fimmtudagur, maí 29, 2014

Aumingja, vesalings valdhafarnir

Þetta byrjaði allt með tárinu hans Binga. ,,Ég er ungur maður með ung börn," og svo kom kúnst pása og tár. Þetta var smart tár enda í fyrsta skipti sem íslenskur, karlkyns stjórnmálamaður grét. Aumingja Vilhjálmur reyndi seinna að vísa til þess að hann ætti fjölskyldu en Villi er bara ekki eins sjarmerandi og Bingi. Lestin var samt farin af stað.

Eftir Gleðigönguna 2011 sagði Páll Óskar:
Það er engu lík­ara en sá eini sem fær að vera í friði í þess­um heimi sé hvít­ur straig­ht karl­maður í jakka­föt­um, hægris­innaður og á pen­inga. Og stund­um er þessi karl­maður með Bibl­í­una í ann­arri hendi og byss­una í hinni. Allt annað má kalla ein­hverj­um nöfn­um. Allt annað er hægt að upp­nefna: „Hel­vít­is femín­isti, hel­vít­is kell­ing­ar, hel­vít­is homm­ar, hel­vít­is þið, bla, bla!“ Þannig að út með kven­fyr­ir­litn­ing­una, út með fyr­ir­litn­ingu á öðrum kynþátt­um, öðru fólki sem er af ann­arri stöðu og stétt en þú. Við eig­um öll að sitja við sama borð. Og til þess er þessi dag­ur. Við verðum að gera þetta einu sinni á ári. Við meg­um ekki sofna á verðinum.“
Jón Magnússon, hvítur, miðaldra lögfræðingur brást ókvæða við og skrifaði bloggfærsluna: Júðar nútímans. Þar vildi hann meina að aumingja, vesalings, hvíti, kristni, miðaldra karlmaðurinn væri kominn á sama stað og gyðingar voru á tíma Seinni heimsstyrjaldarinnar. Júðar nútímans, hvorki meira né minna! Skilningsleysið á stöðu minnihlutahópa er algjört.

Hugtakið minnihlutahópur vísar ekki til þess að þeir einstaklingar sem tilheyra hópnum séu færri en hinir. Hugtakið vísar til þess að hópur fólks býr við félagslega og oft fjárhagslega mismunun vegna líffræðilegra eða menningarlegra einkenna. Eins og t.d. kyns, kynþáttar eða kynhneigðar.
Karl trompar konu, hvítt trompar alla aðra litarhætti og gagnkynhneigð trompar alla flóruna. Hverjir eiga alla peningana? Hverjir stjórna heiminum? Hvítir miðaldra karlar, helst kristnir.
En þarna er það komið. Valdahópar samfélagsins hafa  eignað sér orðræðu og baráttuaðferðir minnihlutahópanna. Þarf ekki nema líta til aumingja, vesalings forsætisráðherrans og flokkssystkina hans sem eru beinlínis lögð í einelti af vondu fólki og fjölmiðlum.

Í vetur sem leið leyfði ég mér að gagnrýna stjórnsýslu meirihlutans og verndun hans gagnvart útvöldu fólki. Þessi gagnrýni var tekin upp af fjölmiðlum og valdaklíkan snerist til varnar. Er skemmst frá því að segja að ég er vondur niðurrifsseggur sem á varla skilið að búa í góða samfélaginu með góða fólkinu.
Ég get alveg viðurkennt að mér fannst þetta mjög erfitt. En ég ræð víst alveg 1/7 í sveitarfélaginu* og er þ.a.l. einn af valdhöfum samfélagsins (fram að helgi) þótt í minnihluta sé. Ég gaf kost á mér í opinbert embætti.

Það gerði Styrmir Barkarson hins vegar ekki. Hann er almennur borgari í Reykjanesbæ sem dirfist að blogga um stjórnsýslu bæjarins. Meðferðin á mér bliknar í samanburði við útreiðina sem Sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ finnst eðlilegt að veita honum. Þvílíkt og annað eins hef ég aldrei séð.
Þetta er þöggun í sinni svæsnustu mynd. Og hún snertir ekki bara þennan eina mann, hún snertir okkur öll. Því allir samfélagsgagnrýnendur munu hugsa sig tvisvar um áður en þeir byrja að pikka á lyklaborðið. Sem er að sjálfsögðu tilgangurinn. Valdhafarnir eru að tryggja sér áframhaldandi völd. Aumingja, vesalings þeir.




