laugardagur, nóvember 30, 2002

Datt í jólaástandið í dag. Fór með litlu systur (Hún fékk það líka út að hún væri Donald Rumsfeld. En þið eruð líka skyld.) í Elko að fjárfesta í símum. Það var allt stappað af fólki að eyða peningum. Er það ekki hin eina sanna jólastemmning, að spandera peningum í eitthvað sem maður þarf ekki að nota?
Fórum eftir það í opið hús hjá Hússtjórnarskólanum. Vinkona litlu systur stundar nám þar. Þetta er alveg rosalega flott hús og ástunduð gamaldagshandiðn. Fyrir mig sen feminista er ég að reyna að fóðra þetta sem handverksskóla, á svo erfitt með að kyngja hinu. Svo fengum við kakó með rjóma, kleinur og skúffukökur. Ég datt alveg inn í gamla jólafílinginn hjá afa og ömmu á Hringbrautinni. Þetta var mjög gaman þótt mér skiljist að skólastjórinn eða forstöðukonan hafi aldrei ropað eða rekið við fyrir framan eiginmann sinn til 40 ára. Ég fann hana ekki svo ég gat ekki rætt þetta nánar.
Það er bara ein vika eftir af kennslu og ég er gjörsamlega að örmagnast. Það láðist alveg að segja okkur það í kennslufræðinni að þegar liði á misserið þá yrði maður alveg eins og undin tuska og eyddi öllum helgum farlama í rúminu.

föstudagur, nóvember 29, 2002

Það skiptast á skin og skúrir í þessu blessaða lífi. Þar sem þetta er fyrsta árið mitt í kennslu þá er ég alltaf bara nokkrum skrefum á undan krökkunum í efninu. Svo í gær var ég gripin því þótt ég þekki fornöfnin þá var ég ekki alveg með þetta allt saman á tæru enda ekki að kenna það heldur allt annað. Slapp nú með skrekkinn og sagði þeim að þau mættu ekki fara illa með mig þetta væri jú bara fyrsta árið mitt. Þá spurði ein stelpan: ,,En fyrst þetta er fyrsta árið þitt af hverju veistu þá svona mikið?" Ég lét ekki á neinu bera og vitnaði í Guðna rektor og sagðist vera gamall og vitur labbi sem væri búinn að vera lengi á jörðinni. En svo þurfti ég að halda mér fast í kennaratöfluna svo ég flygi ekki á eyrunum út um alla stofu. Svo var ég lamin í dag. Damn...
Nenni ekki að sinna endurminningunum í bili. Þurfti bara aðeins að viðra út, það er svo þreytandi að vera með draugagang í sálinni.

miðvikudagur, nóvember 27, 2002

Spítalalíf 3. kapítuli.
Eins og áður hefur komið fram þá eru Landspítali og Kleppsspítali tveir ólíkir menningarheimar. Á Kleppi var deild sem var vel rekin og fúnkeraði mjög vel. Á Landspítala var deild sem var bara í hreinu og kláru hakkabuffi. (Það eru auðvitað fleiri deildir á báðum spítulum en ég er bara að tala um þær tvær sem mér viðkoma.) Meðal annars gekk deildin á Kleppi vel því þar var læknapar sem starfaði mjög vel saman og hafði gott samstarf við hjúkrunarsviðið. Það er sem sagt læknasvið og hjúkrunarsvið sem koma að deildunum, en deildir heyra undir hjúkrun. Þ.a.l. eru það hjúkkurnar og deildastjórinn sem er hjúkrunarfræðingur sem eru yfirmenn starfsmanna. Ekki læknar þótt sumir hrokagikkirnir haldi annað.
Það hlýtur því að teljast alveg einstök stjórnkænska að í 1. Leggja niður deildina á Kleppi. 2. Blanda henni saman við hakkabuffið á Landsanum. 3. Stía í sundur læknaparinu og í 4. eftirláta læknunum í rústunum deildina af því að þeir ,,áttu gólfið." Sérdeilis útspekúlerað.
Og eins og við mátti búast átti sér stað valdabarátta á milli menningarheima, þ.e. hjúkrunarsviðs af Kleppi og læknasviðs Landsans. Sú barátta leystist reyndar eftir nokkra mánuði en ég er ennþá með skófarið í andlitinu eftir að hafa lent á milli. Svo hafði meirihluti læknanna vit á því að drulla sér fljótlega í burtu. Af hverju þeir gátu ekki allir andskotast til þess strax er mér hins vegar spurn.
Og svo fór það að gerast sem var svarið og sárt við lagt að myndi ekki gerast. Skítamóralinn í húsinu fór að síast út úr veggjunum. Allt í einu skipti meira máli að hafa reglu á starfsmönnunum en sjúklingunum. Deildarreglur voru síbrotnar af vakthafandi hjúkrunarfræðingi, símatímar lengdir upp úr öllu valdi, reykingatímar hvenær sem var svo og svo giltu mismunandi reglur á vöktum allt eftir smekk og skapi vakthafandi hjúkrunarfræðings dæmi sé tekið. En almáttugur, starfsmennirnir voru í tölvunni! Þeir voru með gsm síma! Þeir lásu á yfirsetunum! Það varð náttúrulega að setja höft á þetta fólk.
Það skipti engu máli að það var einn tiltekinn starfsmaður sem sat límdur við tölvuna. Nei, nei. Aðgangurinn var tekinn af öllum. Og það skipti heldur engu máli þótt það væri einn tiltekinn starfsmaður sem væri alltaf í símanum og með gsm símann á sér. Allir voru skammaðir. Svo var algjörlega litið framhjá Litla Prinsinum sem gerði varla handtak og svaf jafnvel á vöktunum. Lá endalaust í símanum og skoðaði klámsíður á netinu. Nei, það var ekki hægt að skamma hann. Hann var svooo sætur. Það var bara látið bitna á öllum öðrum í staðinn. Feministadeildin, what a laugh.
Setti hnefann í borðið í dag og stöðvaði vídeóvítahringinn ógurlega.

