laugardagur, júlí 05, 2014

Fífladansinn

Í haust hefur Þingeyjarskóli sitt þriðja starfsár. Eru verulega skiptar skoðanir um hvernig til hefur tekist.

Í fundargerð Fræðslunefndar dags. 2.4.2014 segir:
Starfið í Þingeyjarskóla.
Margrét sagði frá því að hún og Arnór Benónýsson varaoddviti hefðu heimsótt allar starfsstöðvar Þingeyjarskóla í mars og rætt við starfsfólk um hvernig samstarf  starfsstöðvana hefði gengið frá stofnun Þingeyjarskóla. 
Þau hafi skynjað ákveðna erfiðleika hjá starfsfólki sem er rakið til sameiningar skólanna.
Harpa skólastjóri hafði samband við Kristján Má Magnússon hjá Reyni Ráðgjafastofu til að fá ráðgjöf varðandi áframhaldandi starf stofnunarinnar.
Í framhaldi af viðræðum Hörpu við Kristján Má Magnússon sem hún kynnti fundarmönnum leggur fræðslunefnd til að samið verði við Kristján um aðstoð við að greina stöðuna í skólanum.   Sú vinna sem Kristján leggur til að framkvæmd verði í vor mun kosta allt að 300 þúsundum.  Fræðslunefnd leggur til að sú upphæð verði sett sem viðauki við fjárhagsáætlun 2014.  Samkvæmt ósk  starfsfólks við Þingeyjarskóla leggur fræðslunefnd til að gerð verði ein heimasíða fyrir Þingeyjarskóla.

Kennari í Þingeyjarskóla segir í athugasemd hér á blogginu að:
Niðurstöður úr nýlegri könnun sem sálfræðingur gerði hjá starfsfólki Þingeyjarskóla styðja ekki þær fullyrðingar þínar að starfsfólkinu líði almennt illa. AMÞ

Það er gott. Ég er þó undrandi af hverju sálfræðingur er kallaður til fyrst vandinn er fyrst og fremst rekstrarlegur en það er auðvitað svo margt sem ég ekki skil.

Í erindisprófi Starfshóps um sameiningu kemur skýrt fram hverjir eigi að leiða þetta starf:
Markmið sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar með sameiningu skólanna í nýja stofnun með tveimur starfsstöðvum er að halda starfsemi á báðum stöðum en þróa jafnframt aukið samstarf starfsfólks, nemenda og foreldra. Sú þróun og það samstarf verði leitt af skólastjórnendum, starfsfólki, nemendum og foreldrum í samráði við fræðsluyfirvöld sveitarfélagsins.

Þetta hefur ekki gengið betur en það að gerður hefur verið viðbótarsamningur við Reyni ráðgjafaþjónustu (skil ekki enn aðkomu sálfræðingsins fyrst öllum líður svona vel) upp á 1.2 milljónir til viðbótar þessum upphaflegu 300 þús. Stjórnendur er samt með viðvarandi 4 tíma kennsluafslátt og fóru fram á 1 tíma kennsluafslátt fyrir alla kennara í fyrra. Samband íslenskra sveitarfélaga samþykkti það ekki en skólinn fékk samt peningana til ráðstöfunar.

Þá hafa einnig verið samþykktir samningar við HLH ehf., Ráðbarð sf. og Skólastofuna slf.
Fundargerð sveitarstjórnar frá 3. 7 sl.
Samningar um ráðgjöf vegna skólamála í Þingeyjarskóla
Fyrir fundinum liggja þrír samningar milli sveitarfélagsins og eftirtalda aðila um ráðgjöf vegna skólamála Þingeyjarskóla:
Samningur við HLH ehf. um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla, samningur við Ráðbarð sf. um viðhalds- og rýmisþörf og samningur við Skólastofuna slf. rannsóknir-ráðgjöf um skólaskipan. Heildarkostnaður er allt að 3,6 millj.kr.

Það hefur sem sagt verið samþykkt aukafjárveiting upp 5,1 milljón til að aðstoða við samstarf innan Þingeyjarskóla. Ekki sameiningu, takið eftir því hún hefur ekki enn verið samþykkt.

