Á fundi sveitarstjórnar þann 16. maí
síðastliðinn var tekin fyrir fundargerð Fræðslunefndar frá 6. maí. Í
fundargerðinni kemur fram að að skólahald Þingeyjarskóla eigi að halda áfram
með óbreyttum hætti og jafnframt er farið fram á kennsluafslátt fyrir alla
kennara og skólastjórnendur svo þeir geti átt samráð um samstarf
starfsstöðvanna.
Mér lýst ekki nema mátulega á hvort tveggja og
tek þetta upp á fundinum. Undarlegt nokk þá erum við meirihlutinn ósammála og
endar umræðan á að lagðar eru fram bókanir.
Ég set fram þessa bókun:
„Ég
harma ákvörðun Fræðslunefndar og sveitarstjórnar um áframhaldandi rekstur tveggja starfstöðva
Þingeyjarskóla. Reynsla síðasta vetrar sýnir að nemendur og foreldrar eru óánægðir með núverandi fyrirkomulag.
Tel ég affarsælast að skólahald
skólans fari fram á einum stað með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Þá tel ég þessi vinnubrögð ekki til
marks um ábyrga fjármálastefnu með
sérstöku tilliti til síðasta ársreiknings.“
Og meirihlutinn svarar með þessari:
„Meirihlutinn
bendir á að ekki er verið að taka nýja ákvörðum um rekstrarform Þingeyjarskóla. Jafnframt vekur
meirihlutinn athygli á að fræðslumálin fóru u.þ.b.1%
fram úr áætlun samkvæmt ársreikningi 2012.“
Ég hef ýmislegt við þetta að athuga en sá lítinn
tilgang með að setja fram gagnbókun við gagnbókuninni og setja kannski af stað
einhverja endaleysu.
Hins vegar sé ég nú að Skarpur hefur séð fréttagildi í
þessu (ólíkt öðrum sem sáu ekkert nema nafn útrásarvíkings ;) ) og setur í
litla frétt. Því langar mig að setja hér fram óformlega gagnbókun við
gagnbókunina.
Í gagnbókuninni kemur fram að ekki sé ,,verið að taka nýja
ákvörðun um rekstrarform Þingeyjarskóla." Þótti meirihlutanum það jafnvel út úr kú að vera að ræða sameiningarmál skólanna undir þessum lið, þ.e.
Fundargerð Fræðslunefndar þótt þess beri ekki merki í smekklega orðaðri
gagnbókuninni. Óneitanlega kemur mér það spánskt fyrir sjónir þar sem ákvörðun um sameingu skólanna var einmitt tekin undir liðnum Fundargerð Fræðslunefndar á sínum tíma án þess að slík umræða væri neins staðar boðuð á fundarboði. Stundum má sem
sagt ræða sameiningarmál undir liðnum fundargerð Fræðslunefndar og stundum ekki.
Hins vegar nefnir meirihlutinn að fræðslumál hafi ekki
farið nema 1% fram úr áætlun skv. ársreikningi. Nú má auðvitað alltaf leika sér
með tölur. Fræðslumál eru langstærsti póstur sveitarfélagsins og talsverðir
fjármunir sem geta falist í þessu eina prósenti. En ég ætla ekki að elta ólar
við það enda var ég meira að horfa til framtíðar.
Skólastjóri Þingeyjarstjóra með blessun Fræðslunefndar
leggur nefnilega til að allir kennarar skólans fái einnar stundar kennsluafslátt
og hver skólastjórnandi 4 tíma kennsluafslátt næsta vetur. (Það er talað um 20
tíma allt í allt í fundargerðinni en ég hreinlega veit ekki hvort
kennsluafsláttur skólastjórnenda sé inni í því eða hvort þeir 12 tímar séu til
viðbótar. Má til samanburðar nefna að kennari í fullri stöðu kennir 26 tíma á viku.)
Ég geng að því sem vísu að ekki séu fleiri kennarar
eða skólastjórnendur í starfi en nauðsynlegt er og viðkomandi ráðnir í það
vinnuhlutfall sem nauðsynlegt er. Því þykir mér það liggja ljóst fyrir að verði
af þessum kennsluafslætti þá gengur af kennsla. Kennsla sem verður að sinna.
Þ.a.l. þurfi að ráða fleiri og útgjöld sveitarfélagsins verði meiri. En fram
kom á fundi sveitarstjórnar þann 2. maí sl. að
reikningsniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum
rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 60, 3 millj. kr. Þykir mér það
því skjóta skökku við að auka útgjöld sveitarfélagsins frekar og ekki merki um
ábyrga fjármálastefnu.
En kannski er það bara ég.