laugardagur, júlí 15, 2023

Krossinn sem ég ber

 Það er ungur maður á facebook sem hefur gaman að því að tilkynna hvaða dagur er. Það er bara fínt, þetta er falleg sál og ég læka þetta yfirleitt hjá honum. Hins vegar fékk ég sting í hjartað í dag. Á þessum degi fyrir sextán árum síðan lá ég inni á spítala og hafði þegar verið í þrjá daga. Það var verið að reyna að framkalla fæðingu litlu stúlkunnar minnar sem ég var gengin með 24 vikur en í sónar þremur dögum áður kom í ljós að það var enginn hjartsláttur. Stúlkan var dáin. Það átti eftir að taka tvo daga í viðbót að ná að framkalla fæðinguna. Í fimm daga gekk ég vitandi með dána barnið mitt. Hún var auðvitað búin að vera dáin lengur, ég bað um skoðun því ég hætti að finna hreyfingar. Ég veit að einstaklingur sem hefur aldrei gengið með barn, hvað þá fætt, getur skilið þetta. Að finna barnið hreyfa sig og sparka og svo hættir það. Að fæða barn og það er dauðaþögn.  

Við foreldrarnir vorum niðurbrotnir. Ég dró mig í hlé og grét. Pabbinn var reiður út í heiminn. Ég gat ekki hugsað mér að vera heima hjá okkur svo við fórum í burtu í nokkra daga. Við vorum svo sem ekki búin að undirbúa neitt en þarna hafði hún lifað, þarna hafði hún sparkað í innanverðan magann á mér. Þarna hafði mig dreymt um framtíðina með henni. Þarna hafði pabbi hennar talað við hana í kúlunni og leikið við hana. 


Hún átti að heita Þórhildur í höfuðið á ömmu sinni, Tóta litla, en við ákváðum að spara nafnið í von um lifandi stúlku. Við kölluðum hana því Björgu. Langamma hennar og frænka hétu Aðalbjörg. Amma hennar og frænkur heita Ingibjörg. Frænka hennar heitir Björg að millinafni. Okkar fannst því nafnið passa. Það var líka lítið eins og hún. 

Ég man ekki hvernig hlutirnir gerðust, þetta er allt í móðu, okkur hefur sennilega verið boðið að halda athöfn og kveðja og við þáðum það. Það var falleg lítil athöfn í kapellunni hjá kirkjugörðum Akureyrar ef ég man rétt með okkar nánustu. Mamma mín vildi endilega að ég léti krossinn minn með henni sem var alveg sjálfsagt. Því miður þegar til kom þá grét ég svo mikið að ég gat ekki sett krossinn sjálf um hálsinn á litlu dóttur minni. Þann kross mun ég bera um ómunatíð. 

Svo keyrðum við með pínulitla líkkistu í kirkjugarðinn í Þóroddsstað þar sem við settum hana í gröfina sem pabbi hennar hafði tekið hjá langafa hennar og -ömmu. 


Auðvitað var þetta erfitt. Að bíða eftir niðurstöðu úr krufningunni. Var ég með genagalla? Þýddi eitthvað að reyna aftur? Að reyna aftur var rosalega erfitt. Þegar ég var komin á 24 viku með eldri strákinn fékk ég háþrýsting af streitu. Báðar seinni meðgöngurnar voru meðhöndlaðar sem áhættumeðgöngur og ég var í sérstöku eftirliti. Fyrir það er ég ævarandi þakklát. Ég mátti koma hvenær sem var til að hlusta á hjartsláttinn þeirra. Það var ekkert undirbúið nema það nauðsynlegasta. Pabbinn talaði aldrei við þá né lék við þá í kúlunni.  

Ég veit alveg nákvæmlega hvenær hún hefði átt að byrja í skóla. Hvenær hún átti að fermast. Hvenær hún átti þetta eða hitt. Ég er alveg með það á hreinu að hún hefði átt að byrja í framhaldsskóla í haust. En við fengum ekki neitt af þessu. Hún fékk ekki líf.  


Kannski er ég rosalega sjálfselskufull og eigingjörn en þessi atburður er okkar missir, okkar sorg. Einskis annars.  




föstudagur, júlí 14, 2023

Kristófer Torfdal og orðræðan

Raunveruleikinn er skrítin skepna. Hann fer nefnilega algjörlega eftir túlkun. Fátt getum við hugsað okkur hryllilegra en barnsmorð en engu síður báru forfeður og mæður okkar út börn í unnvörpum. Það var gert til að hin börnin hefðu möguleika á að lifa. Túlkunaratriði. 

