Í gær birtist frétt á dv.is um íslenskan mann
búsettan í Noregi sem þakkar fyrir að fá ,,niðurgreitt” íslenskt lambakjöt.
Athugasemdakerfið er opið og ekki leið á löngu að halinn sem fylgdi fréttinni
var orðinn ansi langur. Inntakið í
mörgum athugasemdunum, alls ekki öllum, var í stuttu máli; helvíts bændurnir.
Nú reyndu nokkrir að benda á að það er enginn útflutningsstyrkur á
útfluttu kjöti en það vakti litla athygli. Aðrir reyndu að
benda á að bændur fá um 400-500 kr/kg á meðan það væri selt á 1100-1200 út úr
búð. (Skv. einni Facebook færslu sem gengur á milli er kjötið ívið dýrara í
Noregi. Sel ekki dýrar en ég keypti.)
Nú er þetta ekki ný umræða en kemur mér samt
alltaf á óvart. Ég skil ekki alveg af hverju bændum er kennt um hátt matarverð.
Þ.e.a.s. ef matarverðið er hærra hér en annars staðar. Reikniskúnstir eru
margvíslegar. Er matarkarfan hér dýr miðað við laun, t.d.? Spyr sú sem ekki
veit.
Muni ég rétt þá eru íslenskar
landbúnaðarafurðir innan við 10% af heildarneyslu. Mig minnir að hún sé um 6%.
Það er ekki hægt að kenna þessum tæpu 10% um allt sem aflaga fer í rekstri
þjóðarskútunnar og heimilanna, það gengur bara ekki upp.
Það sem kemur mér alltaf mest á óvart í
umræðunni er þessi fullvissa fólks að stórkaupmennirnir séu vinir þess. Engum
dettur í hug að skoða álagningu smávöruverslunarinnar. Nei, þeir Bónusfeðgar
voru sko vinir litla mannsins. Engin álagning hj á þeim. Þess vegna gátu þeir keypt upp verslanir
í útlöndum og lúxusíbúðir í New York og einkasnekkjur. Mennirnir búnir að nurla
í 20 ár. Það er auðvitað ekkert mál að vera ,,vinur” litla mannsins og selja
ódýrt í Bónus þegar maður á líka dýru verslanirnar. Maður bara hækkar verðið þar og þá er allt svo ódýrt í lágvöruversluninni. Svo er auðvitað ekki verið að
borga stjórnendunum nein laun. Að ráði.
Ég veit ekki um einn einasta bónda sem á
einkasnekkju. Hvað þá þotu.