Fór á Skrekk í gær. Fellaskóli stóð sig frábærlega en komst ekki áfram. Það eru bara svik og svínerí. Dómnefndin mútuþæg eða eitthvað þaðan af verra. Ég er að verða væminn og hallærislegur kennari, ég er svo stolt af börnunum að ég er að rifna.

þriðjudagur, nóvember 26, 2002

Ég er komin í skelfilegan vídeó-vítahring sem ég sé ekki fram á að losna úr. Einn kennarinn var veikur um daginn svo afleysingakennarinn leyfði bekk að horfa á vídeó. Kemur svo yfir til mín og spyr hvort það sé ekki í lagi að þau fái að klára að horfa á myndina, það seú ekki nema 10-15 mín. eftir. Jú, elskan mín. Ekki málið. Nema hvað það voru 35 mín. eftir sem þýðir allur tíminn. Mínir krakkar taka eftir þessu og verða alveg brjáluð. Þau fái sko aldrei að horfa á vídeó og égsé sko bara alveg ógeðslega ósanngjörn! Takk fyrir. Þannig að ég neyddist til að leyfa þeim að glápa. Að vísu með skilyrðum, þau urðu að vera stillt og prúð í þrjá daga. Stóðu að sjálfsögðu ekki við það að mínu viti en alveg totally að þeitrra viti. Og þá urðu hinir bekkirnir alveg brjálaðir og ég er alveg hrikalega ósanngjörn and on and on and on.... Svo nú sit ég föst í þessum skelfilega vítahring og sé ekki nokkra leið út.

mánudagur, nóvember 25, 2002

Endurminningar ófaglærðs starfsmanns. Part tú.

Á Landsanum var tölva inni hjá ritaranum sem bara hann og hjúkkurnar máttu nota. Ein hjúkkan sat heilu og hálfu kvöldvaktirnar á irkinu og þótti það í góðu lagi. Einum starfsmanni (sumarafleysingamanni sem þekkti ekki sinn stað í heiminum) varð það á að fara í tölvuna og honum var sko vinsamlega bent á að ekki væri til þess ætlast að starfsmenn færu í tölvuna. Svo settist hún niður og hélt áfram að spjalla á irkinu eða fletta Banana Republic eða eitthvað annað álíka starfstengt.
Þegar allt var farið að loga í illdeilum því stjórnendur gátu ekki tekið á neinu og ég fékk höfuðverk upp á hvern einasta dag út af eiturspýjunni úr loftræstingunni sem aldrei er hreinsuð þá flutti ég mig á Kleppinn.