*Einhver sú heimskulegasta fullyrðing sem ég hef séð en hvað um það.

miðvikudagur, maí 28, 2014

Að sundra með sameiningu

Þegar ég var krakki í grunnskóla var settur á okkur berklaplástur árlega. Það var mjög vont að taka hann af og reyndi ég yfirleitt að juða honum si sona hægt og rólega af tímunum saman. Þegar mamma mín var orðin þreytt á þessu nuddi réðst hún á mig og reif skrambans plásturinn af í einum rykk. Ár eftir ár. Og á hverju einasta ári hataði ég þessa konu, í svona ca. 10 sekúndur en þá leið sviðinn frá og ég gleymdi þessum óbærilega, hroðalega sársauka og illsku alheimsins sem átti í samráði við móður mína. Í u.þ.b. ár.

Móðir mín vissi ekki af þessum möguleikum.

Þessi minning hefur iðulega skotið upp kollinum þegar umræður um sameiningu skóla í Þingeyjarsveit ber á góma. Sem er oft. Ár eftir ár eftir ár....
Það hefur sem sagt verið í deiglunni eins lengi og elstu menn muna (kannski ekki alveg en feels like it) að sameina þessa þrjá grunnskóla (eða tvo, það fer eftir því hvernig á það er litið) sem reknir eru í Þingeyjarsveit. Kannski rétt að taka fram fyrir ókunnuga að Þingeyjarsveit byggja rétt rúmlega 900 manneskjur og af þeim eru u.þ.b. 100 á grunnskólaaldri. Fyrir þessa hundrað eru reknir 3 skólar.
Nú þætti einhverjum blasa við að þetta sé ekki sérstaklega hagkvæmt rekstrarform og það er fullkomlega rétt ályktað. Hagræðingarkrafan er yfirleitt fyrirferðamest en Óskar Sandholt sem skrifaði mastersritgerðina Rannsókn á tilgangi og árangri sameiningar grunnskóla 1996 - 2004 telur upp 9 ástæður sem helst eru nefndar fyrir sameiningu:
Í rannsókn Rutar (2004) kemur fram að í undirbúningi sameiningar hafi bæði verið rætt um fagleg og fjárhagsleg rök. Helstu rökin voru (1) betri nýting á sérþekkingu starfsfólks, (2) samnýting gagna, (3) samnýting á tölvubúnaði, (4) fjölbreyttari valgreinar, (5) möguleikar á faglegu samstarfi starfsliðs, (6) auðveldara verði að taka á viðkvæmum málum í stærri einingum en smærri, (7) meiri sveigjanleiki í nýtingu starfsfólks, (8) auknir möguleikar í samstarfi um íþróttakennslu og sérkennslu og (9) minni kostnaður við rekstur skólanna. (Sandholt, bls. 34.)
 
Þótt mér finnist alltaf gott að spara peninga þá tel ég að hið opinbera hafi tveimur frumskyldum að gegna; Annars vegar að hjúkra þegnum sínum og hins vegar að mennta þá. Mér þykir eðlilegt að þetta tvennt kosti peninga. Mig langar að nefna hér til 10. ástæðuna fyrir sameiningu grunnskóla sem er félagslegi þátturinn.
Fyrir 4 árum síðan var ég í framboði fyrir Framtíðarlistann og ástæðurnar sem við gáfum upp voru þessar:
Í dag eru 35-50 nemendur í hverjum skóla. Við teljum það of fámennt.Vegna fámennis í skólunum eru einstaka nemendur vinalausir. Þá er samkennsla í öllum skólunum. Samkennsla býður heim þeirri hættu að námsefnið henti ekki þroska allra nemenda og ef sitthvort námsefnið er viðhaft að kennartíminn nýtist ekki sem skyldi. Fámennið er að verða slíkt að skólarnir geta ekki boðið sérgreinakennurum sínum fullar stöður. Það þýðir að það eru ekki alltaf faggreinakennarar að kenna fögin. Við erum ekki að bjóða börnunum okkar upp á það besta sem við getum boðið. Með sameiningu skólanna getum við það frekar. 
Ég er enn þessarar skoðunar. Og þar sem ég er ekki í framboði og þarf ekki að vera vinsæl og veiða
sem flest atkvæði með málamiðlunum og sannfæringarafslætti þá ætla ég bara að halda mínum gömlu, mygluðu skoðunum.

