu um Vigdísi þótt einhvern tíma hafi ég heyrt því fleygt að líklega væri hún vinstrisinnuð.
Auðvitað er það hreinn barnaskapur að halda að fullorðið fólk hafi ekki pólitískar skoðanir. Allir hafa jú, kosið um ævina og myndað sér einhvers konar skoðun.
En nú á sem sagt að draga flokkspólitískar línur um frambjóðendur. Virðist það aðallega vera Þóru Arnórsdóttur til hnjóðs að tengjast Samfylkingunni. Það virðist alveg gleymt að Ólafur Ragnar var formaður Alþýðubandalagsins á sínum yngri árum og þ.a.l. vinstrimaður
Hins vegar get ég ekki séð að flokkslínur skipti neinu máli. Engin ríkisstjórn hefur þurft að dragnast með annan eins hælbít sem þessi vinstrisinnaði forseti hefur verið þessari vinstrisinnuðu ríkisstjórn.
Það væri miklum mun einfaldara að kjósa forseta eftir flokkspólitískum línum, því þá vissi maður nokkurn veginn hvað maður væri að kjósa. En því er nú ekki að heilsa.
Ég hef alltaf verið hlynnt málskotsrétti forsetans en nú er ég farin að vera beggja blands.
Fyrst neitar hann að skrifa undir Fjölmiðlalögin sem beindust að eignahaldi fjölmiðla sem og krosseignatengslum. Þar fór hann, vinstrimaðurinn, á móti hægristjórn. Ég fagnaði þessu. Fjórum árum seinna hrundi allt efnahagskerfi landsins. Var mikið talað um að fjölmiðlar hefðu ekki staðið sig í stykkinu og að vantað hefði lög um krosseignatengsl. Æ, æ.
Þá hefur undanfarið verið mikil ánægja með það að forsetinn hafi ,,bjargað” okkur frá Icesave. Ég skal alveg viðurkenna það að fyrri neitunin skilaði okkur mun hagstæðari samningi. Það er ekki útséð um seinni neitunina og hvernig málaferlum fyrir EFTA dómstólnum lýkur. Þá virðast allir gleyma að forsetinn staðfesti fyrsta samninginn sem var langverstur.
Nú er talað um að forsetinn eigi að bjarga okkur frá ESB aðildinni. Eins og það sé algjörlega á hans könnu hvort um hana sé kosið eða ekki. Það er rangt. Um hana verður kosið hver sem situr á forsetastóli. Hins vegar má alveg halda því til haga að sitjandi forseti hefði getað neitað að staðfesta umsóknina og vísað í þjóðatkvæði en gerði ekki.
Forsetinn hefur beitt valdi sínu á þann veg að það er ekki nokkur leið að átta sig á hvað manninum gengur til. Og það er auðvitað stóri vandinn. Það á ekki að vera á könnu viðkomandi einstaklings hverju sinni hvernig hann beitir valdi sínu.
Það hlýtur að vera á könnu þjóðarinnar og/eða Alþingis að skilgreina þetta vald.
Þá verðum við að hugsa til framtíðar. Margir virðast líta svo á að sitjandi forseti sé eitthvað aðhald á sitjandi ríkisstjórn og Alþingi. Við kjósum forseta í sumar, það er hægt að skipta um forseta. Það verða alþingiskosningar eftir eitt ár. Þá kemur nýtt þing og ný ríkisstjórn. Það verða ekki alltaf sömu leikendur í þessum hlutverkum. En útvíkkun valdsins situr eftir.
Hins vegar er það mín skoðun að forsetaembættið eigi að vera hafið yfir hið pólitíska argaþras hversu barnalega sem það kann nú að hljóma.  Ég vil gjarna fá forseta eins og Kristján Eldjárn eða Vigdísi Finnbogadóttur. Við þurfum ekki fleiri pólitíska leiðtoga, sérstaklega ekki leiðtoga, hver sem hann er hverju sinni, sem skilgreinir vald sitt sjálfur, fer eftir einhverri persónupólitík sem enginn veit hver er nema kannski hann sjálfur og gerir nánast það sem honum sýnist.
Þá má leggja þetta embætti niður.