föstudagur, febrúar 26, 2016

Aldrei nóg af bókasöfnum.

Það er ýmislegt sem vantar í dreifbýlið, verslanir og þjónustu. En eitt af því sem vantar alveg örugglega ekki eru bókasöfn. Mér reiknast til að nú séu þrjú bókasöfn starfrækt í Þingeyjarsveit. Tiltölulega nýlega búið að sameina þrjú bókasöfn í Stórutjarnaskóla svo þeim hefur þó heldur fækkað. Ekki veit ég af hverju það þarf öll þessi bókasöfn, svona miðað við að við náum ekki þúsund hræðum. Þetta er kannski gamall baðstofusiður sem heldur velli í sveitinni. 


Kannski er eitthvað brjálað félagslíf í kringum bókasöfnin, allt bara hot and happening, ég veit það ekki.

Anyways...
Fyrir stuttu var Bókasafn Aðaldæla flutt með pompi og prakt úr kjallara Ýdala og yfir í skólahúsið. Það hefur nú væntanlega kostað eitthvað. Er kannski inni í 60 milljónunum sem fóru í viðhaldið í fyrra. Það er svo sem allt í lagi, það er algengt að halda úti skólabókasöfnum þótt ég sjái ekki að það sé skylda.
En svo ég komi mér nú að þessu.
Eins og fólk kannski rámar í þá voru sameinaðir tveir skólar í eitt hús í Þingeyjarsveit í fyrra. Ég gæti hafa minnst á það einu sinni eða tvisvar. Það þýðir að eftir stóð eitt hús ónotað. Ég man ekki hvort það komu einhvern tíma fram hjá vinum mínum heittelskuðum í Samstöðu einhverjar hugmyndir um í hvað ætti nota hið yfirgefna skólahús en það var alla vega ákveðið á sveitarstjórnarfundi þann 5.2.2015 eftirfarandi samþykkt:
„Sveitarstjórn samþykkir að leggja núverandi skólahús Litlulaugaskóla undir starfssemi er tengist mótvægisaðgerðum vegna breytinga í skólamálum sveitarfélagsins.
Innviðum húsnæðisins verður ekki breytt með varanlegum hætti á tímabilinu.
Bókasafn Reykdæla heldur aðstöðu sinni til að þjónusta íbúa með óbreyttum hætti.
Eldhúsið verður notað til að sinna verkefnum í tengslum við grunnþjónustu sveitarfélagsins og starfsemi sem verður í húsinu.
Þessi samþykkt gildi til næstu tveggja ára og tekin til endurskoðunar innan þess tíma.
Hugmyndin er að húsið verði umgjörð um starfsemi á sviði sköpunar, þekkingar, tækni, hugverka og handverks. Frekari hugmyndir um starfsemi í húsinu og umgjörð hennar verða unnar í samráði við íbúa sveitarfélagsins.
Sveitarstjóra og oddvita falið að vinna að framgangi málsins.“ (Leturbreytingar mínar.)
Ókey, ég er kannski ekki brattasta mannvitsbrekkan en mér finnst blasa við að ekki eigi að breyta neinu í tvö ár, frá 5. febrúar 2015 til 5. febrúar 2017. Það eru tvö ár, ekki satt?
Svo var ráðinn verkefnisstjóri mótvægisaðgerða frá 1. ágúst 2015-31. des. 2015. Það stendur í fréttinni: "höfuðáherslu á framtíðarnotkun skólahúsnæðis Litlulaugaskóla." Jú, allt í lagi. Síðan var Seigla stofnuð og ýmislegt í gangi.

Nú heyri ég utan að mér að ákveðið hafi verið að færa bókasafn Litlulaugaskóla af efstu hæðinni niður þar sem mötuneytið var og að sú aðgerð eigi að kosta litlar 10 milljónir króna. 
Eins og ábyrgum þjóðfélagsþegni sæmir trúi ég ekki öllu eins og nýju neti heldur sest við tölvuna og fletti upp á fundargerðum ástkærra leiðtoga vorra. Þar finn ég ekkert um breytingar á bókasafni fv. Litlulaugaskóla annað en þetta þann  12.11.2015: 
"Sveitarstjórn samþykkir framlagða kostnaðaráætlun vegna starfsemi Seiglu og vegna breytinga á Bókasafni Reykdæla og vísar til gerðrar fjárhagsáætlunar 2016."
 Ég finn ekkert um hvaða breytingar þetta eru né hvað þær eigi að kosta. Hins vegar er mér einnig sagt að framkvæmdir séu hafnar.
Kannski er það bara ég en eiga íbúar ekki rétt á að vita hvað valdhafar eru að sýsla með almannasjóði? Er ég of kröfuhörð?

Það eru ákveðnir hlutir hérna sem ég skil ekki:

Ef verið er að færa bókasafnið niður í mötuneytið (takið eftir ef-inu, því ég veit i rauninni ekkert hvað er verið að gera) hvernig á þá mötuneyti/eldhús fyrir Krílabæ að geta verið þar áfram?

Eru þetta ekki breytingar á innviðum hússins?

Er búið að taka endanlega ákvörðun um starfsemi Seiglu og að hún verði þarna til framtíðar? (Ég hef ekkert á móti því, mér finnst bara eðlilegt að íbúar viti af svona ákvörðunum.)

Er þá einnig búið að taka ákvörðun um að ekki verði reynt að selja húsnæðið?

Það eina sem mér sýnist öruggt er að grunnskóli verður ekki starfræktur framar í þessu húsnæði. Það er þá ágætt að það sé á hreinu.

Mér finnst líka svolítið fúlt hvernig hægt er að demba sér í sumar framkvæmdir eins og ekkert sé á meðan aðrar fá að sitja á hakanum. Það þarf t.d. að malbika planið fyrir framan Ljósvetningabúð en það er ekki hægt. Svo virðist þurfa að laga eitthvað við Goðafoss.

Svo þætti mér gott að fá einhvern rökstuðning fyrir þessari framkvæmd því ég sé ekki fljótt á litið neina þörf fyrir henni.

PS.
Það kostar ca. 20 milljónir að kaupa lesbretti fyrir alla íbúa sveitarfélagsins.