Í mínu ungdæmi (eldgamla daga) voru viðskiptavinir verðlaunaðir fyrir trygglyndi. Ég man að ég fékk að skipta plötu, sem ég vann í félagsvist, í plötubúðinni í Glæsibæ þótt það væru fingraför á henni af því að ég var góður kúnni. ( Á enn þá ágætt vínylplötusafn.) Á vídeóleigunum fékk maður fimmtu hverja spólu frítt eða u.þ.b.
Núna hins vegar er því þannig farið að þegar fyrirtækið hefur nælt í kúnnann þá er ekkert gert til að halda honum.
Fyrir nokkrum árum var hringt í mig og mér boðin prufuáskrift að Skjá einum á lægra verði. Ég þáði það og sagði svo áskriftinni upp eftir prufutímann. Nánast samdægurs var hringt í mig aftur og mér aftur boðin prufuáskrift. Ég lék þennan leik nokkrum sinnum.
Mér var boðin tilboðsáskrift að Stöð tvö fyrir jólin sem ég þáði.
Mamma mín hefur verið tryggur áskrifandi að Stöð tvö árum saman, henni eru aldrei gerð nein tilboð. Tólfti hver mánuður frítt, er það í alvöru of mikið?
Við vorum hjá ónefndu tryggingarfyrirtæki. Í okkur hringir ung kona sem segist vera að mig minnir tryggingamiðlari. Hún býðst til þess að fara yfir tryggingarnar okkar og athuga hvort við getum fengið ódýrari tryggingar. Ég þigg það og hringi í mitt fyrirtæki og bið um að hún fái afrit af tryggingunum: "Á ég ekki bara að fara yfir þetta hjá þér og gera þér nýtt tilboð?"
Af hverju erum við ekki verðlaunuð fyrir trygglyndi? Af hverju þurfum við sí og æ að leika nýja bráð fyrir fyrirtæki að næla í? Svo þegar er búið að krækja í okkur þá þá getum við átt okkur.
Þetta fer í taugarnar á mér. Ég nenni ekki að standa í því með ca. árs millibili að láta banka og tryggingafélög gera mér tilboð. Ég geri það af því ég vil ekki láta snuða mig. Hvernig væri nú að verðlauna trygglyndi og góða kúnna?