mánudagur, maí 10, 2004

Ég er nú bara að velta því fyrir mér að byrja aftur að blogga fyrst Blogger er kominn með svona raffineraða og fína fonta við hæfi virðulegrar kennslukonu.
Sem betur fer er skólaárinu að ljúka og ,,sumarfríið" blasir við. Ég sé nú reyndar ekki fram á mikið sumarfrí þetta árið en ef Kennarasambandið stendur sig almennilega og gerir góðan samning þá er kannski von til þess í framtíðinni að ég fái sumarfrí. Svo er náttúrulega alltaf möguleiki að flytja sig upp í framhaldsskóla. Þeir gerðu góða samninga síðast.
Fæ útrás fyrir ergelsið í samningu svívirðilega þungra prófa (hehe). Svo það er eins gott fyrir ykkur að lesa vel...

Fór í meinta kröfugöngu 1. maí síðastliðinn. Eða öllu heldur, ég og litla frænka römbuðum með nokkrum hræðum einhverja krókaleið niður hallærisplan, fyrir bílunum því götunum var ekki einu sinni lokað. Þar var boðið upp á ljóðalestur og söng. Engar kraftmiklar ræður eða svoleiðis neitt. Neinei, ekkert verið að ofreyna sig á verkalýðsbaráttunni neitt. 1. maí fer nú bara að deyja út ef fer sem horfir.
Þegar ég fer að hugsa um það þá man ég ekki eftir neinum verkföllum árum saman. Ég man eftir langvinnum verkföllum í æsku minni en engum nýverið. Það er eins og það sé alltaf samið á síðustu stundu. Mér hefur oft dottið í hug að kannski sé málið það að fólk þori ekki lengur í verkfall eða sé bara orðið góðu vant. Það er kannski þversögn í sjálfu sér að fólk fari ekki í verkfall til að heimta hærra kaup af því að það hafi það svo gott. En ég held að við séum óvön því að berjast fyrir einhverju. Og það að fá ekki laun í einhvern tíma sé eitthvað sem fólk getur ekki verið án. Kannski vegna þess að afborganir af neyslulánum eru svo miklar. Af bílalánunum og yfirdrættinum og Guð má vita hverju. Svo við getum ekki farið í verkfall til að heimta hærra kaup til að auðvelda okkur greiðslubyrðina af því að við gætum orðið fallítt í verkfallinu svo við sættum okkur við lágu launin! Blah...
Ætti maður að byrja á þessu aftur?