þriðjudagur, janúar 27, 2015

Um fleyga

Það er sennilega ekki skynsamlegt að elta ólar við þetta en ég sagðist í síðasta pistli virða tilraunir sumra Reykdælinga til að hnekkja ákvörðun meirihluta sveitarstjórnar. Ég geri það ekki lengur. Mér varð það á að lesa „Manifestóið“ sem fylgir undirskriftasöfnuninni. Þetta er einhver sú sorglegasta lesning sem ég hef séð.

Þar segir, m.a.:

Þessi ákvörðun er ekkert annað en tilraun íbúa Þingeyjars(v)eitar utan Reykjadals til þess að brjóta niður samfélagið í einum hluta sveitarfélagsins og kúga íbúana þar í krafti meirihluta.

Þetta er þyngra en tárum taki. Þetta er í fyrsta lagi alrangt en svo er hugmyndafræðin sem býr þarna að baki skelfileg. Hún er beinlínis skelfileg.
Þarna er verið að beita „öðrun“, það er verið að stilla upp fylkingunum „við og hinir“. Hér er dregin lína í sandinn.

Forsvarsmenn söfnunarinnar og stuðningsmenn hennar hafa komist að þeirri merkilegu niðurstöðu að það sé ekki meirihluti sveitarstjórnar sem tók þessa ákvörðun heldur við „hin“ í sveitarfélaginu. Og við tókum þessa ákvörðun af engri ástæðu annarri en þeirri að reyna að „brjóta niður“ samfélagið í Reykjadal! Við erum ekkert minna en kúgarar! Kúgarar, takk fyrir. Ég, maðurinn minn, börnin mín, allir nágrannar mínir, kúgarar. Fólk hefur reiðst af minna tilefni en þessu. Þetta er bara svo galið að ég get það ekki.

Það er algjörlega horft fram hjá niðurstöðu skoðunarkönnunar þar sem fram kom að mikill meirihluti fólks á skólasvæði Þingeyjarskóla, sem spannar m.a. Reykjadal, vildi sameina skólann á einum stað eða 79%. Það hlýtur öllum heilvita mönnum að hafa verið það ljóst í slíku ferli að báðar staðsetningar kæmu til greina.
Það voru talsvert færri á skólasvæði Stórutjarnaskóla sem studdu sameiningu eða um 61%.
Samt er slengt fram í yfirlýsingunni:

Það er sannfæring þeirra sem standa að baki þessari undirskriftarsöfnun að þó svo að íbúar á öðrum skólasvæðum í Þingeyjarsveit en Litlulaugaskóla sjái ekki hversu glórulaus þessi ákvörðun er þá sjái það margir aðrir - fleiri en þeir sem sjá það ekki, fleiri en allir íbúar í Þingeyjarsveit til samans...

Guð einn má vita hvað íbúar á skólasvæði Stórutjarnaskóla hafa gert af sér annað en að nýta sér lögbundinn kosningarétt sinn í sveitarstjórnarkosningum. Þeir kusu Samstöðu því hún lofaði að láta skólann í friði. Reykdælingar hefðu örugglega kosið hana líka hefði hún lofað að láta Litlulaugaskóla í friði.
Ég hef ekki tekið eftir að það sé íbúum á skólasvæði Stórutjarnaskóla eitthvert hjartans mál hvar Þingeyjarskóli er staðsettur. Þeim er nú almennt og yfirleitt alveg slétt sama. Kannski er eitthvað ægilega laumulegt samsæri í gangi sem ég veit ekki af. Ég leyfi mér þó að efast.

Þá verður þessi skipting í „við og hinir“ að teljast stórfurðuleg í ljósi þess að forsvarsmaður þessarar ákvörðunar, oddviti sveitarstjórnarinnar, er Reykdælingurinn Arnór Benónýsson. En hann er algjörlega hvítþveginn og sýkn allra kúgunarsaka búsetu sinnar vegna.  

Það er alveg ljóst að sveitarstjórnin hefur hikstað og stamað í þessu máli alltof, alltof lengi. Þá tekst henni á einhvern ótrúlegan hátt að detta alltaf niður á verstu mögulegu lausnina í hverju skrefi. Fyrst með hálfkáks sameiningu Þingeyjarskóla og nú með þeirri ótrúlegu ákvörðun að setja nýjan skólastjóra í þá stöðu að byrja starf sitt á því að reka fólk. Þ.e.a.s. ef það á þá raunverulega að ráða nýjan skólastjóra.
En hvað sem því líður þá er sveitarstjórn að hökta og skjögra í rétta átt.

Þá er kannski vert að hafa í huga sem segir í frétt á 641.is um opinn íbúafund sem haldinn var í Dalakofanum 15.des. sl:

Fulltrúar meirihlutans sögðu frá því að þessi ákvörðun hefði verið erfið og ekki auðveld en ekki endilega framtíðarlausn. (Feitletrun mín.)