Í 3. hefti Tímarits Máls og menningar 2011 birtist frábær grein eftir Stefán Jón Hafstein þar sem hann lýsir nákvæmlega stjórnarfarinu í Þingeyjarsv.. á Íslandi:
Alls staðar þar sem svona afránskerfi ræður veikir það efna-hagslífið og fyrirtækin, því verðleikar eru verðminni en sambönd og klíkuskapur. Við fáum verri fyrirtæki með lélegri stjórnendur en ella. Þegar þessi innanmein grassera áratugum saman er ekki von á góðu. 

Spilling veikir stjórnsýsluna. Höfðingjaveldið byggir úthlutun á ógagnsæi og eftiráreglum; stjórnsýslan – lög og reglur, eftirlitsstofnanir og aðrar þróaðar aðferðir við að auka gegnsæi og réttlæti – ætti að setja lélegum stjórnmálamönnum skorður og lágmarka þann skaða sem þeir geta valdið. Hún verður þvert á móti handbendi þeirra. Það gerist með því að raða „sínum mönnum“ á pósta og tryggja að regluverkið sé ekki til staðar eða virki ekki – og sé alveg örugglega án viðurlaga.27

 Íslenski samfélagsskólinn er fámennur, veikur og letjandi.32 Hér glímum við ekki bara við það að pólitískum venslamennum er hyglað – smátt og smátt læra hinir að ekkert þýðir að bjóða fram krafta sína. Við fáum ekki bara kerfi sem upphefur þá löku heldur rekur burt þá hæfu. Niðurstaðan er rökrétt: Öll pólitík verður persónupólitík. Ef til vill er höfuðgallinn við kenninguna um frjálshyggjuhrunið að gleyma þessu grundvallaratriði í íslenskri stjórnmálamenningu: Hún er óskiljanleg ef menn vita ekki hver er hvurs og hvurs er hvað.33

"With slouch and swing around the ring
We trod the Fools' Parade!
We did not care: we knew we were
The Devils' Own Brigade:
And shaven head and feet of lead
Make a merry masquerade."
- Oscar Wilde
Og nú ætla ég að borga útsvarið mitt með gleði í hjarta.
Góðar stundir.


fimmtudagur, júlí 03, 2014

Að höndla hamingjuna - 2. hluti. Ytri áhrif.

Gefum okkur að einstaklingurinn sé núllstilltur, þ.e. hafi nóg að bíta og brenna og þurfi ekki að hafa áhyggjur af grundvallar nauðsynjum. Hann er reiðubúinn að takast á við heiminn og leita hamingjunnar.
Núna er lífið okkar frekar stutt, það getur verið mjög erfitt, nóg getur nú út af borið. Mætti halda að við (mannkynið) myndum reyna að sinna okkar grundvallarþörfum og njóta svo lífsins þar fyrir utan. Ekki aldeilis. Við búum í samfélagi sem vinnur markvisst að því að halda okkur óhamingjusömum. Í nafni hins frjálsa markaðar (og þúsund ára hefðarveldis) er okkur talin trú um að við séum bara ekki nógu góð.
Konur sitja undir sjúklegum útlitskröfum sem þær munu aldrei uppfylla. Fyrirsæturrnar sem við eigum að líkjast líkjast sér ekki einu sinni sjálfar.  Búum til hið eftirsóknarverða útlit með fiffi, svelti, lýtaaðgerðum og fótósjoppi og seljum svo konum þetta útlit. Þær kaupa og kaupa og kaupa því þær munu aldrei, nokkurn tíma ná takmarkinu. Þetta er hið stórkostlegasta sölutrikk fyrr og síðar. Illgjarnt og viðbjóðslega brilljant.
Konur eyða ómældum tíma og fjármunum í þessa dauðadæmdu leit. Fórna heilsu sinni og svo sannarlega hamingju.
Jane Fonda's Workout Book.

