fimmtudagur, september 18, 2014

Helvítis jákvæðni fasisminn


Ég verð að segja það eins og er að þessi helv... jákvæðni- og fyrirgefningarfasismi er orðinn alveg rosalega þreyttur.
Ég sé bara nákvæmlega enga ástæðu til þess að líta á björtu hliðarnar á helvíti eða fyrirgefa skítaframkomu. Nákvæmlega enga. Samt er alltaf verið að segja mér að gera einmitt það. Stundum vinir og vandamenn en aðallega samfélagið og einhverjir spekingar sem vilja að ég kaupi af þeim helvítis jákvæðniboðskapinn. „Vertu hress!" ,,Þetta er ekki svo slæmt." ,, Þetta er allt í höfðinu á þér." ,,Þú ákveður hvernig þér líður.“  Takk fyrir það. Ég vil ekki endilega vera neikvæð en ég vil ekki heldur vera eitthvert ginningarfífl. Það er líka grundvallar munur á neikvæðni og gagnrýni.

Það má svo sem alveg segja það að þessi helvítis jákvæðni- og fyrirgefningarfasismi byggist á eigingirni og sjálfselsku. Þetta gengur jú allt út á það að „mér“ líði betur. Ef ég fyrirgef skítapakki sem hefur komið illa fram þá líður mér kannski eitthvað betur. Ég sé það ekki reyndar. Ég skil ekki af hverju mér ætti að líða eitthvað betur með það að vera dyramotta. Það er þessi hugmynd að sleppa takinu, láta ekki eitthvað eitra líf sitt. Að fíla það að láta sparka í sig. Ég hef prufað þetta dyramottudæmi. Það er ömurlegt.

Hins vegar held ég ósköp einfaldlega að þetta snúist ekkert um mína líðan. Ég held að þetta snúist um líðan annarra, nánar til tekið skítapakksins.
Það að vera jákvæð og fyrirgefa snýst um að sætta sig við eitthvað. Sætta sig við skítlega framkomu. Sætta sig við óréttlæti og lifa í voninni að eitthvað breytist af sjálfu sér. Ef ég brosi bara nógu mikið, ef ég fyrirgef bara nógu mikið þá munu góðir hlutir gerast.
En það virkar ekki þannig. Á meðan ég brosi eins og fífl og fyrirgef öllum allt og lifi í voninni þá er annað fólk að lifa í vellystingum praktuglega. Og það fólk brosir ekki heimskulegu brosi nytsama sakleysingjans. Nei, það fólk hlær hæðnislega á meðan það stingur almúgann í bakið og misskiptir gæðum jarðar.



Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...