Túlkun raunveruleikans fer fram með orðum, sá sem ræður orðræðunni eða narratívinu á vondri íslensku ræður raunveruleikanum. Við höfum auðvitað séð þetta margoft, orðræða karla hefur meiri hljómgrunn en orðræða kvenna, orðræða ríkra hefur meiri hljómgrunn en orðræða fátækra. Ég nenni ekki að tína til dæmi enda alþekkt. Halldór Laxness vissi þetta auðvitað eins og flest annað. Hafi ég ekki sagt það áður þá vil ég endilega koma því á framfæri nú; pabbi minn hélt því fram að það væri ekkert í mannlegu samfélagi sem Laxness hefði ekki fjallað um í bókum sínum.  





Ég hef kennt
Sölku Völku nokkrum sinnum og því lesið hana alloft. Salka Valka var skrifuð 1931 (Þú vínviður hreini) og 1932 (Fuglinn í fjörunni) og það kemur mér alltaf jafnmikið á óvart hversu mjög bókin kallast á við samtíma okkar. Í vetur kallaðist verkalýðsbaráttan á Óseyri við Axlarfjörð ákaflega á við verkalýðsbaráttu Eflingar í Reykjavík nútímans. 

Orðræðan um Sólveigu Önnu rímaði á stundum ískyggilega við orðræðuna um Kristófer Torfdal, æstasta bolsévika Íslands, í bókinni. 

Laxness byggði Kristófer Torfdal úr tveimur samtímamönnum sínum; annars vegar Ólafi Friðrikssyni ritstjóra og hins vegar Jónasi Jónssyni frá Hriflu.  


Kristófer Torfdal er fyrst nefndur til sögu í Fuglinum í fjörunni þegar Guðmundur Jónsson kadett biður Sölku um að lesa yfir bréf sem hann hefur skrifað til konungsins til að biðja um fjárstyrk. Það má til gamans nefna að Guðmundur kadett trúir því að guð ráði stéttaskiptingunni í heiminum (bls. 225) en Salka heldur að hún sé náttúrulögmál (bls 311). Nú hengjum við okkar á að hæfni ráði. Allt er þetta vitlaust en gott dæmi um hvernig við reynum að rökstyðja raunveruleikann í kringum okkar. Arnaldur Björnsson veit að ekkert er ljótara en fátæktin (bls 310).  


En aftur að Kristófer Torfdal. Það ganga um hann ýmsar sögur, m.a. sú að hann héldi alls konar villidýr á heimili sínu sem ætti seinna að hleypa út í byltingunni. 




Múgsefjunin verður slík að nokkrir piltar brjótast inn og hleypa dýrunum út. Þá kemur í ljós að óargadýrin miklu voru hrafnar og tófur. 




Það kemur m.a.s. upp úr dúrnum að Kristófer Torfdal er vísindamaður sem var að gera tilraunir.



Þetta þykir mér gott dæmi um hvernig orðræða stjórnar skynjun okkar og býr til eitthvað sem við höldum að sé raunveruleikinn. (Hellakenning Platós, anyone?) Kristófer Torfdal var hættulegur maður, um það þarf ekki að deila. Hann ógnaði þeim stöðugleika sem ríkti og þá fyrst verða valdhafar vitlausir þegar fjármagnið á að færast í annarra hendur. Þannig að orðræðan verður öll hin ýktasta og er til þess gerð að halda völdum og fjármunum í réttum höndum.

En Laxness vinur minn hann vissi líka að byltingin færir völdin aðeins á milli þeirra ríku þótt hinum fátæku blæði. Jóhann Bogesen er fulltrúi auðvaldsins og sá sem Kristófer og sérstaklega Arnaldur hafa barist gegn.

  


 Kristófer Torfdal, æstasti bolséviki landsins, er nefnilega ekki bolséviki fyrir fimm aura.



Orðræðan er svo oft einfeldningsgildra.



Færsla Lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það mun mér hæfara fólk fjalla um þessa færslu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra en það eru nokkrir hlutir í þessu sem mig sem almennur áhor...