Bændur búa við mikinn lúxus. Þeir búa í
víðáttunni og njóta náttúrufegurðar, kyrrðar og friðar. Skepnurnar ganga
værukærar á beit í grænu grasinu fyrir utan gluggann. Svo hafa þessir
forréttindapúkar greiðan aðgang að eggjum, kjöti og mjólk.
Er því ekki eðlilegt að þetta fólk sem hangir
heima hjá sér allan daginn og ,,vinnur" þegar því hentar taki að sér hross
í hagagöngu ókeypis? Er það einhver aukavinna? Eða láti hey fyrir lítið? Eða
splæsi lambalæri eða tveimur? Jafnvel heilu skrokkunum?
Það er alveg slatti af fólki í fullri vinnu á
fullum launum annars staðar sem finnst þetta eða hvaðeina sem því dettur í hug eðlileg
krafa af því það tengist viðkomandi býli á einhvern hátt. Mér finnst það ekki.
Grasið er grænt af því að það er búið að bera
á það milljóna króna virði af áburði. Flestar skepnur þurfa að vera á húsi
allan veturinn og þeim þarf að gefa hey. Hey sem þarf að slá með dráttarvélum,
snúa nokkrum sinnum, raka í garða og loks rúlla, allt með tilheyrandi tækjum
sem öll kosta sitt.
Þá þarf að gefa skepnunum tvisvar á dag og
mjólka kýrnar tvisvar á dag. Smala kindunum og sinna sauðburði.
Þetta veit ég af því að maðurinn minn er
bóndi. Hann vinnur að meðaltali 12 tíma á dag alla daga vikunnar, alla daga
ársins. Ekkert sex vikna sumarfrí hér.
Hér er vissulega kyrrð og friður. Það er líka hálftíma
akstur í næstu verslun.
Ef ég fæ massíft hjartaáfall þá tekur það
sjúkrabílinn um 20 mínútur að mæta á svæðið og svo þrjú korter að koma mér á
sjúkrahúsið. Þ.e. ef Víkurskarðið er ekki ófært.
Miðað við vinnuframlag og stundir ættum við að
vera forrík. Því fer fjarri. Við erum mjög nálægt fátækramörkum, ef ekki undir
þeim.
Gúglið bara laun bænda, þau eru lág.
Eggin, mjólkin og kjötið eru ekki fríðindi sem
til falla bara si svona aukreitis, það er búið að hafa fyrir þessu öllu saman.
Þetta er hluti af laununum okkar.
Fyndist fólki eðlilegt að ganga að einhverri
annarri stétt og heimta hlutdeild í laununum þeirra?