Við skulum ekki ímynda okkur eitt einasta andartak að karlmennirnir okkar séu undanþegnir óuppfyllanlegum kröfum. Útlitskröfurnar eru kannski ekki jafn miklar, enn þá. Ég sá ekki betur en ungir karlmenn væru orðnir þátttakendur í America‘s next top model. Hafi ég einhvern tíma fyllst skelfingu yfir því hverjir stjórna útlitskröfum heimsins þá var það þegar ég horfði einhvern tíma á slíka þáttaröð.
Drengirnir okkar sitja undir öðruvísi kröfum. Þeir eiga enn í dag að harka af sér og mega síður sýna tilfinningar. Þá er enn litið til þeirra sem helstu fyrirvinnu fjölskyldunnar svo sköffunar-krafan hvílir á þeim. Möguleikar þeirra til að gera það sem þá langar virkilega til eru því minnkaðir. Alveg eins og stúlknanna því þeim er sagt að þeir geti ekki hlutina.
Ungu mönnunum okkar líður alls ekki vel. Þeir misnota frekar vímuefni, lenda frekar í slysum (og slagsmálum) og fremja frekar sjálfsmorð. Þetta er ömurlegt. Af hverju gerum við unga fólkinu okkar þetta?
Við lofum auðhyggju og siðspillta framkonu. Að ljúga, svíkja og stela er í góðu lagi en Guð forði okkur frá feitu eða ljótu fólki.
Nú er hægt að segja að fólk eigi bara ekkert að láta þetta hafa áhrif á sig. Það er bara auðveldar sagt en gert. Nýgengi átröskunarsjúkdóma var 2011 hátt í hundrað á ári. 550 konur fóru í brjóstastækkun 2010. 
Þegar fólki er stöðugt sagt að það sé ekki nógu fallegt, sé ekki nógu gott, þá hefur það áhrif. Veldur fjölda fólks vanlíðan og fitar bankabækur annarra.

miðvikudagur, júlí 02, 2014

Að höndla hamingjuna – 1. hluti. Helstu nauðsynjar

Það er innbyggt í allar skepnur jarðarinnar að vilja halda lífi. Það er grundvöllurinn fyrir öllu öðru. Til þess að við getum haldið lífi þá verðum við að borða og njóta skjóls frá veðri og vindum. Almennt þekkjum við ekki langvarandi hungur né hræðsluna við að hafa ekki þak yfir höfuðið. Engu að síður er það blákaldur raunveruleiki fátækra kvenna í Reykjavík. Lög um atvinnuleysistryggingar voru ekki sett fyrr en 1956 og þetta öryggisnet er alls ekki sjálfgefið.
Nú þurfum við flest ekki að lifa frá degi til dags svo við erum ekki meðvituð um þessa lífshvöt en það er nákvæmlega þetta sem stjórnar okkur. Sérstaklega ef við eigum börn líka. Við erum á fullu að tryggja „okkur“ (mér og mínum) mat og húsaskjól núna og í nánustu framtíð. Og helst að reyna að ná í örlítið meira, pínu svona varaforða til öryggis. Það er ekkert launungarmál að ef það skellur á hungursneyð og valið stendur á milli þess að mín börn eða þín fái að borða þá vel ég mín. Alltaf. Undantekningarlaust. Þú getur reynt að halda því fram að þú myndir skipta jafnt á millii en þú gerir það ekki þegar á reynir. Og það er fullkomlega eðlilegt. Þetta heitir sjálfsbjargarhvöt. Það er mjög vont að vera ekki sjálfbjarga. Af því það er svo vont þá reynum við að sannfæra okkur um að það sé viðkomandi sjálfum að kenna.

http://openforwardthinking.blogspot.com/

Sem betur fer eru flestar siðmenntaðar þjóðir með velferðarkerfi og m.a. við Íslendingar. Hugsunin er afskaplega falleg. Það fólk sem lendir í slysum eða veikindum á rétt á mannsæmandi lífi. Líka fólk sem missir vinnuna einhverra hluta vegna. En af því að „þetta fólk“ lifir á vinnunni „okkar“ og er þ.a.l. að taka eitthvað frá okkur þá leyfum við því alveg að finna að þetta er ekki alveg í lagi. Af því að auðvitað, auðvitað eru einhverjir að misnota kerfið. Örugglega meirihlutinn ef grannt er skoðað.
Hans Miniar Jónsson skrifaði góða glósu nýverið á Facebook þar sem hann lýsir þessu. Hann talar um ævintýrahugsun, sem er frábært hugtak, og lýsir sér svona:

Í ævintýrunum endar sagan svo að fólk fær það sem það á skilið, bæði hamingju og ríkidóma og við flest höfum heyrt ævintýrin jafnvel áður en við gátum skilið orðin. Við erum uppalin með þessa hugsjón að bara ef við erum góð þá verðum við rík og haminjusöm, og ef við erum vond þá missum við allt. 

Innst inni, þótt við viðurkennum það auðvitað aldrei, þá finnst okkur þetta vera viðkomandi sjálfum að kenna. Hann er að gera of mikið úr veikindum sínum, hann hefur gert eitthvað til að verða rekinn eða nennir hreinlega ekki að vinna. Þetta er einfaldlega rangt. Það gerir það enginn að gamni sínu að fara á atvinnuleysisbætur. Það er óendanlega andstyggilegt að eiga lífsviðurværi sitt undir Vinnumálastofnun.
En það er bara svo miklu auðveldara að hugsa svona. Það er svo miklu þægilegra að geta sannfært sjálfa/n sig um að þetta sé bótaþeganum sjálfum að kenna því það minnkar líkurnar á að þetta komi fyrir „mig“.  Þá þarf heldur ekki að breyta neinu né rugga bátnum. Það er svo erfitt að viðurkenna að í rauninni er það ekki góða hetjan sem hefur það best heldur sá sem er með bestu pólitísku tengslin eða fæddist inn í rétta ættbálkinn. Ef við horfumst í augu við það þá þurfum við líka að horfast í augu við að meirihlutinn af okkur á engan séns á því að komast á topp metorðastigans.
Fyrir einhverju síðan las ég bók eftir P.D. James þar sem löggan var ung kona sem hafði barist í bökkum alla tíð ræðir við konu sem var afskaplega lífshrædd. Unga konan skildi það ekki því hún hafði alltaf verið önnum kafin við það að lifa af.
Ég ætla ekki að halda því fram að fátækt komi í veg fyrir hamingju. Hins vegar tel ég ljóst að fólk sem er stöðugt upptekið við það eitt að hafa til hnífs og skeiðar njóti ekki nándar nærri jafn mikilla lífsgæða og annað. Það hefur einfaldlega ekki tíma til að leita hamingjunnar. Þá er skömmin sem fylgir þessum aðstæðum, vegna fordóma samfélagsins, verulega íþyngjandi.