Þá leyfi mér einnig að álíta að ég sé ekki ein um þessa skoðun þótt hún sé ekki í framboði í þetta skiptið og vísa til, og biðst afsökunar á endurteknu efni, þriggja  skólaskýrslna sem sýna vilja til sameiningar... Lesið bara skýrslurnar.

Þótt vilji sé til sameiningar þá vill engin/n gefa eftir ,,sinn" skóla. Til að koma til móts við það hefur verið gripið til þess úrræðis að ,,sameina" skóla en hafa jafnmargar starfsstöðvar eftir sem áður. (Ekki bara hér.)
Nú skil ég ekki almennilega tilganginn með starfsstöðvum.  Þegar fólk er sameinað í hjónaband þá er gerð sú krafa að það hafi sameiginlegt lögheimili. Er jafnframt til þess ætlast að það búi saman. Auðvitað kemur þar inn í ákveðin, hmmm... Nándarþörf ... en þið vitið hvað ég meina. Sameining tveggja felur í sér samveru þeirra.


Mér hefur alltaf fundist hinn félagslegi þáttur skólasameiningarinnar vera mikilvægastur. Við skulum ekki gleyma því að jafnvel þótt þessir þrír örskólar verði sameinaðir þá verður Grunnskóli Þingeyjarsveitar fámennur skóli. (Sbr. Óskar Sandholt bls. 21-22).
Þá segir Harpa Þ. Hólmgrímsdóttir í mastersritgerð sinni „Maður var alveg spenntur og svona smá kvíðinn“  sem fjallar um reynslu nemenda á unglingastigi af því að vera í skóla sem lagður er niður
og hefja nám í nýjum skóla:
 Núna eru þeir yfirleitt sáttir við sameininguna á þeim forsendum að það sé aðallega félagslega en stundum námslega hagkvæmt fyrir nemendur. (bls. 111)
 Til þess að börn verði vinir verða þau að hittast. Til að nemendur verði skólafélagar verða þeir að ganga í sama skólann. Ekki einu sinni til tvisvar í viku heldur ganga beinlínis í sama skólann, hafa sömu kennarana, nema við sömu aðstæðurnar.  Með því að hittast annað slagið í skóla hvers annars er annar hópurinn á heimavelli, hinn í heimsókn. Önnur starfsstöðin er alltaf forsjárlaus.
Það getur vel verið að það felist einhver sparnaður í því að láta skólastjórann keyra á milli en á móti kemur, óttast ég, (gleymum ekki að mér getur skjátlast þótt það sé afar fátítt) að báðir skólar verði skólastjóralausir.
Í 53. fundargerð Fræðslunefndar Vesturbyggðar,  þar sem þrír grunnskólar hafa verið sameinaðir sem  þrjár starfsstöðvar undir Grunnskóli Vesturbyggðar segir:
Allir telja starfsandann góðan. Þeir telja aðgang að stjórnendum góðan og upplýsingaflæði gott, aftur kemur fram að ánægjan er meiri í Patreksskóla en í hinum deildunum enda er aðgengi að stjórnendum þar meira. En samskipti milli deilda hafa stóraukist bæði með árganga- og fagfundum, stjórnendafundum, tölvusamskiptum og fjarfundum í gegnum fjarfundabúnaðinn.(Leturbreyting mín.)


Miðað við þetta orðalag virðist gengið að því sem vísu að nálægð og viðvera skólastjórans skipti verulegu máli.
Það er eðlilegt að bregðast við andstöðu íbúa við kerfisbreytingum og tel ég að rekstur starfsstöðva komi til af því. Það er verið að juða plástrinum af. Hins vegar er líka gott að átta sig á hverjir það eru sem veita mestu andspyrnina:

Það mun vera þekkt staðreynd í heimi stjórnunarfræða að helstu ástæður þess að breytingar ná ekki að ganga eftir má rekja til andstöðu starfsmanna (Lewin, 1997).
Því er mikilvægt að undirbúa breytingaferlið vel. Að innleiða breytingar eða hvetja til breytinga þýðir í raun að verið er að létta af ákveðinni kyrrstöðu eða óbreyttu ástandi (e. status quo) sem ríkt hefur innan kerfis. (Sandholt, bls. 39.)

Það er fullkomlega eðlilegt að þeir einstaklingar sem eiga lífsviðurværi sitt undir rekstri skóla standi gegn breytingum á skólanum. Hér verða pólitískir fulltrúar og kjósendur að meta hvað vegur þyngst. Atvinna fólks er jú, afar mikilvæg og oftast grundvöllur veru þess í tilteknu sveitarfélagi.

