laugardagur, ágúst 02, 2008

Röng sjúkdómsgreining

,,Fólk flytur af landsbyggðinni vegna þess að þar er enga vinnu að fá."
Þetta er fullyrðingin sem eftir er unnið. Þ.a.l. er mjög rökrétt að ætla að ef atvinna er sköpuð á svæðinu þá komi fólkið. Við þurfum í rauninni ekkert að fabúlera um það, við erum með raunverulegt dæmi á Austfjörðum sem við getum skoðað. Skv. fullyrðingunni ætti allt að vera í bullandi blóma og uppbyggingu á Austfjörðum því þar er nú kominn stór vinnustaður. Það er hins vegar ekki raunin. Það vantar enn fólk í álverið, íbúðir seljast ekki og ekkert blómstrandi menningarlíf.
Á Húsavík hafa undanfarin ár verið u.þ.b. 200 verkamenn á staðnum. Þeir voru 136 í júlí og fer fækkandi vegna lágs gengis krónunnar. Fyrirtæki á staðnum ná ekki að manna stöður og sláturhúsið sér ekki fram á að fá mannskap í haust. Það vantar sem sagt ekki vinnu á Húsavík. Hvað á álverið þá að leysa? Af hverju ætti fólk frekar að vilja vinna í álveri á Húsavík frekar en öðrum fyrirtækjum á Húsavík? Af hverju ætti fólk frekar að vilja vinna í Álverinu á Bakka frekar en í Álverinu á Reyðarfirði?
Vandinn er ekki sá að það vanti vinnu. Vandinn er að fólk vill ekki búa úti á landi.
Nú segja eflaust einhverjir að hin störfin séu verkamannastörf en í álverinu séu hátæknistörf. Persónulega held ég að meirihluti starfanna í álverinu sé líka verkamannastörf en allt í lagi. Ef við athugum menntaða hópinn þá er nærtækt dæmi. Það vantar alltaf lækna á landsbyggðina. Íslendingar eiga nóg af læknum. Ef þeir fá ekki vinnu í Reykjavík þá vinna þeir frekar erlendis en að flytja á landsbyggðina. Prestar staldra líka stutt við. Landsbyggðaprestaköllin eru yfirleitt stökkpallur í eitthvað ,,betra". Lesist: Reykjavík.
Nú er ég ekki með sögubækurnar við hendina en þegar ég fer að hugsa um það þá fluttist fólk ekki úr sveitunum til Reykjavíkur á sínum tíma af því að það vantaði vinnu. Það fór af því að lífskjörin voru betri. Og þá má spyrja: Hvort fór á undan? Fólkið af því að vinnan fór? Eða vinnan af því að fólkið fór?
Lífskjörin úti á landi nú til dags eru síst verri en í borginni en samt skilar fólkið sér ekki.
Ég held að sjúkdómsgreiningin sé röng og fyrirhuguð stóraðgerð tilgangslaus.

miðvikudagur, júlí 30, 2008

þriðjudagur, júlí 29, 2008

Kattafréttir

Við fórum í aðra auglýsingaherferð og tókst að koma tveimur öðrum kettlingum út. Þá eru bara tveir eftir og það er strax miklu betra. Svo það er búið að taka ákvörðun um að þeir fái bara að vera og lifa. Eitthvað er Lilla ekki að treysta þessu því hún flutti að heiman með börnin í gær!

mánudagur, júlí 28, 2008

Vöruverð og hagræðing

Ég hef lengi tilheyrt einni óvinsælustu stétt landsins og nú er ég að tengja mig annarri, bændum. Þrátt fyrir að neysla almennings á íslenskum landbúnaðarafurðum sé í kringum 10% þá bera nú bændur samt ábyrgð á allri dýrtíð. Hagur almennings myndi snarbatna ef tollar yrðu afnumdir og leyft að flytja inn erlent kjöt og mjólk. Örugglega, alveg most diffenetly. Stórgrosserar eru nefnilega þekktastir fyrir einmitt það að stuðla að bættum kjörum almennings. Auðvitað gengur Baugi það helst til sem helsta málsvara aukins innflutnings. Þeir ætla örugglega ekki að vera innflytjendur og heildsalar hráefnisins. neinei, alls ekki. Og þegar þeir eru búnir að slátra íslenskum landbúnaði og allri samkeppni þá helst útlenda kjötið örugglega áfram ódýrt. Baugur er nefnilega alltaf að hugsa um hag alþýðunnar. Af hverju í ósköpunum ættu þeir að hækka útlenda kjötið þegar það er eina kjötið á markaðnum? Það er alveg með ólíkindum að mér skuli detta þetta í hug.

En ég ætlaði að ræða um hagræðinguna. Búið okkar gengur svo sem allt í lagi, við erum langt frá því að vera rík en tiltölulega réttu megin við fátækramörkin. Ég er nefnilega í fullri vinnu annars staðar. Það er samt nokkuð víst að í framtíðinni verður bara um tvennt að velja, leggja niður búskap eða kaupa róbót. Ég er alveg til í róbót. Þá er hægt að hafa um 80 kýr sem mjólka sig bara sjálfar.
Það er að vísu eitt sem ég er að spá. Í róbótahúsum er græja þar sem kýrnar hreinsa sjálfar af spenunum og svo fara þær sjálfar í mjaltagræjuna. Mannshöndin kemur hvergi nálægt. Við hins vegar eyðum löngum tíma í að þvo spenana því þær eiga það til að leggjast í flórinn. Ég er svo sem ekkert að efast um að hreinlætið sé ekki gott í róbótahúsum, Mjólkursamsalan hlýtur að sjá ef það kemur mikill flór með mjólkinni. Kosturinn við handvirka mjaltabásinn er hins vegar sá að við sjáum hvern einasta spena, við sjáum hvort þær hafi stigið á sig, hvort spenarnir eða júgrið sé sárt á einhvern hátt. Fyrir utan að við sjáum kúna, klaufirnar og fæturna og hana alla tvisvar á dag og getum fylgst með því að allt sé í lagi. Það hlýtur að vera erfitt í hundrað kúa, sjálfvirku fjósi. En hverjum er ekki sama um líðan kúa? Mjólkin verður ódýrari.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...