Í athugasemd við fréttina segir:

Ég held að ég fari rétt með það að allir þrír fulltrúar meirihluta Samstöðu á þessum fundi hafi sagt að þeir sjái fyrir sér framtíðarstaðsetningu grunnskóla á Laugum. Það finnst mér vanta í fréttina! Ég veit ekki um afstöðu þeirra tveggja fulltrúa Samstöðu sem ekki voru mættir á íbúafundinn, en gef mér að þeir séu hinum þremur meirihlutafulltrúunum, sem þarna voru mættir, alls ekki sammála. (Feitletrun mín.)

Í yfirlýsingunni segir einnig:

 Lokun grunnskóla í byggðakjarnanum mun veikja hann, grafa undan rekstri sveitarfélagsins og reka fleig í gegnum samfélagið. Það mun valda óbætanlegum skaða og valda sárum sem seint ef þá nokkurn tímann munu gróa. Það er því mjög áriðandi að vikið ferði frá þessari ákvörðun.

Mótmælið endilega en mótmælið á málefnalegan hátt og beinið gagnrýninni í rétta átt. Og gætið þess að fleygurinn sé ekki í ykkar eigin höndum.

sunnudagur, janúar 25, 2015

Þingeyjarsveit er víða

Ég tók meðvitaða ákvörðun um að skrifa lítið um sveitarstjórnar- og skólamál fyrir nokkru. Ég hef samt fylgst með og ég virði tilraunir sumra Reykdælinga til að hnekkja ákvörðun meirihlutans. Þetta eru kostir lýðræðissamfélags með óheftu tjáningarfrelsi. Ég er engu að síður undrandi á þeirri ályktun að þegar tveir skólar séu sameinaðir komi aðeins önnur staðsetningin til greina. Ég trúi ekki að að hinn mikli meirihluti íbúa sem samþykkti sameininguna í skoðanakönnuninni hafi ekki áttað sig á að það væru helmingslíkur á því að skólinn þeirra yrði fluttur.
Þetta er tilfinningamál og sumir hafa látið frá sér undarleg ummæli. Sum eru mjög heiðarleg eins og t.d. þetta þar sem viðkomandi segir beinum orðum að hann vilji bara hafa skólann hjá sér.


Já, við í sveitinni viljum það gjarnan líka.

Ýmislegt er sagt í hita leiksins og það er bara eins og það er. Meira segja þegar fulltrúar mínir í sveitarstjórn upplýstu það að einn angi sveitarfélagsins skipti þá meira máli en aðrir lét ég það liggja á milli hluta. Samt kaus ég Sveitunga en ekki Laugalistann.Í gær var mér hins vegar nóg boðið. Þá rakst ég á þessa athugasemd í undirskriftasöfnun til stuðnings kyrrsetningu Litlulaugaskóla.Ég veit að þetta er ein skoðun einnar manneskju en ég veit líka að skoðanir myndast ekki í tómarúmi.
Fullyrðingin fyrir því að bændur skili litlu útsvari er rökstudd með því að þeir borgi lægri fasteignagjöld. Ég hélt reyndar að útsvar byggðist á tekjum en það er nú svo fátt sem ég veit og skil. Það er alveg rétt að bændur borga lægri fasteignagjöld en bændur þurfa líka mjög stórar byggingar undir sinn atvinnurekstur. Við erum t.d. með fjós, fjárhús, hlöðu, verkstæði og vélaskemmu. Þá standa þrjú íbúðarhús á lóðinni. Það getur verið að við borgum lægri prósentu af atvinnuhúsnæðinu en við borgum talsvert meira til sveitarfélagsins í fasteignagjöldum en margur. Jafnvel fyrirtæki á Laugum.
Bent er á þá staðreynd að tekjur þurfi að koma annars staðar frá og talið upp að á Laugum sé alls konar fyrirtækjarekstur  m.a. rafmagnsverktaki. Eflaust hefur hann einhverja aðstöðu, ég bara hreinlega veit það ekki. Á Laugum var rekið rafmagnsverkstæði sem hætti fyrir nokkru. Það hætti áður en ákveðið var að flytja skólann svo ekki var það nú það sem olli.
Hins vegar er líka rafmagnsverktaki í Útkinn sem rekur stærðarinnar járnsmíðaverkstæði ásamt bróður sínum. Útkinn tilheyrir Þingeyjarsveit, bara svo það sé á hreinu.
Í Útkinn er líka rekið bakarí. Það er líka rekið bakarí í Hraunkoti. Hraunkot er í Þingeyjarsveit svo því sé haldið til haga.
Það er rétt að verslun er rekin á Laugum. Það er reyndar líka rekin verslun á Fosshóli. Og jú, það er framhaldsskóli á Laugum og hausaþurrkun sem ekki er annars staðar.
Hins vegar er skógrækt á Vöglum sem veitir 5-6 heilsársstörf.
Þá er tiltekið að rekin sé ferðaþjónusta á Laugum. Já, einmitt það er bara rekin ferðaþjónusta á Laugum. Það er nefnilega ekki rekin ferðaþjónusta í Rauðuskriðu, á Fosshóli, Staðarhóli, Draflastöðum, Illugastöðum og í Árbót svo eitthvað sé nefnt. Ég biðst afsökunar ef ég er að gleyma einhverjum sem ég er örugglega að gera. Er þá ónefnd bændagistingin.

Þingeyjarsveit er víða. Ekki bara á Laugum.