Þá tel ég verulegar líkur á að við séum lent í ,,gildru sameiginlegra ákvarðana.":
 Hjalti kemst einnig að því að nokkur hætta sé á að fræðslumál Hornafjarðar geti lent í svokallaðri „gildru sameiginlegra ákvarðana“ (e. joint decision trap) sem er hugtak sem Blom-Hansen (1999) hefur meðal annarra fjallað um. Í stuttu máli nær hugtakið yfir það ástand sem myndast í lýðræðisstjórnkerfi þar sem margir aðilar hafa ígildi neitunarvalds. (Sandholt, bls. 36.)

Á nokkrum stöðum hefur verið gripið til þess ráðs að sameina skóla og reka sem nokkrar starfsstöðvar. Ég hef ekki lagst í mjög ítarlega rannsóknarvinnu enda er þetta eftir allt saman aðeins bloggfærsla en í fljótu bragði hef ég fundið fyrrnefndan Grunnskóla Vesturbyggðar, Grunnskólann austan vatna, Vættaskóla í Reykjavík, Grunnskóla Bláskógabyggða og Grunnskóla Fjallabyggðar. Ég veit þeir eru fleiri en ég nenni satt best að segja ekki að leita lengur.

Með alla þessa starfsstöðva-skóla ætti að vera hægur vandi að fá upplýsingar um hvernig til hefur tekist. Enn sem komið er hafa engar fræðilegar skýrslur vera gerðar en ég veit til að ein er í undirbúningi. Þá veit ég líka að unnið er að undirbúningi tillagna í tveimur sveitarfélögum (ekki endilega af neinum ofantalinna) hvort ekki sé rétt að stíga þetta skref til baka.

Ég hef ekki leynt því að mér hugnast betur hrein og klár sameining en starfsstöðva-fyrirkomulagið. Óskar Sandholt segir í ritgerð sinni:

Þar sem sameiningarferlum hefur að fullu verið lokið virðist sem
meiri ánægja ríki með árangur heldur en þar sem ferlið hefur verið stöðvað, því frestað eða annað truflað það. (Sandholt, bls. 107.)
Persónulega finnst mér þá skárra að hafa alla skólana þrjá starfandi, hvern með sinn skólastjóra, frekar en að láta svona óvissuástand vara árum saman. Að vísu er búið að eyða ca. 300 þús. í sálfræðing til að komast að því að starfsfólki Þingeyjarskóla líður alveg ljómandi vel. Er það vel.


Ég geri ráð fyrir að engin/n nenni að lesa þessa langloku alla en ástæðan fyrir þessum skrifum mínum er sú að þótt mér hugnist skólastefna Samstaða betur þá hugnast mér annað verr og kýs því Sveitunga. Ég óska eftir að væntanlegir fulltrúar mínir í sveitarstjórn íhugi vel hvaða skref verði tekin í sameiningarmálum og geri orð Óskars að mínum lokaorðum:


Þó skólar séu í hugum flestra bundnir við ákveðna byggingu eða staðsetningu
þá er skóli í raun miklu frekar starfsemi sem fer fram á ákveðnum stað eða stöðum (Börkur Hansen, 1994). Mikilvægi staðsetningar þeirra felst þannig einkum í skoðunum, smekk, vana og fjarlægð frá heimili þó ekki skipti allir þessir þættir máli varðandi heill nemenda (Fanning, 1995). Miðað við niðurstöður rannsóknarinnar er gamalgróinn hrepparígur og ef til vill lítt rökstutt álit á því að skóli skuli starfa í tiltekinni byggingu, fyrst og fremst af gömlum vana, algeng uppspretta misklíðar við sameiningu. Ef marka má niðurstöður rannsóknarinnar virðist það til dæmis geta gefið góða raun að finna ónotuðum skólahúsum hlutverk sem íbúar telja mikilvægt. (Sandholt, bls. 117-118.)
Sameining er flókið, viðkvæmt og vandmeðfarið ferli sem krefst skýrrar sýnar og vandaðrar ígrundunar á kostum og göllum. Góð reynsla af sameiningu grunnskóla er algengari en slæm en eðli málsins samkvæmt er til mikils að vinna að koma í veg fyrir að ferlið takist illa. (Sandholt, bls. 128.) (Leturbreyting mín.)





Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...