Ahh.. Kleppurinn er allt annar heimur. Ég hafði sagt frá því þegar ég bað um flutninginn að ég það væri betra ef ég fengi að kíkja í tölvu út af náminu. Kennslufræðin er mjög tölvusinnuð (enda tölvur hluti af nútíð okkar og framtíð) og við fengum allar upplýsingar á netinu. Og af því að ófaglærðir starfsmenn eru á skítakaupi þá hafði ég ekki efni á að kaupa tölvu. Nú, það var ekki nema sjálfsagt, á þessari deild mættu allir kíkja í tölvuna innan skynsamlegra marka (t.d. búið að taka út alla leiki af skiljanlegum ástæðum) og Landspítalinn rekur líka upplýsingaveitu á netinu sem allir (ég myndi undirstrika allir ef ég kynni það) eiga að hafa aðgang að.
En það sem meira var, samfélagið á Kleppnum var mun vinalegra í alla staði. Starfsmenn, hjúkkur og læknar voru samstarfsmenn og ekki til þessi stéttahroki sem ríkir á Landspítalanum. Ég varð hálfhissa til að byrja með þegar einn læknirinn fór að tala við mig eins og ég væri bara, tja, venjuleg manneskja. (Síðar kom það reyndar upp úr dúrnum að ég var að taka eitthvað frá einhverjum og var gert kristalljóst hvað til míns friðar heyrði.)
Þetta var mjög góður tími. Staðurinn er fallegur og góður andi í húsinu. En af því að Landsanum hélst svo illa á fólki (það þolir náttúrulega enginn við í þessum skítamóral) þá var ákveðið að sameina tvær deildir og flytja okkur nauðungaflutningum á Landsann. Starfsmenn voru að sjálfsögðu ekkert inntir álits á þessari ráðagerð, þeir fylgja bara með eins hver annar búfénaður. Ég mótmælti þessu kröftuglega en var bent á að menning fælist í fólki en ekki veggjum. Mikið skelfilega reyndist það rangt.

To be continued, fylgist með launamálum, tölvum og Litla Prinsinum sem allt leyfðist.

sunnudagur, nóvember 24, 2002

Ég fæ þá spurningu oft frá krökkunum af hverju þau þurfi að læra hitt og þetta. Auðvitað gæti ég reynt að vera háfleyg og útskýra að menntun sé dregin af orðinu menn og menntunin eigi að gera okkur að meira mönnum eins og Páll Skúla orðaði það í Pælingum á sínum tíma.
Einfaldasta útskýringin er hins vegar sú að það er ömurlegt að vera ófaglærður starfsmaður á Íslandi. Það er nefnilega þannig að því minna vald sem fólk hefur því líklegra er það til að misnota það. Og þegar maður er neðstur í virðingarstiganum þá getur hvaða fífl sem er vaðið yfir mann á skítugum skónum í skjóli titla.

Þegar maður er ófaglærð kona þá er ástandið enn verra. Konur eru lægri í launum og fá verr launaðri vinnu. Ég vann sem ófaglærður starfsmaður á Landspítalanum í nokkur ár. Stéttaskiptingin og stéttahrokinn var ógeðslegur. Það fór sko ekki á milli mála að hjúkkurnar voru æðri okkur en læknarnir, lo and behold. Við kvenkynsstarfsmennirnir fengum líka skilaboðin beint í æð, ef neyðarbjallan fór í gang þá áttu karlmennin að hlaupa ekki við, litlu viðkvæmu konurnar. Og það varð að vera alla vega einn karlmaður á vakt. Það gilti að sjálfsögðu ekki um konurnar enda voru oft bara karlmenn á næturvöktunum ,,en sko hjúkkan var kona." Já en sko hjúkkan er ekki starfsmaður þannig að það verður að vera en karlkynsstarfsmaður á vaktinni en það þarf ekki að vera neinn kvenkynsstarfsmaður! Og svo var einn sjúklingurinn svo erfiður að það þurfti tvo karlkynsstarfsmenn til að sitja yfir honum. Svo sátu litlu horuðu strákarnir ábúðafullir á rassgatinu á yfirsetu allan daginn á meðan við kvenfólkið sinntum allri deildinni. Og þeir rökuðu inn yfirvinnunni. Hvað er það annað en illa dulbúið launamisrétti?
To be continued....
Ossið er gjörsamlega brjálað. Var að frétta að nágrannadrengur minn hefði fengið ,,lánað" hjólið mitt undanfarnar vikur. Fór niður í hjólageymslu og ætlaði að læsa hjólinu þá var lásinn klipptur á ofninum og búið að hækka sæti og stýri í hæð drengsins. Náði í foreldrana og úthellti mér yfir þá. Mamman kannaðist við að hann hefði sagst hafa tekið hjól einu sinni sem aldrei væri notað. Í fyrsta lagi þá nota ég hjólið á sumrin og í öðru lagi; hvað með það þótt hjólið væri aldrei notað? Það gefur honum ekki rétt til að taka það. Urrr!!!!