miðvikudagur, júlí 27, 2016

Ríkið - Hvað er það? Hver er það?

Stuttu eftir síðasta pistil vorum við kunningi minn að ræða um gullmolann á Þeistareykjum og ljósleiðarlagninguna hér á þá sagði hann: „Þið íbúarnir eruð í rauninni að niðurgreiða ljósleiðarann fyrir sveitarfélagið og hjálpa því að gera það söluvænna. Sveitarfélagið myndi aldrei fara út í ljósleiðarvæðinguna nema nógu margir séu tilbúnir að taka þátt og borga. Þar með er líklegra að fleiri vilji flytja hingað.“

Ég gat ekki neitað þessu en var samt hálfhissa. Ég hef alltaf litið á sveitarfélagið sem okkur en ekki við vs. sveitarfélagið. Öll uppbygging í sveitarfélaginu hljóti að vera íbúum þess til góðs. Hitt er auðvitað óumdeilt að ákveði einhver að flytja héðan þá tekur hann ljósleiðarann ekki með sér. Spurningin er hins vegar hvort ljósleiðarinn auðveldi sölu hússins/búsins. Það er hægt að halda þeim þræði endalaust áfram en það er ekki það sem ég varð hissa á.

Ég hallast helst að því að ég og kunningi minn höfum gjörólíka sýn á ríkið og hlutverk þess. Sveitarfélögin eru vissulega hluti ríkisvaldsins.
Nú eru u.þ.b. hundrað ár síðan ég sat í heimspekilegum forspjallsvísindum þar sem rætt var um uppruna ríkisins. Sjálf hef ég alltaf aðhyllst hugmyndina um Samfélagssáttmálann og held að sú kenning sé almennt viðurkennd en það eru til aðrar kenningar.
Í þessu kennaramyndbandi er farið í gegnum þær á einfaldan hátt:



Fyrst ber að nefna Evolutionary theory, og afsakið innilega að ég skuli ekki hafa þetta á íslensku en ég finn
ekki íslensku þýðinguna í fljótu bragði og vil ekki íslenska út í bláinn. Hún byggir á því að áframhaldandi
þróun hafi átt sér stað frá frumstæðum fjölskyldum. Þ.e. pabbinn hafi stjórnað fjölskyldunni, svo hafi ættfaðirinn tekið við, þá þorpshöfðinginn og svo koll af kolli eftir því sem fjölgaði í hópnum. Þetta passar reyndar ágætlega við stjórnsýsluna hér þar sem helstu ættarlaukar sitja í sveitarstjórn.,,Ófínni" ættirnar láta það yfir sig ganga enda ekki öðru vanar og kjósa þetta yfir sig aftur og aftur og aftur...

Force theory. Byggist á þeirri hugmynd að valdamiklir einstaklingar taka stjórnina í sínar hendur. Aðrir eru neyddir undir vald þeirra hvort sem þeim líkar betur eða verr. Fólkið lætur að stjórn af ótta við að vera annars refsað. Þetta passar vel við líka því hér þorir fólk ekki að gagnrýna af ótta um afkomu sína. Við höfum nú aldeilis dæmin um það.

 Divine right theory er sú hugmynd að útvaldir einstaklingar hafi þegið umboð frá Guði til að stjórna öðrum. Blessunarlega laus við það fyrirkomulag á Íslandi en eimir auðvitað eftir í hugmyndum um að sumir séu svo miklu „hæfari“ en aðrir.

Social contract theory eða samfélagssáttmálinn. Allir helstu heimspekingar hölluðust að þessari hugmynd eins og Hobbes, Locke og Rousseau, að vísu með mismunandi skilgreiningum en ég ætla ekki að elta ólar við það.
Samfélagssáttmálinn byggir á þeirri hugmynd að fólk hafi komið sér saman um að láta ákveðin réttindi eða hið algjöra frelsi til að gera hvað sem er fyrir ákveðið öryggi. Þannig sé ríkið fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir ríkið.


Margir telja hins vegar að svo hafi ekki farið og ríkið hafi, alla vega sums staðar, þróast út í andstæðu sína. Karl Marx taldi t.d. ríkið vera verkfæri yfirstéttarinnar:


En hvernig virkar ríkið? Söguskoðun Karls Marx byggir á ákveðinni skýringu á virkni ríkisvaldsins, sem er nokkuð vel þekkt: Ríkið er verkfæri yfirstéttarinnar til að stjórna undirstéttinni. Það er hluti af einskonar „yfirbyggingu” samfélagsins, stjórnrænum og hagrænum tengslum, sem ráðast af undirbyggingu þess, sem eru hagrænu öflin. Samkvæmt þessari kenningu fylgir form ríkisvaldsins kröfum þeirra framleiðsluaðferða sem eru ríkjandi í samfélaginu á hverjum tíma. (Herbert, bls. 12)

Sveitarfélögin eru annað af tveimur opinberum stjórnsýslustigum landsins og eiga að sinna ákveðnum verkefnum. Þau verkefni eru helst:

• Stjórnsýslu, sem felst m.a. í því að annast heilbrigðis- og byggingareftirlit og veita ýmis konar leyfi til atvinnustarfsemi og athafna.
• Velferðarþjónustu við einstaklinga, eða afmarkaða hópa þeirra, svo sem félagsþjónustu, rekstur grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla, æskulýðs-, íþrótta- og tómstundastarfsemi, o.s.frv.
• Tæknilega þjónustu, sem íbúarnir njóta almennt séð, svo sem gatnagerð, veituþjónustu, brunavarnir o.s.frv. (Sveitarfélögin á Íslandi.)

Ég veit svo sem ekkert hvort hægt sé að halda því fram að ljósleiðaravæðing eigi að vera þarna undir o.s. frv. Ég veit líka að íbúar annarra sveitarfélaga hafa borgað tengigjald alveg eins og ríkari hreppir hafa borgað allt. Mér finnst virkilega að sveitarfélagið eigi að borga þetta 250 þúsund króna tengigjald fyrir hvert heimili. Ekki vegna einhverra kommúnískra manifestóa heldur einfaldlega vegna þess sveitarfélagið hefur mokað öðru eins og meiru til undir rassgötin á útvöldum. Heimilin eiga þetta einfaldlega inni. Fólkið, sem hefur skapað þessa fjármuni og á þá, á að njóta þeirra. Fólkið sem hefur streist við að búa hér og stuðla þar með að því að þetta sveitarfélag geti verið til, verið lögaðili og átt landareignir eins og Þeistareyki.
Vissulega er það ekkert sjálfgefið að þessir peningar velti inn og ég veit að vel hefur verið haldið á spöðum. Núverandi oddviti hefur farið þar fremstur í flokki að öðrum ólöstuðum og á þakkir skildar. Það breytir því þó ekki að þeir fjármunir sem þarna skapast tilheyra sveitarfélaginu og með vísun í samfélagssáttmálann þá geri ég því skóna að við séum sveitarfélagið.
Eða erum við eitt og sveitarfélagið annað? Eiga þessir fjármunir bara að fara í vasann á vanhæfum yfirmönnum? Eða borga sektirnar og lögfræðikostnaðinn fyrir stjórnsýsluafglöpin?

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...