þriðjudagur, mars 18, 2014

Skyldi konunni ekki leiðast að láta krossfesta sig?



Þetta eru skrítnir tímar. Með tilkomu veraldarvefs og tækniframfara getur hver sem er tjáð sig, hver sem er sýnt sig og hver sem er krafist athygli. Það margt gott við þetta, það er líka margt vont.
Persónulega finnst mér þessi nýi tími frábær. Við heyrum raddir sem við heyrðum ekki áður og sjáum sjónarmið sem voru áður falin. En þar sem er ljós, þar er einnig skuggi. Við heyrum líka ókvæðisorðin betur og sjáum hatrið betur.
Margt fólk hefur orðið frægt af litlu sem engu tilefni, annað af meira tilefni. Upp hafa sprottið margir samfélagsrýnar sem tjá sig um lífið og tilveruna. Þeir eru misgáfaðir eins og gengur og misvel metnir eftir því.
Annað fólk hefur orðið frægt út af einhverju sem ég veit ekki hvað er. Ég skildi t.d. aldrei út af hverju Fjölnir Þorgeirsson var frægur og ég skil ekki af hverju Ásdís Rán er fræg. Þau eru voða sæt bæði tvö en ég veit ekki hvað annað þau hafa unnið sér til frægðar.
Hitt er á hreinu að margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Samkeppnin er hörð og alls ekki allir sem ná í gegn. Svo er lífsins gæðum misskipt í netheimum eins og annars staðar í lífinu. Sumir sem þrá athyglina fá hana ekki á meðan aðrir verða frægir þvert gegn vilja sínum.
Það er ekki nokkur leið að átta sig á hvað er líklegt til vinsælda. Skynsemi á t.d. ekki upp á pallborðið. Hófsamt orðaval ekki heldur. Tilfinningaklám er alltaf gott sem og svæsið orðbragð. Töffaralegur málsvari óvinsæls málstaðar er nokkuð góður. Einhver sem hægt er að elska og hata á sama tíma.
Lo and behold. The Media proudly presents: Hildur Lilliendahl!
Kvenréttindabaráttan hefur alltaf verið hötuð enda kollvarpar hún allri undirstöðu andstæðu-hugsunar okkar. Allar konur sem hafa verið framarlega í kvenréttindabaráttunni hafa fengið það óþvegið. Það hlýtur að vera algjörlega skelfilegt að vera fremst í víglínunni.
En hvernig varð Hildur fræg?
Ég man ekki eftir að hafa séð mikið til Hildar fyrr en albúmið Karlar sem hata konur fór í dreifingu á Snjáldurskinnunni. Þar mallaði það í nokkra daga áður en fjölmiðlar fjölluðu um það og allt sprakk. Það bara sprakk! Hildur varð fræg á einni nóttu. Hún hefur sjálf sagt (og nei, ég nenni ekki að leita að því) að hún hafi gert ráð fyrir að þetta myndi standa yfir í svona 2-3 mánuði. Þess vegna ákvað hún að taka slaginn. And did she ever! Hildur, ég verð þér ævarandi þakklát fyrir hugdirfskuna því það þarf sterk bein til að standa í þessu.
Það sem ég hef hins vegar aldrei skilið eru meiningar sumra þess efnis að Hildur hafi einhvern veginn ,,troðið“ sér í fjölmiðla. Að allar þessar fréttir sem af henni hafa verið sagðar hafi hún ,,sent“ eða ,,komið“ því í fjölmiðla. Kannski hefur hún sent eitthvað á fjölmiðla, ég bara veit það ekki. Hins vegar veit ég að hún hefur varla mátt setja stöðufærslu á Snjáldurskinnuna án þess að það yrði fréttaefni. Hún má ekki blogga án þess að það sé komið í fréttir.Nú veit ég ekki margt um fjölmiðlaumhverfið á Íslandi nema sem neytandi en eitt veit ég þó: Það fer ekkert í fjölmiðla sem fjölmiðlar vilja ekki hafa þar og þeir geta grætt á. Follow the money.
DV var hrifnast af Hildi. Hún mátti ekki anda þá var það komið á dv.is. Og af hverju ekki? Þessar fréttir urðu umsvifalaust mest lesnu fréttirnar. Það hrúguðust inn athugasemdirnar. DV er búið að berjast við fjárhagsörðugleika og vefmiðlar byggjast á auglýsingu. Því fleiri flettingar því verðmætara auglýsingapláss. Þetta er ekki flókið.
En það ernú einu sinni svo með blessaða fjölmiðlana að þeir snúast alltaf gegn sínum uppáhöldum. Kannski þoldi Kastljós ekki þessa gullgæs sem DV var búið að koma sér upp. Það eina sem ég veit er að einn daginn ákváðu fjölmiðlar að krossfesta Hildi Lilliendahl.
Allt í einu kom nefnilega í ljós að hún var ekki heilög. Hvernig gátu fjölmiðlar ekki vitað það? Hún hefur verið mjög opinská um að hún hafi stundað Barnaland undir nikkinu NöttZ. Það þarf ekki nema lesa bloggið hennar til að sjá að þetta er strigakjaftur. Hvernig gat þetta mögulega komið á óvart? Hafði flettingunum kannski fækkað? Var fréttaefnið Hildur ekki jafn söluvænt og áður? Var krossfestingin bara síðasta sölutrikk auglýsingasalana?

Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...