þriðjudagur, nóvember 10, 2015

"Af hverju kærirðu ekki?"

Ég, eins og fleiri,  fór í uppnám í gær. Undanfarna daga hafa verið að birtast fréttir í fjölmiðlum um „meintar“ nauðganir á tveimur kvennemendum í Háskólanum í Reykjavík. Fréttirnar hafa allar verið á þá leið að brotin séu „gróf“ .



http://www.visir.is/grunur-um-naudgun-a-bekkjarskemmtun-hr/article/2015151109624
 

Í gær kastaði svo tólftunum þegar Fréttablaðið birti hrikalega frétt á forsíðu.  Þar var talað um íbúð „útbúna til nauðgana“ þar væru tæki og tól til ofbeldisverka og þeim hefði verið beitt við meintar nauðganir. Er það furða að almenningur fái áfall?

Í lokin á þessari hryllingsfrétt, og þetta er svo sannarlega hryllingsfrétt, var tekið fram að ekki hefði verið farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum.
Það var þarna sem almenningur fékk nóg. Það er hægt að fara fram á gæsluvarðhald yfir fólki við hina smásmugulegustu glæpi en ekki þessum mönnum. Ég, og væntanlega fleiri, upplifði þetta sem algjöra lítilsvirðingu við konur og fórnarlömb kynferðisofbeldis. Og almenningur ákvað að þessi lítilsvirðing væri ekki ásættanleg. Almenningur tók lögin í sínar hendur og birti myndir af mönnunum og nafngreindi þá. Þá var líka mótmælt við lögreglustöðina.

Það var afar óheppilegt að stöðufærslan með myndunum skyldi hvetja til ofbeldis gagnvart hinum grunuðu. Ég held að það hafi ekki verið einhver alvöru meining hjá neinum. Það sem var að gerast var, eins og kom fram á RÚV, að uppsöfnuð reiði braust fram. Hún beindist ekki sérstaklega að þessum tveimur mönnum þótt henni hafi verið gefið andlit þeirra. Það skal þó viðurkennt að ég er ekkert aðframkomin af samúð með þeim. Vissulega er það rangt að persónugreina grunaða. En hvernig á að fá lögregluna og dómsvaldið til að heyra að okkur er misboðið og hefur verið lengi? Við erum búin að nefna það nokkrum sinnum. Kurteislega.

Strax í gærkvöldi kom fram að lýsing Fréttablaðsins væri sennilega ekki alls kostar rétt. Í dag fer lögmaður annars mannsins mikinn og segir að þetta sé allt saman rangt.
Það er auðvitað alveg jafn hrikalegt ef fjölmiðlar sem hingað til hafa notið trausts setja fram mjög ýktar fréttir til að selja sig. Gærdagurinn var óneitanlega himnasending fjölmiðlanna. Þeir þurftu ekkert að gera annað en að copy-paste upp úr samfélagsmiðlunum.
Ef það reynist rétt að Fréttablaðið hafi farið svona heiftarlega af sporinu þá má saksækja það hægri vinstri mín vegna. Fjölmiðlar bera ábyrgð eins og sýndi sig svo sannarlega í gær.
Hins vegar er það ekki komið í ljós. Það eins sem við vitum er að tvær stúlkur hafa kært tvo menn fyrir nauðgun. Vilhjámur H. Vilhjálmsson segir beinum orðum að engin nauðgun hafi átt sér stað og að stúlkurnar séu lygarar: „Ég veit ekkert hvað býr í heilabúinu á stúlkum sem ákveða að saka menn að ósekju um slíka hluti. Ég get ekki sett mig inn í það hugarástand.“ Hann hefur bætt um betur og lagt fram kæru á hendurþeim fyrir rangar sakargiftir. Að vísu hefur málinu hvorki verið vísað frá né dæmt í því sakborningum í vil en þetta er víst hægt samt sem áður. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að skilja þetta á annan veg en sem ógnun, hreinan sálfræðihernað.

Nú skulum við skoða tölur.
Í umræðunni hefur verið haldið fram að 2-11% allra ákæra í kynferðisbrotamálum séu rangar sakargiftir. Guðrún C. Emilsdóttir segir í grein á Knúzinu þann 28. janúar 2013 eftir könnun á málaflokknum að þessi tala sé miklu lægri eða varla nema 0,16%. Í bæklingi frá Stígamótum segir að 2% af tilkynntum nauðgunum séu ekki á rökum reistar, sama hlutfall og í öðrum málum. En við skulum vera mjög varfærin og ætla hið versta. Það þýðir að lágmark 89% allra nauðgunarkæra eru réttar. Ég hef auðvitað aldrei verið sérstaklega sterk í stærðfræði en ég held samt að þetta flokkist undir mikinn meirihluta.
Líkurnar á röngum sakargiftum eru því afar litlar. Að kæra fyrir þær snýst því um það eitt að fæla meint fórnarlamb frá kærunni.
Nú skulum við setja upp ímyndað dæmi þar sem við vitum að fórnarlambinu var alveg örugglega nauðgað. Sönnunarbyrðin er hins vegar afar erfið og heldur ólíklegt að málið komist fyrir dóm. Þannig að fórnarlambið, sem er niðurbrotið eftir atburðinn, þarf fyrst að fara í læknisskoðun og skýrslutökur. Það þarf að horfa á efann í augum annarra og jafnvel þola útskúfun. Svo ef málið kemst fyrir dóm þá er alls ekki víst að sakfelling náist. Þá þarf fórnarlambið að gjöra svo vel að borga nauðgara sínum bætur! Það er að sjálfsögðu óbærileg tilhugsun. Þá er það skömminni skárra að þegja og láta sem ekkert sé.
Vilhjálmur heldur því fram að vegna samskipta fyrir og eftir meinta nauðgun sé nauðgun ekki möguleiki. Mig langar að ljúka þessu með tilvitnun í fyrrnefndan bækling Stígamóta, sem mun víst vera e.k. þrýstihópur, þar sem segir:
Konur reyna þannig að meta aðstæður sínar og þær velja þá leið til að lifa árásina af, líkamlega og tilfinningalega, sem aðstæður og mat þeirra á þeim leyfir. Sumar konur loka sig tilfinningalega frá því sem er að gerast. Aðrar lýsa því hvernig tilfinningar þeirra sveiflast milli ótta og reiði meðan á nauðgun­inni stendur. Hafi reiðin yfirhöndina í upphafi nauðgunarinnar verður hún oft til að konan reynir að verja sig, þó ótti fremur en reiði geti líka stjórnað því að konur reyna að takast á við nauðgarann.
Það eru því ekki til nein rétt eða röng viðbrögð við nauðgun, þau eru einstaklingsbundin, tengjast sjálfsmynd okkar, hvernig við lítum á annað fólk, fyrri lífsreynslu okkar, bakgrunni okkar og síðast en ekki síst aðstæðum þegar nauðgunin á sér stað. Öll viðbrögð kvenna við nauðgun eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum og þau miða að því að reyna að hafa einhverja stjórn á eigin lífi. Það verður vart nægjanlega undirstrikað hversu mikilvægt það er fyrir konur að hafa einhverja stjórn meðan á nauðguninni stendur og eftir hana. (bls. 18-19)

Af ársskýrslum Stígamóta má einnig ráða að konurnar þekkja nauðgarana í nærri 85% tilvika. (bls. 15)
Mindblowing



Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...