mánudagur, júní 30, 2014

Tilgangur lífsins



Já, það er von að þið hváið, ef þetta er ekki menntaskólastöff þá veit ég ekki hvað. Enda var málefni krufið í botn aftur á bak og áfram margt kvöldið í kjallaranum í Álfheimum í góðum félagsskap yfir rauðvínsglasi (flöskum reyndar) og undirleik Leonard Cohen. 
En það er stundum gott að dusta rykið af gömlum hugsunum og skoða þær aftur. Auk þess sem þetta þjónar sem formáli að öðru.
Gallinn við að vera Hinn viti borni maður er að við gerum okkur grein fyrir þessu algjöra
tilgangsleysi lífs okkar. Stundum hef ég velt því fyrir mér hvort þessi þörf fyrir tilgang hafi komið með Guði eða hvort Guð hafi verið skapaður vegna þessa tilgangsleysis. Þessu hefur örugglega verið svarað einhvers staðar, einhvern tíma, einhvern veginn.
Það breytir því þó ekki að þegar Nietzsche tilkynnti andlát Guðs steyptist yfir (suma alla vega) ægilegt tilgangsleysi.
Það er óneitanlega erfitt að horfast í augu við að allar okkar siðareglur, allar okkar hugmyndir um lífið og tilveruna eru okkar (og langalangalangalangaafa og –ömmu) og einskis annarra. Það er ljótt að drepa hvert annað af því að við ákváðum það. Við hefðum alveg getað ákveðið að það væri í góðu lagi líka. Enginn Guð, enginn æðri máttur, bara ég og þú. Skrambi scary.
Og hver er þá tilgangurinn með öllu þessu veseni í þessum volaða táradal ef það er enginn að telja stigin? Engir uppsafnaðir Vildarpunktar í Paradísarferðina?
Það er auðvitað ósköp notaleg tilhugsun að til staðar sé æðri vera (hún Guð finnst mér þægileg tilhugsun) sem skilur mig. Veit að ég er ágæt inn við beinið og hleypir mér inn í Himnaríki þegar þar að kemur. Þar sem ég fæ að sveima um í hvítum kyrtli og spila á hörpu... til eilífðarnóns... Ég skal viðurkenna að ég skil ekki alveg þessa löngun í eilíft líf. Mig grunar að það verði leiðigjarnt til lengdar. Og þótt „ég“ endurfæðist aftur og aftur þá er það auðvitað ekki „ég“ fyrir fimm aura heldur einhver allt önnur manneskja. Sálin á að ná fullkomnun og þá gerist hvað? Er loksins sátt við að deyja? Alla vega, skil þetta ekki alveg.
Það er samt dálítið óhuggulegt að horfast í augu við hyldýpi tilgangsleysisins, að þetta sé allt og sumt og ekkert bíði nema gröfin og ormarnir.
En flest sættum við okkur við þetta á einhverjum tímapunkti, að það sé ekki áfangastaðurinn heldur ferðalagið og finnum okkur tilgang.
Eftir að hafa velt þessu fyrir mér í gegnum tíðina þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu eins og Julia Lennon að tilgangur lífsins sé að vera hamingjusöm. Ég segi ykkur seinna hvernig á að höndla hamingjuna.

sunnudagur, júní 29, 2014

Söknuður

Það kemur einstaka sinnum fyrir að ég sakna Reykjavíkur. Að sjálfsögðu væri það ósköp notalegt að geta ,,skotist" út í búð eða ,,skroppið" í bíó. Jafnvel lifað af kraftmikið hjartaáfall. En það er ekki þess sem ég sakna. Sú Reykjavík sem ég sakna er ekki lengur til.
Þegar þessi tilfinning grípur mig þá fylgir henni angurværð og iðulega sveimar hugurinn til Menntaskólans í Reykjavík og svo Háskóla Íslands. Þegar hugurinn skreppur í þessi ferðalög þá er ég
á gangi í borginni á leiðinni til eða frá öðrum skólanum en þriðji punkturinn er Skólavörðustígur 23 þar sem afi og amma bjuggu.
Mig minnir að það hafi verið um það leyti sem ég var að fara í samræmdu prófin að pabbi stakk upp á því að afi myndi hjálpa mér með námið. Ég var nefnilega svarti sauðurinn í þeim efnum. (Djöfulleg samkeppni á ætternisstapanum.) Afi nýkominn á eftirlaun og þetta þótti pabba alveg heillaráð. Ég samþykkti þetta enda nýbúin að gera samning við foreldrana þess efnis að næði ég fjórum 9 á samræmdu þá fengi ég stærsta herbergið. (Tókst ekki, 3x8 og 1x7.)
En þar sem þetta samband var komið á þá hélt ég áfram að mæta á Skólavörðustíginn og læra.
 Afi gekk alltaf mikið og fór oft út að ganga með barnabörnin. Mér þykir ósköp ljúft að vita að Ármann Jakobsson gengur enn um Reykjavík með barn sér við hönd.
Við afi fórum líka oft út að borða í hádeginu og þá röltum við um Reykjavík. Það er sem sagt þetta rölt um gömlu Reykjavík sem ég sakna. Ég sakna þess að rölta um með afa. Ég sakna ömmu og pabba. Ég sakna gömlu Reykjavíkur og ég sakna ungu mín.
Þegar þetta gerist þá halla ég mér aftur með kaffibollann og leyfi mér að sakna... í smá stund.

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...